Fara í efni
Mannlíf

Hús dagsins: Aðalstræti 74

HÚS DAGSINS
 

Árið 1857, fimm árum áður en Akureyrarkaupstaður varð til, tók til starfa bygginganefnd í bænum. Hana skipuðu þeir Eggert Briem sýslumaður, sem lögum samkvæmt átti að eiga sæti í nefndinni, Sigurður Sigurðsson, Jóhann G. Havsteen, Björn Jónsson og Edvard Eilert Möller. Jóhann og Björn voru kosnir af bæjarbúum en Möller og Sigurður voru útnefndir af amtmanni (sbr. Jón Hjaltason 1990:170). Eins og lesendur þessa skrifa kunna að hafa tekið eftir, eru fundargerðir þeirrar nefndar ein af meginheimildum um uppruna húsa á Akureyri. Fyrsti fundur bygginganefndar Akureyrar var haldinn þann 29. maí 1857 og fyrsta verk þeirrar nefndar var að samþykkja byggingu fjögurra húsa, sunnarlega í Fjörunni. Af þeim stendur aðeins eitt hús enn og er það Aðalstræti 74.

Fyrstu byggingarleyfin á Akureyri

Áður en lengra er haldið, skulum við rýna í fyrstu fundargerð Bygginganefndar:

Ár 1857 hinn 29. Maí á Akureyri var fundur haldinn af byggingarnefndinni sem þar er stofnuð með opnu brjefi þ. 6. Janúar þ.á. og amtsbrjefi 24. þ.m. í tilefni af að nokkru bæarbúar hafa tilkynnt nefndinni að þeir vildu byggja hjer hús og óskað að fá grunn útmældan, nefnilega

1. Jens Stæhr garðyrkjumaður

2. Jón Jónsson snikkari

3. Jón Jónsson járnsmiður

4. Jón Sigurðsson vaktari

Áleit nefndin að þeir ættu að byggja á hinu auða svæði fyrir sunnan hús Jafets Diðrikssonar og að Jens Stæhr skyldi fá 30 álna breitt svið frá grunni Jafets, svo Jón Jónasson 20 álna breitt svið þar fyrir sunnan og Jón Jónsson syðst einnig 20 álna breitt svið og nær það þá suður að grunni þeim er brúkaður er af ekkjunni Salbjörgu Pálsdóttur. Skyldu þeir byggja húsin í stefnu með Jafets húsi og með lögboðnu millibili á þeim stöðum er nefndin ákvað og undir hennar tilsjón.

Áleit nefndin, að jafnframt þessari húsaröð mætti líka byggja nokkur hús í röð nær sjónum í stefnu með smiðju og heyhlöðu Indriða gullsmiðs og óskaði Jón Sigurðsson að mega byggja hús í þessari neðri húsaröð austur undan grunni Jóns Jónssonar og að hann mætti fá 20 álna breiðan grunn og var það samþykkt af nefndinni á sama hátt (Bygg. nefnd. Akureyrar 1857: nr.1).

Þarna sést, að ætlun Bygginganefndar var, að þarna í fjörunni risu tvær húsaraðir. Umrætt hús Jafets Diðrikssonar, sem þarna er notað sem viðmið stóð þar sem nú er lóðin Aðalstræti 70. Það hús gekk löngum undir nafninu Hansahús eða Krákshús og var rifið árið 1939. Hús Salbjargar Pálsdóttir var þar sem nú er Aðalstræti 80. Það hús mun hafa verið rifið um 1910. En hvaða hús voru það, sem þarna var heimilað að byggja?

Hús Jens Stæhr var á norðurhluta lóðarinnar Aðalstræti 72. Það mun hafa verið skammlíft torfhús, mögulega horfið árið 1873, er reist var timburhús á lóðinni (það hús er einnig horfið, nú stendur á lóðinni steinhús frá 1931). Fáum sögum virðist fara af húsi Jóns Jónssonar snikkara en það mun hafa staðið á suðurhluta lóðarinnar. Það er og löngu horfið og virðist ekki að finna í brunabótamati árið 1916.

Hús Jóns Jónssonar járnsmiðs stóð þar sem nú er Aðalstræti 76. Jón þessi var faðir Kristjáns Níels eða Káins og var hann fæddur í þessu húsi. Um 1875 var hús Jóns flutt norður á Oddeyri, sagt að það hafi verið dregið yfir á ís, og komið fyrir á lóðinni þar sem nú er Strandgata 25 (sbr. Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995:33). Þetta hús var rifið árið 1914 og elstu hlutar núverandi húss, sem margir þekkja undir nafninu Alaska, reist þar.

Víkur þá sögunni að húsi Jón Sigurðssonar vaktara eða næturvarðar. Það stendur eitt eftir af þeim fjórum húsum, sem Bygginganefnd Akureyrar afgreiddi byggingarleyfi fyrir, á sínum fyrsta fundi. Tæpum tveimur áratugum síðar reisti Skapti Jónsson norðurhlutann, en það var árið 1876 og mun byggingarmeistari hans hafa verið Tryggvi Gunnarsson. Byggingarleyfi fyrir norðurhlutanum er ekki að finna í bókunum bygginganefndar.

Stutt lýsing - „Fimbulfamb“ og getgátur um húsbyggjanda

Aðalstræti 74 er í raun tvö sambyggð hús, jafnvel þrjú ef út í það er farið, því áfast syðri hlutanum er mikill geymsluskúr. Syðri hlutinn, sem snýr N-S og framhlið að götu, mót austri er einlyft timburhús með háu og bröttu risi. Kvistir með einhalla aflíðandi þaki eru nyrst á fram - og bakhlið og inngönguskúr er á bakhlið. Nyrðri hluti er hornréttur á þann syðri, tvílyftur með lágu, aflíðandi risi. Á suðurhluta er timburklæðning, slagþil en báruál á norðurhluta, auk þess sem steypt er neðst utan veggi norðurhluta og nær steypukápan að neðri gluggabrúnum. Kvistir suðurhluta liggja að norðurhluta. Sexrúðupóstar eru í flestum gluggum hússins. Grunnflötur suðurhluta mælist nærri 7,4x5,8m og inngönguskúr að vestan 2x2,6m. Grunnflötur norðurhluta mælist 4,7x6,8m. Skúr, áfastur við suðurhlið mælist 8x7,2m. Hafa ber í huga, að hér er um að ræða ónákvæma mælingu af kortavef map.is og því allir hugsanlegir fyrirvarar á henni. Fasteignaskrá segir húsið 129 m2.

Þegar kemur að heimildaöflun um Jón Sigurðsson vaktara virðist fátt um fína drætti. Tveir eru skráðir með þessu nafni á Akureyri verslunarstað, annar 31 árs og sagður lifa á „helzt dagvinnu“ en hinn er 27 ára og „lifir á sjóarafla“. Hvorugur þeirra er titlaður næturvörður eða vaktari, en mögulega má draga þá ályktun, að maður sem skráð er, að vilji helst dagvinnu, sé ólíklega næturvörður. Hins vegar er sá Jón skráður í hús númer 43 og í næsta hús er skráður Jens Stæhr. Svo væntanlega er þar um að ræða Jón Sigurðsson vaktara (?) Sá var kvæntur Önnu Jóhannesdóttur, sem fædd var árið 1817 og hafði áður verið búsett í Öngulsstaðahreppi, m.a. Garðsá og Króksstöðum (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:2072). Það er til marks um hversu lítið er af heimildum um lífshlaup Önnu, að hún er ekki skráð með dánardægur á islendingabok.is, heldur aðeins fæðingardag, 2. júní 1817. Samkvæmt manntali var Jón Sigurðsson (líklega vaktari) 31 árs árið 1860 (þar af leiðandi fæddur 1829 eða mjög síðla árs 1828). Á islendingabok.is má finna Jón Sigurðsson sem fæddur var 19. janúar 1829, ólst upp í Glæsibæjarhreppi (Syðsta Samtúni nánar tiltekið) og skráður tómthúsmaður á Akureyri 1870. Sá mun hafa látist árið 1888. En hvort um sé að ræða Jón vaktara er ekki víst. Nú er því beint til lesenda, að allar frekari upplýsingar um Jón Sigurðsson vaktara eru vel þegnar. Enda þótt mjög fjarlægt sé í tíma er ekki óhugsandi að hann eigi afkomendur meðal lesenda sem og mögulega hefur einhver „grúskarinn“ fundið gögn, sem greinarhöfundur hefur ekki komist yfir.

