Fara í efni
Mannlíf

Hús dagsins: Laugarborg

Um daginn tók ég fyrir Freyvang, aðsetur hins valinkunna Freyvangsleikhúss og fyrrum félagsheimili Öngulsstaðahrepps. Ég sá það í hendi mér, að ég yrði að fylgja þeirri grein eftir með sambærilegum greinum um hin tvö félagsheimilin í hreppum þeim, er saman mynda Eyjafjarðarsveit. (Einhvers konar „félagsheimilaþríleik“). Nú er komið að Laugarborg í fyrrum Hrafnagilshreppi.

Laugarborg, sérlegt tónlistarhús Eyjafjarðarsveitar og fyrrum félagsheimili Hrafnagilshrepps stendur um 13 km framan Akureyrar skammt ofan Eyjafjarðarbrautar vestri. Laugarborg var byggð á svonefndum Reykáreyrum, í landi Hrafnagils, beint undir Reykárgili en það skartar m.a. myndarlegum fossi. Laugarborg, félagsheimili Hrafnagilshrepps, var vígð vorið 1959 og leysti af hólmi þing- og samkomuhús hreppsins, sem tekið var í notkun 1925. Það hús stendur enn, spölkorn norðan Laugarborgar og er nú leikskólinn Krummakot. Laugarborg telst standa nr. 2 við götuna Laugartröð en nærri lætur, að Laugarborg standi inn í miðju Hrafnagilshverfi. Þegar húsið var byggt voru næstu hús hins vegar bærinn að Hrafnagili og Þinghúsið. Að frátöldum fáeinum bröggum, sem enn stóðu eftir af miklum „kampi“ setuliðsins frá stríðsárunum.

Laugarborg í Hrafnagilshverfi. Myndin er tekin 29. mars 2022. Ljósmynd: Arnór Bliki Hallmundsson.

Það er ekki endilega ljóst hvenær nákvæmlega íbúar Hrafnagilshrepps ákváðu að þinghúsið frá 1925 væri orðið ófullnægjandi til frambúðar samkomuhalds en það hefur verið um eða uppúr miðri öldinni. En það var árið 1956 sem ákvörðun var tekin um byggingu nýs félagsheimilis og hófust byggingaframkvæmdir 1. október það ár. Ýmsar staðsetningar komu til greina en það var að lokum jarðhitinn við Hrafnagil sem réði úrslitum um staðarvalið. Þarna eru nefnilega volgrur og laugar, sem síðar voru virkjaðar til hitaveitu, og nýttust einmitt til upphitunar hins nýja félagsheimilis. Undir brekkunum skammt norðan Laugarborgar var einmitt sundlaug Hrafngilshrepps frá árunum um 1935 og fram til 1961. (Löngu síðar var sá sem þetta ritar oft á vappi þarna sem barn og stóð þá myndarleg fjárrétt á fyrrum laugarstæðinu. Er mér það minnisstætt, hversu ótrúlegt og hreinlega fjarstæðukennt mér þótti, að þarna hefði einhvern tíma verið sundlaug!)

Laugarborg mætti skipta í þrjár álmur, austurálman er tvílyft á kjallara og með lágu risi og snýr stöfnum N-S. Þar, austanmegin, er aðalinngangur í húsið, sem og inngangur í húsvarðaríbúð og fundarsal á efri hæð. Miðálma, sem einnig er tvílyft á lágum kjallara, snýr stöfnum A-V. Vesturhluti hennar er einn geimur, þ.e. samkomusalur hússins. Norður úr austurálmunni er einlyft álma með lágu risi og er þar eldhús. Það orkar e.t.v. tvímælis að kalla þann hluta hússins álmu en ekki útskot. Inngönguskúr til norðurs er úr salarálmu og svalir til vesturs á efri hæð suðurálmu. Laugarborg er byggt úr steinsteypu, múrhúðuð með bárujárn á þaki. Gluggar eru ýmist með þverpóstum eða póstlausir og háir og mjóir gluggar eru í sal. Syðst í húsinu eru anddyri og snyrtingar og úr anddyrinu gengið inn í sal annars vegar og hins vegar kaffistofu. Kaffistofan er austasti hluti miðálmu, aðskilin frá meginsalnum með upphækkun og handriði. Þaðan er gengt inn í eldhúsálmu. Í mjög ítarlegri og greinargóðri frétt Íslendings þann 8. maí 1959 af hinu nýja félagsheimili Hrafnagilshrepps er húsið sagt 350 fermetrar og skiptast þeir eftirfarandi: Salur 120 fermetrar, leiksvið 60 fermetrar, kaffisalur 40 fermetrar, fundarsalur ofan hans annað eins, anddyri og snyrtingar 30 fermetrar, eldhúsálma 42 fermetrar og húsvarðaríbúð 83 fermetrar. Í Byggðum Eyjafjarðar 1990 er salurinn sagður taka 170 manns í sæti.

Sem áður segir hófust byggingarframkvæmdir við Laugarborg haustið 1956 og stóðu þær yfir í tvö og hálft ár. Hönnuðir hússins voru þeir Gísli Halldórsson og Ólafur Júlíusson. Gísli Halldórsson (1914-2012), fæddur og uppalinn á Kjalarnesi, lauk prófi í húsasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík 1935 og hélt í kjölfarið til Danmerkur þar sem hann nam byggingarverkfræði og arkitektúr. Hann stofnaði, á fimmta áratugnum, teiknistofu með Sigvalda Thordarsyni og ráku þeir hana saman til 1948. Eftir það starfrækti Gísli teiknistofu sína einn og síðar í félagi við aðra. Gísli á heiðurinn af mörgum félagsheimilum og þekktum stórbyggingum. Má þar nefna Hótel Esju, Hótel Loftleiðir, Lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík en einnig íþróttamannvirki á borð við Laugardalshöll og íþróttavöllinn þar. Þá teiknaði Gísli einnig félagsheimili Öngulsstaðahrepps, Freyvang, sem stendur nokkurn veginn beint andspænis Laugarborg, austan Eyjafjarðarár. Auk þess teiknaði hann og samstarfsmenn hans á teiknistofunni fjölmörg íbúðarhús, einbýli og fjölbýli. Gísli hlaut Fálkaorðuna 1963 og Stórriddarakross árið 1974.

Til undirbúnings byggingu Laugarborgar var skipuð átta manna bygginganefnd úr röðum hreppsbúa. Í henni sátu þau Aðalsteina Magnúsdóttir á Grund, Svanhildur Eggertsdóttir (Holtsseli) Jón Heiðar Kristinsson (Ytra Felli), Óttar Skjóldal (frá Ytra Gili), Hallgrímur Indriðason (við Kristneshæli), Snæbjörn Sigurðsson (Grund) Frímann Karlesson (Dvergsstöðum) og Halldór Guðlaugsson (Hvammi). Yfirsmiður við bygginguna var Þórður Friðbjarnarson, en hann hafði einnig stýrt byggingu Freyvangs í Öngulsstaðahreppi og Sólgarðs í Saurbæjarhreppi. Bygging var sameiginleg framkvæmd hreppsins, ungmennafélagsins og kvenfélagsins og skiptist eignarhaldið þannig, að Hrafnagilshreppur átti 60%, Ungmennafélagið Framtíð 20% og Kvenfélagið Iðunn 20%.

Við byggingu Laugarborgar lögðu þar margir hönd á plóg, sveitungar sem og verktakar og margt unnið í sjálfboðavinnu svo sem tíðkaðist hvarvetna við byggingu félagsheimila. En helstu verktakar, sem komu að einstaka verkefnum við byggingu Laugarborgar voru eftirfarandi: Múrarameistari var Jón Bachmann Jónsson, Þorvaldur Snæbjörnsson rafvirki og Ólafur Magnússon pípulagningameistari sáu um raflögn, pípulögn og miðstöð og vatnsleiðslu, á vegum fyrirtækja KEA en Slippstöðin sá um útihurðir, glugga og ýmsar innréttingar. Friðrik Kristjánsson smíðaði einnig hurðir, afgreiðslu, auk þess sem hann innréttaði húsvarðaríbúð. Málningarvinnu önnuðust Kristján og Hannes Vigfússynir frá Litla- Árskógi. Byggingarframkvæmdir leiddu þeir Snæbjörn Sigurðsson á Grund og Halldór Guðlaugsson í Hvammi og tók sá síðarnefndi við af hinum um leið og húsið var fokhelt. Þá tóku konur í hreppnum sig saman um saumaskap gluggatjalda og gáfu þau. Eftir um tveggja og hálfs árs byggingaframkvæmdir rann loks vígsludagurinn upp, 30. apríl 1959. Frá henni var sagt mjög ítarlega í blöðunum Degi og Íslendingi og eru þær greinar meginheimild þessara skrifa hér.

