Hús dagsins: Smíðahúsið á Skipalóni

Þá er komið hásumar og tími til kominn, að senda þennan þátt, Hús dagsins, í sveit líkt og börnin forðum, skrifaði Arnór Bliki þegar hann birti þennan pistil upphaflega á sínu frábæra bloggi sínu. Dagsetningin 25. júní varð fyrir valinu hjá honum, „en þar er um að ræða afmælisdag „Húsa dagsins“. Við berum niður á Skipalóni, en þar vorum við einnig stödd fyrir réttu ári síðan. Svo liggur leið okkar væntanlega að mestu um Eyjafjarðarsveit,“ skrifaði Arnór Bliki._ _ _
Skipalón stendur yst og vestast í víðlendri og aflíðandi hlíð norður af Moldhaugahálsi, á brún lágrar brekku upp af ósum Hörgár, austanmegin ár, nokkurn veginn beint á móti Möðruvöllum. Næstu bæir eru Hlaðir að sunnan og Gásir austan við og á jörðin merki að þeim jörðum en við Hörgá í vestri og sjávarmál í norðri. Nafnið kann að benda til þess, að þarna hafi áður verið skipgengt, þegar mögulega hefur verið hægt að sigla að staðnum. upp eftir Hörgá. Frá hlaðinu á Skipalóni eru rúmir 14 kílómetrar í miðbæ Akureyrar, sé farið austur um Dagverðareyrarveg um félagsheimilið Hlíðarbæ. Örlítið lengri leið er um sama veg austanmegin um Hlaðir og að Moldhaugahálsi. Heimreiðin heim að Skipalóni er um 450 metrar frá Dagverðareyrarvegi.
Á Skipalóni standa tvö hús frá fyrri hluta 19. aldar. Annars vegar er það Lónsstofa, sem reist var árið 1824 og er því orðin 200 ár og hins vegar er Smíðahúsið, en það er byggt árið 1843. Það reisti bóndinn, timburmeistarinn og skipasmiðurinn, Þorsteinn Daníelsson, sem bjó á Skipalóni og var löngum kenndur við staðinn. Líkt og nafnið bendir til, var húsið reist sem smíðaverkstæði.
Smíðahúsið á Skipalóni er einlyft timburhús með háu risi og stendur það á lágum steingrunni. Snýr það N-S og stendur um 10 metrum austan við íbúðarhúsið á staðnum, Lónsstofu. Allt er það klætt timbri, slagþil á veggjum og rennisúð á þaki. Húsið tjargað en gluggar eru málaðir. Sexrúðupóstar eru í flestum gluggum og smærri gluggar með fjórum rúðum á rishæð. Grunnflötur er 12,76x6,63m.
Frá Skipalóni og Þorsteini Daníelssyni, ásamt ábúendatali Skipalóns síðustu tvær aldirnar var sagt nokkuð ítarlega í greininni um Lónsstofu en Þorsteinn Daníelsson var fæddur hér í nóvember 1796. Hann nam snikkaraiðn í Kaupmannahöfn undir handleiðslu meistara að nafni Jónas Isfeldt og lauk prófi vorið eftir. Sumarið 1821 giftist Þorsteinn, Margréti Þorláksdóttur frá Skriðu. Fluttust þau til Akureyrar, en Þorsteini þótti ekki við hæfi að bjóða eiginkonu sinni upp á búsetu í torfbænum, sem þá var á Lóni, en hugði á uppbyggingu þar, ef hann settist þar að. Fáeinum árum síðar flytjast þau Þorsteinn og Margrét að Lóni, en þar höfðu Þórður, bróðir Þorsteins og kona hans, Wilhelmína Lever, búið ásamt þeim Daníel og Guðrúnu í fáein ár, en ekki fest þar yndi. Skemmst er frá því að segja, að Þorsteinn reisti þar timburhús, Lónsstofu, sem enn stendur árið 1824, og var næstu áratugina ansi iðinn við húsbyggingar. Þau Þorsteinn og Margrét bjuggu miklu rausnarbúi á Skipalóni í nærri 60 ár og komust til mikilla efna. Gekk Þorsteinn ætíð undir nafninu Danielssen og Margrét ævinlega kölluð Lónsmaddaman. Voru þau orðlögð fyrir metnað og snyrtimennsku og réðu t.d. ekki til sín hjú, nema gengið væri úr skugga um, að fólkið væri ekki lúsugt en slíkt var landlægt.
Þorsteinn var mikilvirkur forsmiður, smíðameistari á Eyjafjarðarsvæðinu og nærsveitum á 19. öldinni en fékkst einnig við útgerð og jarðrækt, brautryðjandi á báðum sviðum. Þorsteinn var þekktur fyrir mikinn dugnað, ósérhlífni og afköst og gerði sömu kröfur til annarra og sín sjálfs. Sumarið 1843 hefur eflaust verið nokkuð annasamt hjá hinum annálaða dugnaðarmanni, því auk þess að reisa eigið smíðahús á hlaðinu heima var hann við kirkjubyggingu á Bakka í Öxnadal. Hefur þetta eflaust bæst ofan í hefðbundin bústörf. Það var almennt talið, að Þorsteinn hafi ekki dvalið á Bakka þegar kirkjusmíðin stóð yfir, heldur riðið fram og til baka á hverjum degi. Löngum þótti ýmsum ástæða til þess að draga þetta í efa, einfaldlega vegna þess hve leiðin er löng, 25 kílómetrar, og þannig hafi Þorsteinn riðið 50 kílómetra dag hvern til kirkjusmíði. Kristmundur Bjarnason (sbr. 1961: 259) telur hins vegar enga ástæðu til að ætla, að þetta sé ósatt, því Þorsteinn var með eindæmum árrisull, var t.a.m. oft mættur til Akureyrar klukkan sex á morgnana. (Þá má geta sér þess til, að Margrét Lónsmaddama hafi væntanlega þurft að vakna á sama tíma, ef ekki fyrr, til þess að laga kaffi handa Þorsteini).
Það er ekki óalgengt, raunar algengara en ella, að byggingarár húsa frá miðri eða fyrri hluta 19. aldar séu óviss og heimildum um slíkt beri ekki saman, eða þær hreinlega ekki til staðar. Í tilfelli Smíðahússins er þetta hins vegar nokkuð skýrt. Á fjöl, ofan inngöngudyra stendur einfaldlega „Th. Dsen Bigde Þettad Pakkhús Ár 1843“ eða Þorsteinn Danielsen byggði þetta pakkhús árið 1843. Skýrara verður það ekki. Sjálfur hefur Þorsteinn kallað húsið pakkhús þegar hann byggði það. Á sínum tíma hefur húsið verið eitt stærsta tré- og járnsmíðahús á landinu auk þess sem það þjónaði sem nokkurs konar félagsheimili fyrir hreppinn og getur Kristmundur Bjarnason þess, að þarna hafi verið haldnar óteljandi brúðkaupsveislur með harmonikuspili, drykkju og dansi (Kristmundur Bjarnason 1961:258). Þá mun Skipalónsbóndinn af og til sjálfur hafa staðið fyrir skemmtunum í húsinu, sérstaklega á efri árum (mögulega þegar dró úr starfsþreki og um fór að hægjast í smíðunum).
Mjög ítarlega lýsingu er að finna á smíðahúsinu í ævisögu Þorsteins Daníelssonar: Grindin er úr plönkum, og eru stoðir aðeins milli fótstykkis og lausholts, en sperrur koma yfir stoðir. Standklæðning er aðeins að utan úr breiðum borðum og eru naglfest að ofan og neðan, þ.e.a.s. í fótstykkjum og lausholt og síðan á jaðrana, og er allt neglt með heimagerðum nöglum. Þessu mikla timburhúsi er skipt í tvennt: norðari hlutinn var í senn geymsla og trésmíðaverkstæði, en syðri hlutinn járnsmíðaverkstæði. […] Í Pakkhúsinu [smíðahúsinu] liggur stigi upp á smiðjuloftið. Þar var matarlegt um að litast. Tröllaukinn skógur af hangikjöti og hákarli blasti við augum, harðfiskur í stöflum, en rúllupylsur og annað góðgæti eins og ávextir á trjám. Annar stigi var upp á efra loftið. Þar var æðardúnsgeymsla og auk þess voru þar geymd öll áhöld, sem við hann voru notuð og svo vefstóll og ull (Kristmundur Bjarnason 1961:257-258). Þá getur Kristmundur þess, að skotgat hafi verið á þilinu að vestan, þar sem gripum var slátrað með þeim hætti, að skotmaður stóð utan þils og skaut gripinn gegnum gatið. Mun þetta hafa verið öryggisráðstöfun. Einhverjar sagnir eru um, að Þorsteinn hafi smíðað skip í pakkhúsi sínu, en það þykir ólíklegt, vegna þess hve hurðir eru mjóar og ekkert sem bendir til þess, að breiðari dyr hafi verið til staðar. En vel má vera, að Þorsteinn hafi smíðað smærri árabáta í húsinu.
Þorsteinn Daníelsson lést árið 1882, 86 ára að aldri og hafði þá verið ekkill í rúmt ár, en Margrét lést 1881. Systursonarsonur Þorsteins og alnafni hans, Þorsteinn Daníelsson, tók við jörðinni og bjó þar til æviloka árið 1941. Mögulega hefur hann nýtt pakkhúsið til smíða en síðar þjónaði húsið sem geymsla og hlaða. Höfundur veit ekki til þess, að búið hafi verið í smíðahúsinu en ekkert útilokað, að slíkt hafi hent sig á þeim rúmu 180 árum sem húsið hefur staðið. Í brunabótamati árið 1918 er Lónsstofu lýst ásamt torfbæ, sem stóð á bænum en einhverra hluta vegna, virðist ekki minnst á smíðahúsið. Um miðja 20. öld eignaðist Iðnminjasafnið Smíðahúsið, er safninu hafði verið ánafnað húsið, þegar ríkið seldi Skipalónsjörðina. Það gæti hafa verið árið 1948, þegar síðustu ábúendur, Snorri Pétursson frá Blómsturvöllum og Sigurbjörg H. Kristjánsdóttir frá Gásum hófu hér búskap. Hvort þau eignuðust jörðina strax og þau hófu búskap (1948) er höfundi ókunnugt um en þau eru alltént eigendur jarðarinnar árið 1970 (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973:209). Í október árið 1962 var Minjasafnið á Akureyri nýlega stofnað. Þá komu fram hugmyndir um, að flytja Smíðahúsið á lóð þess við Aðalstræti, en það reyndist ekki raunhæft. Kannski hefur hugmyndin verið sú, að koma því fyrir þar sem nú stendur Minjasafnskirkjan. Árið 1976 rann Iðnminjasafnið undir Þjóðminjasafnið (sbr. Þór Magnússon 1984:211) og hefur Smíðahúsið verið í vörslu þess frá þeim tíma. Skipalónsbændur höfðu þó áfram afnot af húsinu fyrir hlöðu. Á árunum eftir 1985 fóru fram hinar ýmsu endurbætur á Smíðahúsinu, innan jafnt sem utan, og hafði m.a. hinn kunni hagleiksmaður Sverrir Hermannsson, veg og vanda af þeim.
Smíðahúsið á Skipalóni var friðlýst samkvæmt aldursákvæði Þjóðminjalaga þann 1. janúar 1990. Það virðist í góðri hirðu enda þótt nokkrir áratugir séu liðnir frá gagngerum endurbótum og mun útlit þess nokkurn veginn upprunalegt. Þessi skemmtilega húsasamstæða á Skipalóni er til mikillar prýði á skemmtilegu bæjarstæði, nokkurs konar útverðir Hörgárdals austanmegin. Að ekki sé minnst á gífurleg menningarverðmæti og mikið minjagildi í húsunum. Kannski er Smíðahúsið eitt elsta húsið sem enn stendur hérlendis, byggt sérstaklega sem iðnaðarhús? Lónsstofu bíða miklar og kostnaðarsamar viðgerðir en húsið hefur verið í steypukápu („forskalað“) í hartnær heila öld. Það er og þakkarvert að Skipalónsbændur hafi varðveitt þessi merku hús frá fyrri helmingi 19. aldar; einhvers staðar hefðu þessi hús eflaust verið jöfnuð við jörðu og nýmóðins hús reist í staðinn. Ekki hefur verið búið á Skipalóni í tæp 30 ár en húsakosti og jörð haldið við, tún, um 13 hektarar eru t.d. nytjuð frá nágrannabæjum.
Fyrir réttu ári síðan setti höfundur fram hugmyndir um í hvað Skipalónshúsin gætu nýst. Kannski gæti þarna verið byggðasafn, mögulega „útibú“ frá Nonnahúsi, þar sem Skipalón er sögusvið einhverra sagna hans. Þá væri svo sannarlega hægt að setja upp safn um Þorstein Daníelsson, mögulega einhvers konar byggingarminjasafn. Gistiheimili í Lónsstofu og samkomusalur í Smíðahúsinu? Kannski myndi einhver vilja búa þarna? Ef til vill væri möguleiki á einhvers konar veitingarekstri í Smíðahúsinu og þá aftur „matarlegt um að litast þar“ þó ólíklegt sé, að þar yrði „skógur af hákarli og hangikjöti og rúllupylsur eins og ávextir á trjám“. En hver veit. Staðsetning og umhverfi býður eflaust upp á mikla möguleika. Nú er þessi grein farin að minna mun meira á fasteignaauglýsingu heldur en söguágrip og látum hér staðar numið. Meðfylgjandi myndir eru teknar 18. júní 2024.
Heimildir:
Brunabótasjóður Glæsibæjarhrepps: Virðingabók 1918-1933. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók brunabótasjóðs Glæsibæjarhrepps 1918 - 1933 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu.
Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason og Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990 II. bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Þór Magnússon. 1985. Skýrsla um Þjóðminjasafnið 1984. Í Árbók hins íslenska fornleifafélags, 81. árg. bls. 193-213.
Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.