Fara í efni
Mannlíf

Hús dagsins: Lækjargata 6

Laugardagsmorguninn 17. janúar 1998 var sá er þetta ritar, þá 12 ára, staddur í útilegu í Fálkafelli með skátasveit sinni, Örnum. Af einhverjum ástæðum var útvarp með í för, en í Arnaútilegum var jafnan strangur bannlisti og á honum voru m.a. öll raftæki nema armbandsúr á hönd. Vorum við að týnast út í morgunleikfimi og fána í fínu veðri, heiðríkju, algjöru logni en brunagaddi, 18 stiga frosti. Með þeim, sem síðast mættu út barst tilkynning, komin úr útvarpinu: „Það brann hús á Akureyri í nótt. Eitthvað númer 6- býr einhver hér í númer 6, eitthvað.“ Þegar inn úr fánaathöfn var komið bergmálaði úr sama útvarpstæki sorgarsöngur Erics Clapton „Tears in heaven“, og einhvern veginn setti greinarhöfundur það lagaval í samhengi við, að einhver hefði farist. (Sem var til allrar hamingju ekki raunin). Um kvöldið safnaðist mannskapurinn saman á svefnlofti Fálkafells og heyrði kvöldfréttir Stöðvar 2 á Bylgjunni og þá upplýstist hvaða hús átti í hlut: Lækjargata 6.

Lækjargata 6 stendur neðst í Búðargili, á horninu við Spítalaveg. Húsið reistu þeir Þórður Thorarensen gullsmiður og Jakob Gíslason söðlasmiður árið 1886, en þeir tóku við lóðinni og meðfylgjandi réttindum af Páli Jónssyni. Páll fékk vorið 1885 útmælda lóð sunnan við lækinn, 10 álnir frá hlöðu sýslumannsins (Lækjargötu 4, síðar breytt í íbúðarhús), 2 álnir frá götu og í beinni stefnu með götunni. Ekki virðast fylgja frekari lýsingar eða byggingarleyfi en húsið var tvær hæðir og ris og steypt í binding. Það er, í stað reiðings eða spóna var grind hússins fyllt með kalksteypu og síðan klætt utan með láréttum timburborðum. Var þetta í samkvæmt danskri byggingahefð, en frábrugðið að því leyti, að hér var notuð steypa en í Danmörku notuðu menn múrsteina í bindingsverkið.

Lækjargata 6 er tvílyft timburhús með háu risi og stendur það á lágum steyptum grunni. Á vesturhlið er útskot eða forstofubygging á einni hæð en ofan á henni veglegur pallur og tröppur upp á hann. Húsið er klætt lóðréttum panel eða vatnsklæðningu, bárujárn á þaki og sexrúðupóstar í gluggum. Húsið er í raun sem nýtt þar eð það var endurbyggt, nánast frá grunni, fyrir rúmum tveimur áratugum.

Jakob Gíslason (1858-1923) söðlasmiður og bóndi frá Neðri-Mýrum Í Refasveit, A-Hún. hefur líkast til ekki búið lengi í húsinu. Hann er a.m.k. ekki skráður hér til heimilis í Manntali 1890. Þá var húsunum á Akureyri einfaldlega gefin númer, og var húsið skráð nr. 25. Þá býr hér téður Páll Jónsson, sem síðar tók upp nafnið Árdal, skáld og barnakennari og Þórður Stefánsson Thorarensen gullsmiður. Þórður byggði árið 1898 húsið Aðalstræti 13 og bjó þar síðan. Um aldamót er eigandi efri hæðar og rishæðar Magnús Blöndal. Gekk húsið þá undir nafninu Blöndalshús, en Magnús átti hins vegar ekki allt húsið, neðri hæðina átti frú Þóra Kristjánsdóttir. Í Manntali 1901 er húsið raunar ennþá kallað Þórðarhús, eftir upprunalegum eiganda. Þá leigja hjá Þóru, Oddur Björnsson prentari og Ingibjörg Benjamínsdóttir ásamt þremur börnum. Eitt þeirra var Ragnheiður, sem löngu síðar var til viðtals í bókaflokknum Aldnir hafa orðið. Segir hún svo frá aðstæðum í Lækjargötu 6 veturinn 1901-02: Íbúðin okkar í Lækjargötu 6, sem var hálf hæðin á móti eigandanum, frú Þóru Kristjánsdóttur frá Espihóli í Eyjafirði, var svo lítil, að þar var rétt hægt að sofa og aðeins eldhús með frú Þóru (Ragnheiður O. Björnsson (Erlingur Davíðsson) 1972: 192). Þess má geta að árið 1901 bjuggu „aðeins“ 15 manns í húsinu, tuttugu árum síðar voru íbúarnir meira en tvöfalt fleiri! Þennan vetur varð einhver mesti stórbruni Akureyrarsögunnar, þegar Hótel Akureyri við Aðalstræti og mörg fleiri hús brunnu til grunna á einni nóttu. Blöndalshús var eitt þeirra húsa sem talið var í hættu. Grípum aftur niður í frásögn Ragnheiðar: Sunnanstormurinn æsti eldinn og eldtungurnar gengu alveg yfir Blöndalshúsið öðru hverju. Allt var borið út úr húsinu hjá okkur, því að húsið var talið í svo mikilli hættu í þessum ægilega eldsvoða. En það varð þó ekki og ekkert brann hjá okkur (Ragnheiður O. Björnsson (Erlingur Davíðsson) 1972: 194). Það fylgir einnig sögunni, að það sem borið var út skilaði sér misjafnlega til baka. Veggmyndir hurfu, en sáust síðar uppi á veggjum víða um bæinn en komu þó í leitirnar smám saman. Þá átti fjölskyldan fulla tunnu af sláturkeppum, sem borin var út; morguninn eftir stóð tunnan óhreyfð en sláturkeppirnir horfnir!