Fyrstu húsverðir og íbúar Laugarborgar voru Bernharð Pálsson, sem einnig var mjólkurbílstjóri, frá Torfufelli og Guðrún Sveinbjörnsdóttir frá Kolgrímastöðum. Guðrún kenndi m.a. handavinnu við Barnaskóla Hrafnagilshrepps, starfaði í mötuneyti Hrafnagilsskóla eftir stofnun hans og vann síðar í mötuneyti Dvalarheimilisins Hlíðar. Bernharð lést árið 1969 en Guðrún bjó hér áfram og sinnti húsvörslu til ársins 1980. Hafa síðan margir átt heima, og sinnt húsvörslu í Laugarborg. Þegar Laugarborg er flett upp á timarit.is birtast 1367 niðurstöður. Sé þeirri tölu deilt á aldursár hússins, 63, fæst það út, að Laugarborg hefur að jafnaði komið fyrir í prentmiðlum 22 sinnum á hverju ári; það er næstum tvisvar í hverjum einasta mánuði frá maí 1959. Á fyrstu árum ber nokkuð á vormótum stjórnmálaflokka, ásamt héraðsmótum, að ógleymdum dansleikjum. Hafa ófáar hljómsveitir sem og kórar, söngvarar og skemmtikraftar stigið á svið í Laugarborg á þessum rúmum sex áratugum. Hrafnagilsskóli nýtti Laugarborg löngum sem kennsluhúsnæði, þar fór t.d. fram íþróttakennsla áður en núverandi íþróttahús var tekið í notkun og heimilisfræði var kennd í eldhúsi Laugarborgar. Þá hafa árshátíðir skólans um áratugaskeið verið haldnar í Laugarborg.

Þegar hrepparnir þrír framan Akureyrar sameinuðust undir nafni Eyjafjarðarsveitar féll hinu nýja sveitarfélagi þrjú félagsheimili í skaut: Freyvangur Öngulsstaðahrepps, Laugarborg Hrafngilshrepps og Sólgarður Saurbæjarhrepps. Var sú stefna tekin, að þau skyldu hvert þjóna sínum hlutverkum. Freyvangur yrði nýttur sem aðstaða og sýningarhús samnefnds leikfélags og Laugarborg sem tónlistar- og viðburðahús en Sólgarður varð safnahús. (Nú munu blikur á lofti hvað varðar framtíð Freyvangsleikhússins, samhliða mögulegri sölu hússins en félaginu mun einmitt hafa boðist Laugarborg til afnota). Um aldamótin var þannig ráðist í endurbætur á húsinu, miðaðar að því, að bæta aðstæður til tónlistarflutnings. Tónlistarhúsið Laugarborg var formlega tekið í notkun í byrjun árs 2002 - sjá hér. Var Laugarborg raunar eina slíka húsið, sérhannað til tónlistarflutnings, á Eyjafjarðarsvæðinu til ársins 2010 er Hof á Akureyri var tekið í notkun. Laugarborg er enn nýtt sem félagsheimili og þar haldin þorrablót, jólaskemmtanir og hinir ýmsu tónleikar og viðburðir. Þá er húsið eftirsótt fyrir hina ýmsar veislur og mannfagnaði s.s. afmælisveislur, fermingar, brúðkaup o.s.frv. Þá hefur Karlakór Eyjafjarðar æfingaraðstöðu í Laugarborg.

Laugarborg er að ytra byrði nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð og í grófum dráttum hefur upprunalegu lagi ekki mikið verið breytt innandyra. Húsið er reisulegt og stórbrotið og til mikillar prýði og stendur á áberandi stað við fjölfarinn þjóðveg. Og enda þótt höfundur hafi hvorki forsendur né þekkingu til að meta varðveislugildi bygginga leyfir hann sér, venju samkvæmt, að lýsa áliti sínu á því. (Það er öllum frjálst). Laugarborg og önnur félagsheimili til sveita hljóta að hafa hátt varðveislugildi eða jafnvel verðskulda friðun. Enda þótt húsið teljist ekki mjög gamalt (m.v. aldursfriðun húsa miðast við 100 ár) hlýtur menningarsögulegt gildi þess að vera ótvírætt. Þá eru félagsheimili mörg hver ansi skemmtilegar byggingar hvað varðar útlit og arkitektúr og Laugarborg sannarlega engin undantekning þar.

Heimildir: Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Upplýsingar um byggingaframkvæmdir, hverjir komu að byggingu og bygginganefnd er að mestu fengin úr forsíðufrétt og ítarlegum greinum Dags og Íslendings frá maí 1959.

  • Hér hefur verið nokkuð minnst á Þinghúsið á Hrafnagili, forvera Laugarborgar. Áður en við bregðum okkur fram í Sólgarð telur höfundur óhjákvæmilegt, að gera því merka húsi skil í pistli sem þessum og birtist sá mjög fljótlega. Þessi mynd er tekin 17. apríl 2014.