Fara í efni
Mannlíf

Jaðarsvöllur kemur vel undan vetri

Hlýir sunnan og suðvestan vindar hafa blásið á Akureyri síðustu daga og sólin skinið skært. Skíðamenn gleðjast ekki sérlega vegna þessa enda hefur snjó tekið upp og blásið úr óheppilegum áttum, þannig að skíðasvæðið hefur verið lokað og verður hugsanlega um helgina. Kylfingar hafa hins vegar tekið gleði sína því eftir snjóþungan vetur hafa flatir Jaðarsvallar birst mönnum hver af annarri undanfarna daga, svona líka ljómandi fallegar og alveg lausar við klaka.

Á vef Golfklúbbs Akureyrar sagði í gær að starfsmenn klúbbsins hafi unnið hörðum höndum í vetur að létta á snjó og tryggja það að snjór og klaki fari af flötunum eins fljótt og mögulegt er. Meðfylgjandi myndir, sem teknar voru í gær og birtar á vef GA, sýna að vel hefur tekist til og því full ástæða til að hlakka til sumarsins. Íslandsmótið fer fram á Jaðarsvelli 5. til 8. ágúst, þar sem keppt verður um Íslandsmeistaratitil karla í 80. skipti og í 55. skipti í kvennaflokki, við bestu hugsanlegu aðstæður af að líkum lætur.