Fara í efni
Mannlíf

KA/Þór vann upp sjö marka mun og náði í stig

Tinna Valgerður Gísladóttir, fyrir miðri mynd, gerði 9 mörk fyrir KA/Þór í dag. Tinna gerði 7 markanna úr vítakasti, þar á meðal síðasta mark leiksins þegar hún jafnaði og tryggði KA/Þór stig. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór átti glæsilegan endasprett gegn Stjörnunni í leik liðanna í 7. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í dag. Lokatölur urðu 22-22 eftir að Stjarnan leiddi með sjö marka mun þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Tinna Valgerður Gísladóttir skoraði níu mörk fyrir Þór/KA, þar af sjö úr sjö vítum.

Jafnræði framan af

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn, en Stjarnan þó með frumkvæðið og leiddi með tveimur mörkum í leikhléi, 10-8. Stjarnan jók muninn í byrjun seinni hálfleiks og leiddi með 4-5 mörkum. Staðan var 17-13 þegar um 18 mínútur voru eftir af leiknum, en þá komu þrjú mörk í röð frá Stjörnunni, staðan orðin 20-13 og tæpur stundarfjórðungur eftir. Þá svaraði KA/Þór með fimm mörkum í röð, munurinn kominn niður í tvö mörk, 20-18, og tæpar tíu mínútur eftir.

KA/Þór minnkaði muninn í eitt mark þegar rúmar fimm mínútur voru eftir, en Stjarnan skoraði aftur, staðan 22-20 þegar fjórar mínútur lifðu leiks. Tvö síðustu mörkin komu hins vegar frá KA/Þór. Fyrst minnkaði Trude Blestrud muninn í eitt mark úr hægra horninu og Tinna Valgerður Gísladóttir jafnaði svo úr vítakasti fyrir KA/Þór þegar innan við mínúta var eftir. KA/Þór fékk svo aftur boltann þegar innan við hálf mínúta var eftir, en lokaskot Susanne Pettersen frá miðju geigaði.

Vonbrigði í ljósi stöðu liðanna

Niðurstaðan varð því jafntefli, sem verður að vissu leyti að teljast vonbrigði ef mið er tekið af gengi liðanna það sem af er móti, en þó frábærlega gert hjá KA/Þór eftir að hafa lent sjö mörkum undir og náð að jafna á síðasta stundarfjórðungnum. 

Fyrir leikinn var Stjarnan án stiga eftir fyrstu sex leikina og hafði þjálfari liðsins, Patrekur Jóhannesson, látið af störfum. Stjarnan hefur ekki tilkynnt um hver tekur við, en þær Hanna Guðrún Stefánsdóttir og Rakel Guðjónsdóttir voru titlaðir þjálfarar á leikskýrslunni. Breytingin virðist að minnsta kosti hafa haft einhver áhrif því Stjarnan leiddi lengst af og náði að lokum í sitt fyrsta stig í Olísdeildinni í vetur. 

ÍR-ingar tóku 2. sætið með sigri á liði Hauka í dag, en KA/Þór færðist niður í 3. sætið. Valur er á toppnum með 12 stig, ÍR er með tíu og KA/Þór með níu.

Helstu tölur úr leiknum:

Stjarnan

Mörk: Natasja Hammer 6, Inga María Roysdóttir 4, Aníta Björk Valgeirsdóttir 4, Vigdís Arna Hjartardóttir 3, Hanna Guðrún Hauksdóttir 2, Eva Björk Davíðsdóttir 1, Brynja Katrín Benediktsdóttir 1, Rakel Dórothea Ágústsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 14 (43,8%), Margrét Einarsdóttir 1 (24%).
Refsimínútur: 8.

KA/Þór

Mörk: Tinna Valgerður Gísladóttir 9 (þar af 7 úr vítaköstum), Trude Blestrud Hakonsen 4, Unnur Ómarsdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Lydía Gunnþórsdóttir 1 (úr víti), Kristín A. Jóhannsdóttir 1, Susanne Pettersen 1, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Bernadett Leiner 7 (30,4%), Matea Lonac 5 (45,5%).
Refsimínútur: 6.

Leikskýrslan á vef HSÍ.

Tölfræðin á hbstatz.is.

Staðan í deildinni.