Fara í efni
Mannlíf

Hefur misst af fimm tónleikum af 2300 á 20 árum!

Haukur Tryggvason tónleikahaldari á Græna hattinum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kirkjan er sér kapítuli. En góða veðrið, Lystigarðurinn og leikhúsið, trén í brekkunni; allt hefur þetta verið ofarlega á lista yfir helstu tákn Akureyrar í gegnum árin. Hof er það nýjasta en önnur menningarmiðstöð, öllu smærri að flatarmáli, komst fyrir nokkrum árum á blað hjá mörgum: Græni hatturinn við Hafnarstræti.

Svona komst sá sem þetta skrifar að orði í myndabók sem kom út fyrir 10 árum, um fyrsta áratug tónleikastaðarins Græna hattsins. Ótrúlegt en satt; annar áratugur er liðinn og Haukur Tryggvason hefur því staðið vaktina á staðnum í 20 ár.

Þrautseigja og ástríða

Haukur kom Græna hattinum á koppinn með þrautseigju og vænni slettu af ástríðu, eins og hann orðaði það á sínum tíma, og „bullandi áhugi á verkefninu,“ gerir það að verkum að hann er enn að.  „Mér finnst mjög gaman að vinna við þetta,“ segir Haukur. Hann væri eflaust löngu hættur hefði hann ekki jafn mikinn áhuga á tónlist og raun ber vitni.

Staðurinn er alltaf jafn vinsæll að sögn Hauks, bæði hjá tónlistarfólkinu sjálfu og gestum. „Tónlistarmönnum finnst mjög gott að spila hérna. Það er nánast uppbókað fram að verslunarmannahelgi.“ Hann segir mjög marga koma aftur og aftur á tónleika og nefnir að alla jafna sé um helmingur utanbæjarfólk.

Haukur miðar upphafið við 14. febrúar árið 2003. Ekkert sérstakt var um að vera þann dag í ár, enda þriðjudagur, en „Ljótu hálfvitarnir voru hér 11. febrúar með mikla gleði,“ segir hann.

Haukur Tryggvason vert á Græna hattinum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Focus um helgina

Um helgina verður einskonar hátíð á Græna hattinum, þó ekki sé hún tengd afmælinu heldur hefðbundnir tónleikar. Hollenska rokksveitin Focus kemur þá tvívegis fram, á föstudags- og laugardagskvöld. Mörgum eru eflaust í fersku minni frábærir tónleikar Focus árin 2015 og 2017.

Alls hafa verið haldnir um 2.300 tónleikar á Græna hattinum á þessum tveimur áratugum, um 115 á ári að meðaltali. Eins og fastagestir staðarins vita er Haukar alltaf að, eða því sem næst. „Ég hef misst af fjórum eða fimm af þessum tónleikum!“ segir hann og hlær.

Litlu munaði að Haukur legði upp laupana í árslok 2006 – nánar um það á eftir – og hann velti því fyrir sér að hætta rekstrinum á Covid tímanum. „Covid kom mjög illa við mann. Það var meira og minna lokað í tvö ár, og einu sinni alveg í sex mánuði. Innkoman var því engin en reikningurinn héldu allir áfram að koma, nema fyrir áfengið; húsaleiga, sími, rafmagn, posagjöld, heilbrigðiseftirlitsgjöld ... Ég var alveg við það að gefast upp þegar tók að birta til aftur.“

Eitt kvöldið kom enginn!

Haukur tók við rekstri Græna hattsins 14. febrúar 2003. „Ég var með dansleiki fyrsta árið en það gekk ekki vel og þegar Vélsmiðjan var opnuð ákvað ég að prófa að snúa mér að tónleikahaldi; bærinn er ekki nógu fjölmennur fyrir tvo dansleikjastaði af þessu tagi,“ segir hann.

Fyrst í stað bauð Haukur upp á tónleika á fimmtudögum, síðan einnig á föstudags- og laugardagskvöldum. „Það tók tíma að venja fólk á að mæta klukkan átta eða níu og ég hélt reyndar framan af að það væri ekki hægt, en þegar Pétur Ben var hér fyrstur á laugardagskvöldi kom annað í ljós.“ Reksturinn gekk ágætlega um tíma en síðan fjaraði undan starfseminni og Haukur var kominn á fremsta hlunn með að taka niður hattinn; sá sæng sína uppreidda laugardagskvöld eitt í desember 2006 þegar ekki einn einasti maður mætti á tónleika. „Dyrnar voru ekki opnaðar allt kvöldið. Það kom enginn! En hljómsveitin má eiga það að hún lék allt sitt prógramm og var fín. Keyrði svo suður aftur um nóttina.“

Sænska söngkonan Lisa Edkahl á Græna hattinum 2. mars árið 2007. Heimsókn hennar skipti sköpum. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Varð að hætta við að hætta ...

Stuttu seinna hringdi síminn og Grímur Atlason umboðsmaður tilkynnti Hauki að hin þekkta, sænska söngkona, Lisa Ekdahl, vildi koma. „Ég ætlaði að hætta um áramótin en ákvað að þrauka til 2. mars að beiðni Gríms. Lisa hafði áður komið til Íslands og vildi í þessari ferð fara út á land.“ Akureyringar geta því þakkað Lísu og Grími að menningarmusterið, eins og Græni hatturinn er stundum kallaður af góðu fólki, lagði ekki upp laupana. „Tónleikar Lisu voru rosalega vel lukkaðir. Þeir spurðust út og það seldist upp áður en farið var að auglýsa.“ Ekdahl var líklega ekki mjög þekkt meðal almennings hér á landi „en í bænum er margt fólk menntað í Svíþjóð og sá hópur fyllti staðinn!“

Þá var ekki aftur snúið. Haukur varð að hætta við að hætta. Sem betur fer!