Árið 1916 var húsið brunabótavirt og þá sagt tvílyft íbúðarhús úr timbri á lágum steingrunni, 9,4 x 7,5m að grunnfleti. Einnig er húsið sagt 8,16m hátt og á því 25 gluggar. Veggir eru timburklæddir og þak járnklætt. Innra skipulagi hússins árið 1916 er lýst þannig orðrétt, [...]undir framhlið eru í gólfi 2 stofur og forstofa, við bakhlið 2 stofur og eldhús. Á lofti við framhlið 3 stofur, við bakhlið 1 herbergi 2 eldhús og gangur. Kjallari afþiljaður í 4 hólf. Efstaloft 2 íbúðarstofur og 4 geimsluherb. [svo] (Brunabótafélag Íslands 1916, nr. 59). Gólf merkir jarðhæð, loft er önnur hæð og efstaloft rishæð. Eigandi er Henrik Schiöth. Þetta ár, 1916, eru 17 manns búsettir í Lækjargötu 6, en árið  1920 er íbúafjöldi Lækjargötu 6, 32 manns. Þeirra á meðal eru Jón Emil Tómasson ökumaður og Sigurlína Sigurgeirsdóttir kona hans ásamt sjö börnum. Þau munu hafa flutt í húsið árið 1914. Jón var S-Þingeyingur, uppalinn m.a. á Hróarsstöðum í Fnjóskadal en Sigurlína var frá Öngulsstöðum í Eyjafirði. Jón Tómasson lést árið 1922 en Sigurlína bjó hér áfram um áratugaskeið og síðar börn og barnabörn. Afkomendur Jóns Tómassonar og Sigurlínu voru, og eru, kallaðir „Tommarar“ og húsið löngum nefnt „Tommhúsið“ eftir þeim. Margir hafa átt, og búið í húsinu á síðari hluta 20. aldar og voru jafnan tvær smáar íbúðir á neðri hæð og ein íbúð á efri hæð í risi.

Húsið slapp í bæjarbrunanum í desember 1901 en tæpri öld síðar, í ársbyrjun 1998 skemmdist það í bruna. Hafði bærinn þá fest kaup á því til niðurrifs, en um áratugi hafði staðið til að húsið viki, til þess að greiða fyrir umferð um Spítalaveg og Lækjargötu. Brött gatan og hornið þrönga, með byrgða sýn til beggja átta, hafði löngum verið vegfarendum óþægur ljár í þúfu. En við brunann kom í ljós hin fágæta byggingargerð hússins, þ.e. steypa í binding og ekki var talið forsvaranlegt að húsið yrði rifið. Varð húsið nú mikið deilumál innan bæjarins næstu misseri, margir vildu jú losna við húsið. Húsfriðunarnefnd lagðist eindregið gegn niðurrifinu og svo fór, að bæjarstjórn samþykkti að hætta við þau áform, eða a.m.k. slá þeim á frest. Sá sem þetta ritar fylgdist spenntur með fréttum af málinu, m.a. á akureyrsku sjónvarpsstöðinni Aksjón. Þar var sýnt frá bæjarstjórnarfundum og minnist greinarhöfundur þess, að tillaga kæmi, um að húsið yrði selt til endurbyggingar, á eina krónu. Mörg stór orð voru látin falla og sagði bæjarfulltrúi nokkur m.a. að sér þætti húsið ljótt! Á þeirri stöð var einnig sýndur sérstakur heimildaþáttur um Lækjargötu 6 og margar greinar skrifaðar í blöðin. Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri framkvæmdi meira að segja skoðanakönnun meðal bæjarbúa, hvort þeir vildu að húsið stæði eða yrði rifið. Aðeins 11 % bæjarbúa vildu að húsið stæði áfram en 69 % þeirra vildu að það burt. Einhverjar hugmyndir komu fram, um að hnika húsinu til um fáeina metra, til að greiða fyrir umferð. Á meðan bæjarbúar, bæjarstjórn og húsfriðunarnefnd deildu um húsið stóð húsið á sínum stað og beið örlaga sinna.

Sumarið 1999 keyptu þau Guðrún Jónsdóttir og Sölvi Ingólfsson Lækjargötu 6 og hófu þau gagngerar endurbætur á húsinu, sem var í raun endurbyggt frá grunni. Ekki var húsið fært, en það var hins vegar hækkað um 40cm og kjallari dýpkaður. Teikningarnar að endurbyggðu húsinu gerði Finnur Birgisson. Endurbæturnar tóku mið af upprunalegu útliti hússins og skemmst frá því, að segja, að þær heppnuðust einstaklega vel og eiga framangreindir aðilar mikinn heiður skilinn fyrir framtakið. Húsið er í rauninni sem nýtt og í afbragðs góðri hirðu. Þrjár íbúðir munu í húsinu. Lækjargata 6 er til mikillar prýði í umhverfi sínu og er svo sannarlega ein af (mörgum) perlum Innbæjarins. Og hvað umferðarmál varðar, er Spítalavegurinn nú orðinn einstefnugata til suðurs (þ.e.a.s. niður) með 30 km hámarkshraða, sem dregur nokkuð úr hættu við hið varasama horn. Lækjargata 6 er aldursfriðað hús og hefur auk þess varðveislugildi sem hluti einstakrar heildar, skv. Húsakönnun 2012.

Myndirnar eru teknar 2021; 17. júní og 14. nóvember og í lok október 1998.

Heimildir:

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 59, 23. maí 1885. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins.

Erlingur Davíðsson. 1972. Aldnir hafa orðið I bindi: Ragnheiður O. Björnsson. Akureyri: Skjaldborg

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns