Fara í efni
Mannlíf

Hrafnhildur: Veldu þinn takt á aðventunni

„Þegar desember rennur í garð verða oft miklar breytingar á daglegu lífi okkar. Jólaljósin kvikna, dagarnir styttast og samfélagið fer í annan gír. Fyrir marga er þetta tími gleðistunda en fyrir aðra er þetta einnig tími streitu og þreytu. Fyrir okkur flest er þetta jafnvel einhver blanda af þessu öllu.“

Þannig hefst heilsupistill Hrafnhildar Reykjalín Vigfúsdóttur sem akureyri.net birtir í dag. Þær Guðrún Arngrímsdóttir, eigendur Sjálfsræktar heilsumiðstöðvar á Akureyri, skrifa pistla sem birtast annan hvern þriðjudag.

„Auglýsingum og kauptilboðum rignir yfir okkur. Eins og kveikt hafi verið á ósýnilegum rofa í samfélaginu sem kallar á „meira, stærra, hraðar“,“ skrifar Hrafnhildur sem segir fullkomlega eðlilegt að verða fyrir áhrifum af þessum breytta takti. „En þegar við gefum okkur augnablik til að staldra við og draga andann djúpt, þá minnir aðventan okkur líka á að hún þarf ekki fyrst og fremst að vera tími verkefna. Hún getur líka verið tími til þess að hlusta inn á við. Tími til þess að velja okkar eigin takt. Að velja það sem nærir okkur. Að setja í forgang það sem passar best fyrir okkur í stað þess að elta tilbúnar kröfur samfélagsins.“