Fara í efni
Mannlíf

Heilsugæsla í grennd við sjúkrahúsið?

Akureyrarbær bauð ríkisvaldinu á sínum tíma lóð undir heilsugæslustöð spolkörn frá Sjúkrahúsinu. Lóðin var afþökkuð þá en ekki er loku fyrir það skotið að rykið verði dustað af boðinu. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Ekki er loku fyrir það skotið að ný heilsugæslustöð verði staðsett í nágrenni Sjúkrahússins á Akureyri (SAk). Akureyrarbær hefur hug á að skoða aðrar staðsetningar en þá sem ákveðin hafði verið, til dæmis á lóð sem er spölkorn frá SAk, og ríkisvaldið er því ekki mótfallið. Þetta herma heimildir Akureyri.net.

Ein heilsugæslustöð var starfrækt í miðbænum til áratuga. Starfsemin hefur verið flutt þaðan og heilsugæslustöð var nýverið opnuð í verslunarkjarnanum Sunnuhlíð norðan Glerár, þar sem öllum bæjarbúum er sinnt um þessar mundir. Lengi hefur staðið til að stöðin sem starfrækja á sunnan Glerár verði til húsa í nýbyggingu á horni Þingvallastrætis og Byggðavegar, norðan gamla tjaldsvæðisins.

Staðsetning heilsugæslustöðvar norðan tjaldsvæðisreitsins hefur verið töluvert umdeild meðal bæjarbúa, margir óttast að aðgengi verði ekki gott og umferð um íbúahverfið aukist mikið. 

Gert hefur verið ráð fyrir nýrri heilsugæslustöð vestan við Icelandair hótelið, sem nú heitir Berjaya. Guli flöturinn er fyrirhuguð heilsugæslustöð.

Akureyrarbær bauð ríkinu á sínum tíma lóð undir nýja heilsugæslu í nágrenni við sjúkrahúsið en hún var afþökkuð. Fram hefur komið að starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN), sem rekur heilsugæsluna, hafi ekki verið hrifnir af þeirri staðsetningu.

Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN, sagði í viðtali við Akureyri.net í desember að það væri í sjálfu sér ekki HSN að ákveða staðsetninguna þó starfsmenn hafi skoðun á henni. „Það er bara stefnt að því að byggja aðra stöð þarna á þessum bletti,“ segir hann og vísar þar til staðsetningarinnar á horni Byggðavegar og Þingvallastrætis.

Spurður um hugsanlega staðsetningu á lóð við hlið sjúkrahússins sagði Jón Helgi þá að þau hjá HSN hafi ekki verið mjög áhugasöm um það. „Við vildum hafa skýrari aðgreiningu á milli sjúkrahússtarfseminnar og heilsugæslustarfseminnar. Ég held að það hafi almennt verið skoðun okkar starfsfólks,“ segir hann og svarar því til að nálægðin við sjúkrahúsið hafi ekki endilega kosti sem myndu vega upp á móti.


Horn Þingvallastrætis og Byggðavegar, norðan við gamla tjaldsvæðið.  Þar hefur staðið til að ný heilsugæslustöð rísi. Til vinstri er Berjaya-hótelið. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Jón Helgi sagði ennfremur: „Það er ekki sáluhjálparatriði hjá okkur, staðsetningin, svo framarlega sem hún er sunnanvert í bænum, við getum orðað það þannig. Okkur hefur fundist þessi staðsetning sem þarna var fundin bara mjög flott, að hún henti vel upp á starfsemina og aðgengi að henni fyrir íbúana. En það virðist vera krefjandi að byggja þarna. Við í sjálfu sér vildum ekki skipta okkur mjög mikið af þessari staðsetningu. Það skiptir bara máli að menn séu ekki mikið að hringla með það, bara að þetta komist á koppinn.“