Skapti í Skaptahúsi

Skapti Jósepsson, fullu nafni Björn Skapti Jósepsson, sem reisti norðurhlutann, fæddist 17. júní 1839 á Hnausum í Húnavatnssýslu, sonur Jóseps Skaptasonar héraðslæknis og Önnu Margrétar Björnsdóttur. (Ath. það er misjafnt eftir heimildum, hvort nafn Skapta er ritað með „p“-i eða „f“-i. Hér velur höfundur að nota „p“ en „f“ ef svo er ritað í beinum tilvitnunum). Hann nam við latínuskólann í Reykjavík, útskrifaðist þaðan 1861 og hélt til Kaupmannahafnar, þar sem hann lagði stund á lögfræði. Ekki lauk hann lögfræðiprófi […]og mun mest hafa valdið það, hugur hans hneigðist að stjórnmálum og honum var það á móti skapi að gjörast embættismaður undir hinni þáverandi stjórn. Svo segir ónefndur höfundur í minningargrein um Skapta (1905:41) á forsíðu Austra þ. 2. apríl 1905. Áfram er haldið: Honum var og annað starf ætlað, það starf sem hann helgaði alla sína krapta til hinstu stundar, það, að vekja og hvetja þjóðina og vinna að heill hennar cg framförum. Á námsárum hans í Kaupmannahöfn stóð frelsisbarátta Íslendinga sem hæst undir forustu Jóns Sigurðssonar; og í þeirri baráttu tók Skapti Jósepsson þátt af alefli (án höf. 1905:1). Söðlaði Skapti um og nam búfræði í eitt ár í Kaupmannahöfn, fylgir ekki sögunni hvort hann útskrifaðist, en heim fluttist hann árið 1872 þar sem hann hóf verslun í Grafarósi, auk þess sem hann var skamma hríð (1874-75) sýslumaður í Þingeyjarsýslu.

Til Akureyrar fluttist Skapti árið 1875. Þar hóf hann útgáfu blaðsins Norðlings, og leit fyrsta tölublað þess dagsins ljós 2. júlí það sama ár. Trúlega hefur hann hugað að húsbyggingu um svipað leyti en ári síðar reis hús hans af grunni, norðurhluti Aðalstrætis 74. Það fylgir ekki sögunni, hvort Skapti eignaðist suðurhlutann um leið og hann fluttist til Akureyrar eða hvort hann byggði fyrst og eignaðist síðan suðurhlutann. Alltént eignaðist hann suðurhlutann um svipað leyti, því þar hafði hann prentverkið. Það er reyndar svo, að stiginn á efri hæð norðurhlutans er nyrst í suðurhlutanum (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:109) og þannig má ráða, að norðurhlutinn hafi í raun verið byggður út frá þeim syðri. Umrætt prentverk var hvorki meira né minna en Prentsmiðja Norður- og Austuramts, sem rak sögu sína til ársins 1852, stofnað af Birni Jónssyni og félögum. Norðurhlutinn var hins vegar íbúðarhús Skapta og fjölskyldu hans, en hann var kvæntur Sigríði Þorsteinsdóttur (1841-1924) frá Vöglum í Fnjóskadal. Skapti gaf út Norðling í sjö ár, eða til ársins 1882 en fékkst eftir það m.a. við kennslu og málafærslur. Árið 1890 kallast norðurhluti hússins einfaldlega „5“ og búa þau Skapti og Sigríður hér ásamt börnum sínum, Ingibjörgu, Þorsteini og Halldóri.

Árið 1891 fluttu þau Skapti og Sigríður til Seyðisfjarðar, er hann gerðist fyrsti ritstjóri Austra, blaðs sem kaupsýslumaðurinn Ottó Wathne stofnsetti. Tæpum fjórum árum síðar, í ársbyrjun 1895 hófu þær mæðgur, Sigríður og Ingibjörg, útgáfu kvennablaðsins Framsóknar á Seyðisfirði, sem mun hafa verið fyrsta íslenska blaðið sem fjallaði sérstaklega um réttindi og stöðu kvenna. Skapti Jósepsson lést árið 1905 og Sigríður Þorsteinsdóttir árið 1924.

Í Skaptahúsi árið 1901 – viðbyggingar og brunabótamatslýsingar

Halldór Pétursson bókbindari eignast suðurhluta hússins um 1890 en hann er skráður hér til heimilis ásamt konu sinni, Sigríði Magnúsdóttur. Þá teljast norður- og suðurhluti tveir eignarhlutar, hús nr. 4 (suðurendi) og 5 í Akureyrarsókn. Halldór fékk þetta sama ár lóðarspildu sunnan við húsið á leigu til bráðabirgða, þar sem lóðin taldist byggingarlóð (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:109). Olgeir Júlíusson er sagður eignast norðurhlutann á eftir Skapta, líklega um 1891 er Skapti og Sigríður fluttu austur.

Í manntali árið 1901 eru 14 manns skráðir til heimilis í hús nr. 7 við Aðalstræti, sem jafnan var kallað Skaptahús. Þeirra á meðal voru þau Emil Petersen og Þuríður Gísladóttir, ásamt þremur börnum sínum, Gísla, Laufeyju og Bjarna. Árið 1902 fluttu þau Emil og Þuríður að Hamarkoti á brekkunum ofan Oddeyrar og fæddist sonurinn Tryggvi. Enda þótt hann hafi ekki verið fæddur þegar fjölskyldan bjó hér, lýsir hann aðstæðum hér á býsna skilmerkilegan hátt í fyrsta bindi æviminninga sinna, Fátæku fólki:

Akureyri tók foreldrum mínum hlýlega. Guðrún amma mín hafði útvegað þeim íbúð í svonefndu Skaftahúsi og þangað fluttu þau inn með fólk og farangur. Ekki var þetta stórt í sniðum, eitt herbergi undir súð og aðgangur að eldhúsi þar sem önnur barnmörg hjón áttu sitt matborð, þar sem vanfær kona stóð við eldavélina, gerði mat og þvoði þvotta. Það kom sér vel að hún móðir mín hafði góða skapgerð og glaðan umgangsmáta, hún varð svo oft að hliðra til þegar mest gekk á hjá hinni fjölskyldunni, þar voru börnin stærri og fleiri og það var oft úr litlu að spila. Engin upphitun var í húsinu nema frá eldavélinni sem stóð á gangi fyrir framan dyr íbúðarherbergjanna sem aðeins voru tvö, eitt á fjölskyldu. Stiginn upp á loft þetta var opinn með mjóum bröttum þrepum, um þann stiga varð að bera allt vatn sem sótt var í brunn sem margir jusu úr (Tryggvi Emilsson 1975: 62). Þá getur Tryggvi þess, að allt skólp hafði verið losað í fjöruna, úr næturgögnum og kömrum, sem […] alltof margir gengu um og því illt verk að hirða. Eldiviðurinn var vandamál í fyrstu, það voru fáir aflögufærir svona snemma vors og eldsmatur var enginn nema svörður (Tryggvi Emilsson 1975:62). Svo kom haust og vetur með kulda og myrkrinu og myrkrinu fylgdi ýmislegt misjafnt: Það varð helkalt í íbúðinni og eldavélin sem kynt var með sverði, hafði ekki við að hita upp þennan óeinangraða timburhjall. Á síðkvöldum og á nóttum var reimt í húsinu, þá heyrðist umgangur um stigann eins og alltaf væri verið að drasla einhverju á loftskörina. […] Sumir þóttust sjá ódáminn og fólkið varð myrkfælið enda var myrkrið allsráðandi, það var lítið um ljósmeti og olíuna varð að spara, það lifðu engin ljós á nóttunni (Tryggvi Emilsson 1975:64).

