Fara í efni
Mannlíf

Hilda Jana andsnúin hugmyndum SS Byggis

Mynd af hugmyndum SS Byggis við Tónatröð.

Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Akureyrar, lýsti því yfir á Facebook síðu sinni rétt í þessu, að hún muni greiða atkvæði gegn tillögum um hugmyndir SS Byggis að húsum við Tónatröð, komi þær til meðferðar í bæjarstjórn. Akureyri.net greindi frá þessum hugmyndum fyrirtækisins síðdegis svo bæjarfulltrúinn var ekki lengi að bregðast við.

„Þar sem ég er bæjarfulltrúi á Akureyri þá er ég oft beðin um skoðun mína á ýmsum málum og þá ekki síst skipulagsmálum. Til þess að tala alveg skýrt þá vil ég sjá metnaðarfulla uppbyggingu á Akureyri og að við náum að fara upp úr hjólförum stöðnunar. Við verðum að horfa til þess að þétta byggð og nýta landrými sem best. Ég tel hins vegar líka mjög mikilvægt að horfa til fjölmargra annarra þátta s.s. ásýndar, umhverfis, almannarýmis o.s.frv. Á þeim forsendum er ég ekki hlynnt framkomnum hugmyndum um háhýsi á Oddeyrinni og í Tónatröð og mun greiða atkvæði gegn tillögum þess efnis komi þær til meðferðar í bæjarstjórn,“ skrifar Hilda Jana.

Hugmyndir SS Byggis um stórhýsi á Oddeyri sem hafa mætt mikilli andstöðu meðal bæjarbúa. Myndina, og þá af húsum við Tónatröð, birti Hilda Jana með færslu sinni á Facebook í kvöld.

Fréttin um hugmyndir SS Byggis