Fara í efni
Mannlíf

Hús dagsins: Saurbær

Fremstur hinna þriggja hreppa, sem sameinuðust undir nafni Eyjafjarðarsveitar í ársbyrjun 1991, er Saurbæjarhreppur. Hann dregur nafn sitt af kirkjustaðnum Saurbæ. Bæjarhúsin og kirkjan standa á hól nokkrum við ystu rætur Hleiðargarðsfjalls, heitir þar Saurbæjarháls ofan við. Undir hólnum neðan við Saurbæ er fyrrum félagsheimilið Sólgarður, nú aðsetur Smámunasafnsins. Að bænum liggur um 170 m heimreið, nokkuð brött, af Eyjafjarðarbraut vestri en að Saurbæ eru um 28 kílómetrar frá Akureyri. Á Saurbæ stendur snotur torfkirkja frá 1858 (verður til umfjöllunar hér innan tíðar) en þar stendur einnig tæplega aldargamalt steinsteypt íbúðarhús með áföstum gripahúsum. Þau mannvirki eru reist eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar en fyrir þeim framkvæmdum stóð sr. Gunnar Benediktsson.

Íbúðarhúsið á Saurbæ er tvílyft steinsteypuhús á háum kjallara með háu valmaþaki, múrhúðuðum veggjum, bárujárni á þaki og krosspóstum í flestum gluggum. Á framhlið (austurhlið) eru steyptar tröppur með voldugu dyraskýli og ofan á því svalir. Áfast húsinu norðanmegin eru fyrrum gripahús og hlaða. Munu þau hús byggð í áföngum, fyrst fjósið norðan við og síðar hlaða. Fjósið er með lágu risi en hlaðan valmaþaki. Yngri fjárhús eru einnig áföst hlöðunni, sú bygging með mænisþaki og snýr stafni í norður. Grunnflötur íbúðarhúss er um 8x12m.

Saga Saurbæjar nær allt til landnámsaldar, og verður ekki rakin hér svo nokkru nemi, en þar bjuggu fyrst þau Auðunn rotinn og Helga, dóttir Helga magra. Líklega hefur staðurinn orðið kirkjustaður skömmu eftir kristnitöku, en hér var klaustur um aldamótin 1200. Auk kirkjustaðar var Saurbær prestsetur fram á 20. öld. Núverandi steinhús var einmitt byggt sem slíkt, en þjónaði aðeins sem prestssetur í örfá ár. Leysti það af hólmi torfbæ, sem á sinni tíð var einn sá stærsti í hreppnum.

Það var árið 1921, að sr. Gunnar Benediktsson kom að Saurbæ. Gunnar var fæddur að Viðborði á Mýrum í A-Skaftafellssýslu, kvæntur Sigríði Gróu Þorsteinsdóttur, en hún var úr Reykjavík. Þegar þau komu hingað mun torfbærinn mikli hafa verið orðinn hrörlegur og ekki liðið á löngu, að hugað var að byggingu nýs prestsseturs. Var það enginn annar en Guðjón Samúelsson sem fenginn var til að teikna nýtt prestssetur. Guðjón hafði numið í Danmörku og þar kynnst m.a. hönnun búgarða og var mjög hugleikið, að bæta húsakost í íslenskum sveitum. Á sama tíma sótti hann í íslenskar hefðir og var prestssetrið á Saurbæ gott dæmi um það. Húsin teiknaði hann í burstabæjarstíl, íbúðarhúsið með tveimur burstum en áfastar fjósbyggingar með þremur smærri. Á svipuðum tíma teiknaði hann auk Saurbæjarhússins tvö önnur „burstabæjarprestssetur", á Holti undir Eyjafjöllum og Bergþórshvoli. „Íbúðarhúsið var líkrar gerðar og hin fyrrnefndu [Holt, Bergþórshvoll] auk áfastra útihúsa með þremur göflum fram að hlaði. Saurbæjarhúsinu var valinn staður við andspænis torfkirkjunni frá 1858. Byrjað var að byggja húsið samkvæmt teikningu Guðjóns en því ekki lokið. Leifar þess mynda neðri hæð í núverandi tvílyftu staðarhúsi" (Pétur H. Ármannsson 2020:115). Varðveist hafa tvær teikningar af Saurbæ, önnur dagsett í janúar 1927 (Pétur H. Ármannsson 2020:116) en hin í apríl 1929. Helsti munurinn á þeim er sá, að á eldri teikningunni eru fjósburstirnar tvær og út frá þeim álma með lágu risi, sem snýr stafni í norður. Á yngri teikningunni eru útihúsin þrjár burstir. Áföst gripahús voru þó ekki byggð með burstalagi, heldur með lágu risi og valmaþaki.

Líkast til var nýja prestsetrið fullbyggt 1929, sbr. dagsetningu yngri teikninga en í Byggðum Eyjafjarðar er byggingarár sagt 1926 og er það í samræmi við Fasteignaskrá. Byggingarframkvæmdir gætu hafa hafist þá, en nokkurt ósamræmi mun hafa verið í fjárveitingum ríkisvaldsins og byggingaráforma Gunnars, þ.e. byggingarhraða. Oft þurfti sverar úttektir hjá KEA til að brúa það bil, svo séra Gunnar safnaði þannig miklum skuldum (Sbr. Gísli Sigurgeirsson, 2022). Hann naut þó nýja hússins ekki lengi, því hann fluttist héðan árið 1931. Lauk þar með hlutverki Saurbæjar sem prestssetur. Sigríður Gróa mun hins vegar hafa búið hér áfram í tvö ár eftir það eða til 1933. Seinni maður hennar var Tryggvi Helgason, en þau bjuggu um áratugaskeið að Eyrarvegi 13 á Akureyri. Sigríður Gróa var þó ekki ein á jörðinni því á þessu árabil bjuggu tvenn hjón önnur hér, þau Þórólfur Sigurðsson og Þórey Ingibjörg Friðriksdóttir sem og Eiríkur Elíasson og Fjóla Stefánsdóttir. Um svipað leyti og nýja húsið var fullbyggt, 1929, var sett upp símstöð á Saurbæ, sem þjónaði hreppnum í rúma hálfa öld, eða til 1981.

Þann 21. febrúar árið 1934 voru húsin í Saurbæ metin til brunabóta. Var þeim þá lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús, steinsteypt með járnþaki, kjallari með steinsteyptum skilrúmum. Tvöfaldir útveggir á stofuhæð, skilrúm og gólf úr steini, en timburgafl. Á lofti eru skilrúm úr timbri. Eldstæði og reykháfur voru sögð „fullnægja skilyrðum brunamálalaga“ (Sbr. Brunabótafélag Íslands 1934:nr.41a). Ábúendur voru þau Sveinbjörn Sigtryggsson og Sigríður Þorsteinsdóttir, bæði úr Saurbæjarhreppi, hann fæddur á Hólum en hún í Ytra Dalsgerði. Þau fluttust hingað árið 1933. Hér að framan kemur fram, að leifar upprunalegu burstabæjarbyggingar myndi neðri hæð í núverandi tvílyftu húsi. En það skýrist af því, að húsið skemmdist í miklum bruna snemma árs 1945. Laust eftir hádegi þann 31. janúar kviknaði í bæjarhúsinu og mun það allt hafa brunnið að steinsteyptri kjallarahæð. Engu var bjargað af efri hæð en nokkru af neðri hæð, skv. frásögn Dags 1. feb. 1945 og ekki segir af slysum á fólki. Talið var að kviknað hefði í út frá skorsteini (sem engu að síður „fullnægði skilyrðum brunamálalaga“ í brunabótamati). En bærinn var endurbyggður og nú í breyttri mynd, í stað burstana var byggð heil hæð og hátt valmaþak ofan á. Fékk húsið þá það lag sem það síðan hefur.

Tæplega hálfu öðru ári eftir brunann á Saurbæ var endurbyggingu lokið og þann 25. júlí 1946 heimsóttu fulltrúar Brunabótafélagsins bæinn og lýstu húsinu á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús úr steinsteypu, tvær hæðir með kjallara. Á húsinu er valmaþak. Útveggir tvöfaldir með tróði. Gólf og skilrúm úr steini. Loft á efri hæð úr timbri. Húsið allt málað og gólf dúklögð. Á neðri hæð: 3 stofur, eldhús og tvær forstofur. Á efri hæð 5 svefnherbergi og baðherbergi. Eigandi var kirkjujarðarsjóður (Brunabótafélag Íslands 1946:nr.101). Ábúendur voru þau Daníel Sveinbjörnsson og Gunnhildur Kristinsdóttir, en Daníel var sonur téðs Sveinbjarnar Sigtryggssonar og Sigrúnar Þuríðar Jónsdóttur. Kúabúskapur var löngum aðalsmerki Saurbæjar á 20. öld en þar voru einnig sauðfé og aðrar skepnur. Árið 1970, þegar skrásettar voru Byggðir Eyjafjarðar, voru alls 40 nautgripir á Saurbæ, 25 kýr og 15 geldneyti en einnig 213 fjár og 14 hross. Fjós er þá fyrir 32 kýr og fjárhús fyrir 270 fjár, hlöður rúma 1600 hesta af heyi og votheysgryfja fyrir 100 hesta (Ath. hestar er gömul mælieining fyrir hey, 1 hestur jafngildir um 100 kílóum af heyi). Túnstærð er þá 40,58 hektarar og töðufengur mælist um 2000 hestar (þ.e. 200 tonn af heyi). Þá er Sveinbjörn Daníelsson nýlega (1966) tekinn við búinu af foreldrum sínum ásamt Ingu Sigrúnu Ólafsdóttur (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:312).

Þau Sveinbjörn og Inga Sigrún eru ábúendur á Saurbæ árið 1990 þegar Byggðir Eyjafjarðar voru teknar saman annað sinnið. Þá voru aðeins fjögur geldneyti á Saurbæ, 12 hross en ágætt safn af fé, eða 218 fjár. Ræktað land var þá 41,2 hektarar (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:834). Þegar Eyjafjarðarbyggðum voru gerð skil þriðja sinnið, árið 2010, var Saurbær í kaflanum Gömul býli í Eyjafjarðarsveit en býlið mun hafa farið í eyði árið 2000. Síðasti skráði ábúandi var Hafdís Dögg Sveinbjarnardóttir dóttir þeirra Sveinbjarnar og Ingu Sigrúnar. Það er nú tilfellið, að töluvert mörg býli virðast hafa farið í eyði á síðasta áratug 20. aldar og fyrsta áratug þeirrar 21. Hluti jarðarinnar 5 hektarar (árið 2010, gæti verið meira nú) er hins vegar lagður undir skógrækt (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:626).

En er það þá tilfellið, að hin glæstu hús Guðjóns Samúelssonar standi auð og yfirgefin án viðhalds og bíði þess einfaldlega, að verða vindi, veðri og tímans tönn að bráð? Svo er nú aldeilis ekki, því í húsunum hafa samtökin Búsaga, félagsskapur áhugamanna um varðveislu búskaparminja, véla og tækja fengið aðstöðu og eiga þar athvarf í íbúðarhúsinu. Gripahús og hlöður eru nú skjólshús fyrir aldna bensín- og díselknúna gæðinga úr stáli. Búsögumenn hafa sinnt nauðsynlegu viðhaldi á húsum, svo ekki er að sjá, að bærinn hafi verið í eyði í tæpan aldarfjórðung. Saurbæjarhúsin hljóta að hafa umtalsvert varðveislugildi, ættu hreinlega að vera friðuð, þegar litið er til sögu þeirra og staðarins í heild. Húsin eru fáeinum árum of ung til þess að teljast aldursfriðuð. Haustið 2022 birti Gísli Sigurgeirsson áhugaverða grein á akureyri.net undir yfirskriftinni Sverrir, Sólgarður og Saurbær. Rétt er að mæla með þeirri grein hér. En þar leggur hann til, að bæjarhúsin á Saurbæ verði gerð upp og þar verði komið upp eins konar lifandi safni um búnaðarsögu Eyjafjarðar. Þá væri eflaust hægt að hugsa sér húsakost sem veglegan sýningarsal fyrir gömul landbúnaðartæki. Kannski segir umfjöllun Byggða Eyjafjarðar árið 2030 um Saurbæ frá glæsilegum húsa- og safnkosti Búsögusafns ...

Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. ágúst 2021. Hér eru einnig nokkrar myndir af tækjum á vegum Búsögu á Saurbæ, teknar 27. júlí 2019.

Heimildir: 

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Brunabótafélag Íslands. 1934. Saurbær, virðing nr. 41a, blað 52. Í Virðingabók Brunabótafélags Íslands Saurbæjarhreppsumboð, bók I. 1933-1944. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. H11/41

Brunabótafélag Íslands. 1946. Saurbær virðing nr. 101, blað 17. Í Virðingabók Brunabótafélags Íslands, bók II 1944-1951. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. H11/42

Gísli Sigurgeirsson. 2022. Sverrir, Sólgarður og Saurbær. Grein á vefmiðlinum Akureyri.net. Birtist 22. október 2022 á slóðinni https://www.akureyri.net/is/moya/news/sverrir-solgardur-og-saurbaer

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.