Árið 1902 eru húsin við Aðalstræti 7 eign Guðrúnar Kristjánsdóttur og Friðriks Kristjánssonar kaupmanns. Líklega á Guðrún suðurhlutann, þar sem hún er búsett ásamt Einari Ívarssyni húsmanni. Í norðurhlutanum, eign Friðriks, eru búsettir alls 14 manns í þremur íbúðarrýmum. Árið 1903 eru þeir Ásgrímur Jóhannesson og Sveinn Sölvason, báðir titlaðir tómthúsmenn, orðnir eigendur norðurhlutans. Á fyrstu árum 20. aldar eða til ársins 1906 hafði húsið númerið 7, við Aðalstræti.

Árið 1913 eignast Sigurjón Friðbjarnarson suðurhluta hússins. Sama ár sækir hann um leyfi til byggingar skúrs sunnan við hús sitt, 8x10álnir að stærð. Byggingarefni kemur ekki fram, en af brunabótamatsskýrslu þremur árum síðar má ráða, að húsið sé steinsteypt. Fram kemur, að skúrinn eigi að liggja að götunni, en vegna skorts á teikningum, var hann gerður afturreka í fyrstu. Teikningarnar lagði Sigurjón fram á næsta fundi bygginganefndar og fékk þá byggingaleyfið. Sú kvöð var, að ekki mættu vera gluggar eða dyraop á stöfnum, ef stafn skúrsins lægi að lóðarmörkum (sbr. Bygg.nefnd. Ak. 1913: nr. 381 og 382). Tveimur árum síðar keypti Sigurjón reyndar viðbót við lóð sína, mjóa spildu sunnan við skúrinn og hefur þá getað sett á hann dyr og glugga eins og honum sýndist. Árið 1917 var hann enn í landvinningum, í þetta sinn keypti hann spildu að Sölvastíg, en svo nefndist heimreiðin að Aðalstræti 76, sem stóð ofan við en þar var reist hús árið 1885 í stað hússins sem Jón Sigurðsson járnsmiður reisti, og flutt var út á Oddeyri. Það hús er horfið, en núverandi hús á þessari lóð var byggt 1981. Hefur hin rúmlega 30 metra innkeyrsla að því húsi einmitt opinbert heiti, Sölvastígur. Hvorki kemur fram hver gerði teikningarnar af skúr Sigurjóns árið 1913, né hafa þær varðveist. Einu teikningarnar sem aðgengilegar eru á kortagagnagrunni eru teikningar frá 1959, þegar byggt var við skúrinn. Þær teikningar gerði Ásgeir Valdemarsson.

Árið 1916 heimsóttu matsmenn Brunabótafélags Íslands, Aðalstræti 74. Þeir lýstu norðurhluta hússins á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús tvílyft á lágum steingrunni með lágu risi. Áfast við þetta er partur af einlyftu húsi tilheirandi sömu eigendum og vestan við það hús geimsluskúr. Á gólfi 2 herbergi, eldhús og búr og geymsla. Á lofti 2 herbergi eldhús búr og gangur. Lengd 7m. Breidd 6,3m. Hæð 5m. Tala glugga 8. Veggir úr timbri þak úr timbri pappaklætt. 1 ofn. 3 eldavélar (Brunabótafélag Íslands 1916: nr.6). Suðurhluta, sem taldist Aðalstræti 74a var lýst svo: Íbúðarhús, einlyft með háu risi með áföstum geimsluskúr við bakhlið. Á gólfi eru 2 stofur og eldhús. Á lofti 3 herbergi. Lengd 4,2m, breidd 4,4m, hæð 4m, tala glugga 4. Útveggir úr timbri, þak úr timbri, járnklætt. 3 eldavélar. Gripa- og geimsluhús úr steinsteypu að nokkru áfast við ofannefnt hús. Einlyft, hólfað í þrennt (Brunabótafélag Íslands 1916: nr.11). Umrætt gripa- og geymsluhús er skúr Sigurjóns frá 1913. Það er sagt 6,5x5,6m að grunnfleti og 2m hátt.

Hratt yfir sögu

Í húsinu var jafnan búið í þremur til fjórum íbúðarrýmum en lengst af var ein íbúð í suðurhluta og tvær í norðurhluta. Af Húsakönnun 1986 (Hjörleifur Stefánsson 1986:109) má ráða, að eigendaskipti hafi orðið nokkuð tíð á fyrri hluta 20. aldar, eftir 1931 segir einfaldlega „Sigurður Jóhannesson og ýmsir aðrir“. Þar segir einnig að árið 1956 hafi Jónas nokkur Jóhannesson eignast efri hæð norðurhluta, neðri hæðina árið 1970 og suðurhlutann, og þar með allt húsið, árið 1979. Síðan hefur húsið verið einbýli. Jónas, sem var frá býlinu Glerá átti hér heima til dánardægurs, 1985. Ekkja hans, Sigríður Jónína Garðarsdóttir frá Uppsölum í Öngulsstaðahreppi og sonur þeirra, Garðar, bjuggu hér áfram, en þau létust bæði árið 2007. Höfundi er ekki kunnugt hvort um hér hafi verið föst búseta eftir þeirra dag, en ljóst er að húsinu hefur verið haldið við, í því eru t.d. nýir gluggar og ekki mörg ár síðan það var málað. Líkast til hefur húsið mestalla tíð hlotið prýðilegt viðhald, enda þótt Tryggvi Emilsson lýsi því sem „óeinangruðum timburhjalli“ við upphaf 20. aldar. En það er nú svo ágætt með það, að ásigkomulag húsa á einum tíma segir ekkert endilega til um ástand þeirra áratugum - eða öldum síðar.

Aðalstræti 74 er snoturt og skemmtilegt hús. Þessa samsetningu, tvær álmur með stafna eða burstir, hornrétta á framhlið má sjá á nokkrum eldri húsum Akureyrar og nærsveita (nærtæk dæmi eru t.d. gamla íbúðarhúsið á Eyrarlandi, Syðra-Gil og Aðalstræti 20) hefur yfir sér sérstakan svip eða yfirbragð. Þá segir hún yfirleitt ákveðna sögu, því í flestum tilfellum er þetta byggingarlag komið til af viðbyggingum. Kvisturinn í kverkinni milli norður -og suðurálma skapar ákveðinn „stíganda“ úr bröttu risþaki einlyfta hússins upp á hærri, tvílyfta hlutann. Þá er gluggasetning framhliðar dálítið sérstök og eflaust nokkuð breytt frá fyrstu gerð, líklega hafa inngöngudyr verið fyrir miðri framhlið í upphafi. Í Húsakönnun 2012 er húsið sagt einstakt hús og hluti götumyndar sem vert væri að varðveita með hverfisvernd deiliskipulags (sbr. Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012: 67). Samkvæmt núgildandi húsfriðunarlögum teljast hús aldursfriðuð ef þau eru byggð fyrir 1923, en það ár var suðurhlutinn 66 ára og sá nyrðri 47, svo það er nokkuð afgerandi. Sú staðreynd, að húsið er eina húsið sem eftir stendur úr fyrstu formlegu byggingarleyfisveitingu Akureyrar hlýtur einnig að gefa húsinu töluvert gildi!

Meðfylgjandi myndir eru teknar 27. október 2025, 25. ágúst 2019 og 23. október 2010.

Heimildir

Án höfundar. 1905. Björn Skapti Jósepsson ritstjóri. Í Austra, 11. tbl. 15. árg. 2. apríl.

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 1, 29. maí 1857. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 381, 8. júlí 1913. Fundur nr. 382, 4. ágúst 1913. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Gjörðabækur Akureyrarbæjar | Héraðsskjalasafnið á Akureyri

Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson.1995. Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: https://www.akureyri.is/static/files/vefmyndir/akureyri/pdf/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Pdf-skjal á slóðinni  https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf.

Jón Hjaltason. 1990. Saga Akureyrar I. bindi. Akureyrarbær.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Ýmsar upplýsingar af vefnum m.a. islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is.