Fara í efni
Mannlíf

Ýmist í ökkla eða eyra hjá Þórsliðunum

Þau voru stigahæst Þórsara í leikjum dagsins. Axel Arnarsson með 21 stig gegn Haukum og Emma Karólína Snæbjarnardóttir með 33 stig gegn ÍR. Myndi: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Körfuboltalið Þórs áttu misjafnan dag í 1. deild karla og kvenna í dag og verður seint sagt að leikir dagsins hafi verið spennandi. Karlaliðið tapaði með 42 stigum fyrir Haukum í Hafnarfirði, en stuttu síðar vann kvennaliðið ÍR-inga í Breiðholtinu með 54 stigum. Axel Arnarsson var stigahæstur Þórsara gegn Haukum, skoraði 21 stig. Emma Karólína Snæbjarnardóttir skoraði 33 stig í sigrinum á ÍR. 

Haukar með fullt hús

Fyrir leikinn gegn Þór höfðu Haukar unnið fyrstu fjóra leiki sína í deildinni og virðast stefna hraðbyri aftur upp í Bónusdeildina, þaðan sem liðið féll í vor. Haukar náðu tíu stiga forskoti í fyrsta leikhluta, en Þórsarar náðu að jafna. Haukar þó með fimm stiga forskot að loknum fyrsta leikhlutanum og héldu svo áfram að bæta við það og leiddu með 19 stigum eftir fyrri hálfleikinn. Þeir héldu svo jafnt og þétt áfram að bæta í forskotið og voru á enanum komnir 42 stigum á undan Þórsurum.

  • Haukar - Þór (25-20) (24-10) 49-30 (30-19) (31-19) 110-68

Atkvæðamestur í liði Hauka var Kinyon Hodges með 25 stig, en stigaskorið skiptist að öðru leyti nokkuð jafnt innan Haukaliðsins. Axel Arnarsson skoraði 21 stig fyrir Þór.

Helstu tölur Þórsliðsins, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Axel Arnarsson 21/5/5
  • Paco Del Aquilla 17/3/1 - 19 framlagspunktar
  • Christian Caldwell 7/8/2
  • Andri Már Jóhannesson 7/8/1
  • Páll Nóel Hjálmarsson 6/0/1
  • Finnbogi Páll Benónýsson 4/6/1
  • Smári Jónsson 3/5/4
  • Týr Óskar Pratiksson 3/1/0
  • Pétur Cariglia 0/3/4

Haukar eru efstir í deildinni, hafa unnið fimm fyrstu leiki sína, eins og Breiðablik. Þórsarar hafa reyndar spilað við bæði þessi lið. Þór er í 10. sæti deildarinnar með einn sigur í fyrstu fimm leikjunum. Hamar og KV eru einnig með einn sigur, en Fylkir er á botninum án sigurs.

Tölfræði leiksins.

Staðan í deildinni.

Fjórði sigur kvennaliðsins

Leikur Þórs og ÍR í 1. deild kvenna varð aldrei spennandi frekar en viðureign karlaliðs Þórs og Hauka í Hafnarfirðinum. Strax í fyrsta leikhluta var munurinn orðin 22 stig og leikurinn einstefna frá upphafi til enda. Þórsliðið var 32 stigum yfir eftir fyrri hálfleikinn og munurinn orðinn 54 stig í leikslok. 

ÍR - Þór (12-34) (19-29) 31-63 (11-29) (23-30) 65-112

Emma Karólína Snæbjarnardóttir heldur áfram að skína í leik Þórsliðsins, skoraði 33 stig í leiknum, tók sex fráköst og átti þrjár stoðsendingar, var með 36 framlagspunkta. Chloe Wilson kom næst með 27 stig, 11 fráköst og þrjár stoðsendingar. Hjá ÍR-ingum var það Gréta Hjaltadóttir sem var mest áberandi, skoraði 21 stig, tók fimm fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Heiða Sól Clausen Jónudóttir skoraði 18 stig, tók fjögur fráköst og átti fjórar stoðsendingar. 

Helstu tölur Þórsliðsins, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 33/6/3 - 36 framlagspunktar
  • Chloe Wilson 27/11/3
  • Emilie Ravn 23/7/6
  • Yvette Adriaans 13/14/5
  • Hjörtfríður Óðinsdóttir 13/2/2
  • Iho Lopez 9/15/2
  • Sigurlaug Eva Jónasdóttir 2/2/4
  • María Sól Helgadóttir 2/2/1

Þór er í efsta sæti deildarinnar, hefur unnið fyrstu fjóra leiki sína. Aþena og Selfoss hafa einnig unnið fjóra leiki. Selfyssingar eru án taps eins og Þór, en Aþena hefur tapað einum.

Tölfræði leiksins.

Staðan í deildinni.