Fara í efni
Menning

Van Leer mætir enn með sitt Hocus Pocus

Thijs van Leer, stofnandi og prímusmótor í Focus á eftirminnilegum tónleikum árið 2015 á Græna hattinum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ekki kæmi á óvart þótt draumkennd tilhlökkun ríkti í augnablikinu á heimilum margra Akureyringa á besta aldri, jafnvel að fortríðarþráin streymdi undan nálinni eða eftir öðrum leiðum um hýbýlin í líki Hocus Pocus eða annarra gamalla hittara

Ástæðan? Haukur vert Tryggvason á Græna hattinum býður um næstu helgi hið þriðja sinni upp á hollenska meistarannn Thijs van Leer og liðsmenn hans í rokksveitinni Focus og ekki ólíklegt að margir hugsi sér gott til glóðarinnar eftir tvenna ógleymanlega konserta á staðnum, fyrst 2015 og síðan 2017. Þar fór þessi gamli, snjalli orgel- og þverflautuleikari, söngvari, lagasmiður og hljómsveitarstjóri, á kostum eins og jafnan í gegnum árin.

Hocus Pocus ...

Með í för eru nú sem í síðustu heimsókn trommarinn Pierre van der Linden trommar, sem hefur fylgt van Leer nær alla tíð, Menno Gootjes sem galdrar fram tóna úr gítarnum og Udo Panekeet, frábær bassaleikari eins og van Leer orðaði það í samtali við þann sem þetta skrifar fyrir síðustu heimsókn.

Til upprifunjar, eða fyrir þá sem vilja kynna sér sveitina, eru hér tenglar á tvö af vinsælustu lögum hennar í gegnum tíðina:

Forsprakkinn ven Leer verður 75 ára síðar í mánuðum en er í fullu fjöri, enda sveitin nýbúin að gefa út enn eina plötuna og er dugleg að koma fram.

„Ég er orðinn gamall. Þú þarft ekkert að vera feiminn við að orða það þannig!“ svaraði van Leer kurteislegri spurningu þegar ofanritaður hringdi í hann – árið 2017. „Trommarinn van der Linden er reyndar tveimur árum eldri en ég en Gootjes er 41 árs og Pannekeit 39. Þetta eru því tvær kynslóðir í hljómsveitinni, sem er gott. Það er mjög gefandi að spila með sér yngri mönnum,“ segir van Leer í áðurnefndu viðtali, sem birtist í Morgunblaðinu.

Loksins...

Haukur Tryggvason segir að lengi hafi staðið að þeir Focus liðar troði upp enn og aftur á Græna hattinum. „Við höfum þurft að ýta þessu verkefni á undan okkur nokkrum sinnum, lengi vel varð ekkert af því vegna Covid og svo er Thijs alltaf upptekinn við alls konar verkefni, bæði með Focus og í klassíkinni,“  segir Haukur við Akureyri.net, „en sem betur fer fundum við loksins daga sem hentaði báðum.“

Thijs van Leer við Hammond orgel Hauks á Græna hattinum í síðustu heimsókn árið 2017.

Focus hefur lengi verið í uppáhaldi hjá Hauki og þegar hann fékk símtal árið 2015 hélt vertinn að einhver vina sinna væri að gera símaat:

„Góðan dag. Ég er að hringja fyrir hollensku hljómsveitina Focus. Hún hefur áhuga á að koma og halda tónleika hjá þér. Er það mögulegt?“

Lög sveitarinnar hljóma oft í hátölurum Græna hattsins fyrir tónleika og jafnvel á eftir, meðan gestir tínast út. Nokkrum dögum áður hafði Haukur nefnt við vin sinn, Þorleif heitinn Jóhannsson trommara, að gaman yrði að fá þessar gömlu hetjur í heimsókn ...

Haukur þurfti ekki að hugsa sig lengi um og báðar heimsóknir voru afar vel lukkaðar.

Nóg að gera í hálf öld

Van Leer stofnaði Focus fyrir liðlega hálfri öld, árið 1969. Hljómsveitin átti hvern smellinn á fætur öðrum og ferðaðist um veröldina þvera og endilanga. „Það var mjög gaman og er enn, herra minn,“ sagði hann hinn kátasti í áðurnefndu viðtali.

Focus hætti störfum 1978, tók upp þráðinn 1985 og var starfandi til 1999. Eftir tveggja ára hlé var lífi blásið í sveitina aftur og hún er enn að. Thijs van Leer hefur að auki gefið út nokkrar sólóplötur og er ein þeirra, Introspection , mest selda plata alla tíma í Hollandi. Hún kom út 1972 en fleiri fylgdu í kjölfarið.

Þegar spurt er hvers vegna Focus hafi verið endurvakin árið 2001 kemur í ljós að það stóð hreint ekki til. Bassaleikarinn Bobby Jacobs, stjúpsonur van Leer sem reyndar ekki lengur í bandinu, stofnaði þá hljómsveit ásamt tveimur vinum sínum og bauð þeim gamla að vera með.

Þeir hugðust spila gömlu Focus lögin, sem ábreiðuband. Viðtökur voru afar góðar og að áeggjan umboðsmanns, sem falaðist eftir því að vinna með fjórmenningunum, var rykið dustað af Focus-nafninu. „Það tók mig ekki nema eina mínútu að slá til, eftir að sú hugmynd kom fram,“ segir van Leer. Allar götur síðan hefur verið nóg að gera enda sumir smellir sveitarinnar ódauðlegir og fólk þyrstir í að njóta þess góðgætis aftur og aftur.

Thijs van Leer og félagar á Græna hattinum árið 2015 Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson