Fara í efni
Mannlíf

„Þetta hefur verið algjör draumur“

Eiríkur, eiginkonan Silja Magnúsdóttir og dóttirin Alexandra Diljá. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Eiríkur, eiginkonan Silja Magnúsdóttir og dóttirin Alexandra Diljá. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Eiríkur Helgason hefur verið atvinnumaður á snjóbretti síðan 2008. Hann er einnig atvinnumaður á hjólabretti og nú í þriðju greininni, snjóhjólabretti eins og greint var frá hér á Akureyri.net í gær.

„Ég vissi alltaf að ég myndi enda á Akureyri. Hér er heima,“ segir Eiríkur í samtali við Akureyri.net, en hann er nú sestur að hér eftir linnulítil ferðalög um veröldina í rúmlega áratug. Unnusta hans til ellefu ára, Silja Magnúsdóttir, varð eiginkona fyrir skömmu: „Já, við giftum okkur bara um daginn,“ segir Eiki hæstánægður. Dóttir þeirra, Alexandra Diljá Eiríksdóttir, er orðin fjögurra ára og parinu fannst tímabært að festa rætur á ný.

Þau bjuggu í rúm sjö ár í Mónakó, þar sem Eiríki fannst frábært að vera enda nokkuð miðsvæðis með tilliti til þess hve mikið hann flakkaði um heiminn og hvert leiðin lá oftast. Frá Mónakó er örstutt á alþjóðaflugvöllinn í Nice og einfalt að komast nánast hvert sem er.

Snjóbretti – vegna veðurs

Þegar spurt er hvort tíminn frá því hann gerðist atvinnumaður fyrst, hafi ekki verið skemmtilegur, er stutta svarið þetta: „Jú, þessi ár hafa verið mikið ævintýralíf. Þetta hefur verið algjör draumur. Silja var með mér í Mónakó, við vorum þar alltaf á sumrin en hún var heima á veturna því þá var ég alltaf að þvælast.“

Eiríkur varð atvinnumaður á snjóbretti 21 árs en þeir Halldór bróðir hans byrjuðu að renna sér og stökkva á hjólabrettum barnungir heima á Sílastöðum í Hörgárbyggð, skammt norðan Akureyrar. Eiríkur segist hafa verið 11 eða 12 ára og Halldór er fjórum árum yngri.

Hjólabrettið var í mestu uppáhaldi og er raunar enn, en þeir hölluðu sér eðlilega meira að snjóbrettinu vegna veðuraðstæðna. Svo reyndist mun meira upp úr því að hafa. „Á sumrin vorum við á hjólabrettum, vorum bæði í hlöðinni og úti, röðuðum upp alls konar drasli til að geta stokkið og gerðum handrið sem við gátum rennt okkur á, ekki ósvipað því sem er núna bakvið Skautahöllina hér á Akureyri. Við settum þar upp græjur sem allir geta notað.“

„Hættu að hugsa eins og barn“

Eins og Eiki sagði frá hér á Akureyri.net í gær voru ekki margir sem höfðu á trú á því þegar hann sagðist ætla að verða atvinnumaður á bretti. „Margir sögðu mér að hætta að hugsa eins og barn, en ég varð bara ákveðnari við það. Ég er alltaf þannig; ef einhver segir mér að eitthvert stökk sem ég ætla að prófa á brettinu sé ekki hægt að gera eflist ég og gefst ekki upp fyrr en það tekst. Ef einhver sagði mér að draumurinn um að verða atvinnumaður væri eitthvert barnarugl sýndi ég hvað í mér býr. Nú get ég hlegið að þeim!“ segir hann.

Eiki byrjaði sem sagt að flakka um heiminn 21 árs í hlutverki snjóbrettakappa. „Fyrst voru ferðirnar borgaðar en fljótlega varð ég atvinnumaður og þá fær maður föst laun; farið var að framleiða vörur með nafninu mínu, maður fær samning hjá fyrirtækjum, klæðist vörum frá þeim og fær laun fyrir það. Maður er eins og gangandi skilti! Fyrirtækin kaupa auglýsingapláss; fyrirtæki sem framleiða húfur, föt og bretti.“

Mörg hundruð stökk á dag!

Bræðurnir Eiríkur og Halldór héldu ungir að heiman og í framhaldsskóla í Svíþjóð. „Ég var fyrst eitt ár í smíðanámi í Verkmenntaskólanum en heyrði svo um þennan skóla úti og fór beint í að reyna að komast þar inn. Hann er í bænum Malung í Dölunum og gaman að segja frá því að þarna voru víst margir Akureyringar í gamla daga til að læra skinnaiðnað og unnu svo hérna á verksmiðjunum. Skinnaiðnaður var aðalmálið í bænum í gamla daga og námið var í skólanum okkar.“

Eiki segir skólann í Malung, eins og fleiri framhaldsskóla í Svíþjóð, leggja mikið upp úr því að aðstoða nemendur sem vilja stunda íþróttir. „Náminu er raðað þannig upp að suma daga var maður í skólanum og hina í brekkunum. Fjöllin eru geggjuð fyrir brettafólk enda er mikil áhersla lögð á að hafa góða stökkpalla á svæðinu.“

Þetta var mikil breyting frá því sem strákarnir voru vanir hér heima. „Hér er maður 10 mínútur upp í lyftunni og svo eru jafnvel engir stökkpallar í brekkunum. Við höfðum aldrei séð aðstæður eins og í Malung, enda reyndum við alltaf að vera fyrstir upp á morgnana og síðastir heim á kvöldin!“

Fjöllin eru reyndar ekki mjög há á svæðinu, sem Eiki segir gott. „Maður var ekki nema eina mínútu upp í lyftunni, fjórir pallar á leiðinni niður þannig að hægt var að ná 200 til 300 stökkum á dag. Þess vegna var maður svona fljótur að ná að gera öll þessi trikk!“

Risasport

Eiki segir snjóbrettaíþróttina miklu stærri en flestir Íslendingar geri sér sennilega grein fyrir. „Þetta er orðið risasport bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Það var geggjað að ferðast um, keppa og sýna fyrir 10 árum en eftir hrun hefur hægt og bítandi dregið úr, það er erfiðara að fá styrki, nema að vera í hópi útvalinna. Og ég hangi reyndar enn í þeim hópi! Og þetta er það sem ég lifi af ennþá – snjóbrettin.“

Hann segist lítið hafa keppt undanfarið. „Ég er meira í því að búa til video, sem er miklu frjálslegra. Ég geri í raun bara það sem ég vil, þegar ég vil. Við hópumst þá saman, einhverjir vinir, og vinnum verkefni, sem jafnvel getur tekið heilt ár. Við erum þá keyptir til þess en ég hef líka mikið verið að búa til mitt eigið efni. Það er þægilegast.“

Eiríkur segist gera sífellt meira af stuttum myndböndum og birta á Instagram. „Ég geri þætti sem eru um það bil mínúta, sem hentar mjög vel. Menn notuðu Instagram aðallega sem auglýsingu, til að vekja athygli á einhverju sem þeir voru að gera og fá fólk til að horfa á video annars staðar. Ég prófaði hins vegar þessa aðferð og fólk tók því mjög vel.“

Á Instagram leitast Eiríkur við að sýna stökk sem enginn hefur gert áður. „Hver þáttur snýst um eitthvert eitt trikk; ég sýni þegar ég æfi mig og svo þegar trikkið heppnast. Stundum tekur það nokkur hundruð tilraunir þangað til stökkið tekst og ég sýni einmitt oft nokkrar fyndnar tilraunir, þegar ég dett eða lendi illa. Svo tala ég aðeins um þetta og pakka niður í um það bil mínútu. Það hentar mjög vel.“

Eiki í „skálinni“ í öðrum Bragganum við Laufásgötu. Fleiri myndir neðar: Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Ekki fyrir alla að reyna!

Ferðalög Eika snúast nú orðið meira um að vera á staðnum þegar myndbönd eru frumsýnd, hvort sem er í Evrópu eða Bandaríkjunum, en reyndar hefur ekkert verið um það síðan kórónuveirufaraldurinn braust út. „Frumsýningarnar eru stundum í bíósölum, stundum í snjóbrettabúðum eða jafnvel á veitingastöðum. Það er mismunandi eftir stöðum“

Hann tekur fram að ekki sé mælt með að allir reyni að gera það sem sýnt er í myndböndunum! Sumt sé aðeins fyrir þá sem eru langt komnir, en allir geti hins vegar notið þess að horfa á.

„Við reynum alltaf eitthvað nýtt, reynum að þróa íþróttina en það þarf mikla þjálfun til að gera margt af því sem sýnt er. Ég man þegar ég var að byrja varð maður sér úti um VHS spólu, setti í videotækið og horfði á aftur og aftur. Sennilega horfði maður mörg þúsund sinnum á sumt. Nú hefur það breyst mikið, hægt að finna allt á netinu og þess vegna vildi ég gera eitthvað öðru vísi en aðrir; skera mig aðeins úr og fór þess vegna út í að gera Instagramþættina.“

  • Stuttir Instagramþættir Eika heita #Braindomness - HÉR er einn slíkur
  • Viltu fylgja Eika á Instagram? Þetta er slóðin: https://www.instagram.com/eiki.helgason/

 

Mest gaman á hjólabretti

Fyrsti atvinnumannssamningur Eiríks var sem hjólabrettamanns. „Draumurinn var að geta orðið atvinnumaður á hjólabretti, við vorum alltaf á því á sumrin en um leið og fór að snjóa urðum við auðvitað að skipta og vorum á snjóbretti allan veturinn. En um leið og bráðnaði vorum við komnir á hjólabrettið aftur. Fyrsti stóri samningurinn bauðst svo sem snjóbrettamaður og þess vegna fór maður í þá átt.

Seinna höfum við svo verið með sponsor á hjólabrettum og framleidd eru bretti með nafninu okkar – Helgason model. Það er reyndar meira upp á gamanið en að maður græði eitthvað á hjólabrettunum. En ég hef verið lengst á þeim og finnst það mest gaman; mér hefur alltaf fundist hjólabrettið fallegast af þessu öllu og grunnurinn að hinu; snjóbrettin eru eiginlega bara eftirherma. Snjóbrettin gefa hins vegar miklu meira af sér. Það var líka auðvitað miklu gáfulegra að vera á snjóbrettum á Íslandi vegna veðursins.“

Það nýjasta, snjóhjólabrettið, er raunar ekki alveg nýtt af nálinni. „Ég held ég hafi eignast fyrsta svona brettið 2002 eða 2003 en svo hurfu þau. Ég hélt þetta hefði lognast út af og pældi aldrei meira í því. En eitt fyrirtæki í Kanada hélt áfram að framleiða þetta og hefur gert allan tímann. Eftir að ég sá þetta aftur hafði ég samband við fyrirtækið og bað um nokkur bretti til að prófa. Þeir sendu mér bretti, sem eru orðin miklu betri en á sínum tíma, og þetta var strax tiltölulega auðvelt fyrir mig, enda blanda af snjó- og hjólabretti. Eftir að ég gerði svo myndband með þessum þremur mismunandi brettum vildi fyrirtækið endilega fá mig í atvinnumannaliðið sitt! Ég er svo nýbúinn að semja við þá að enn er ekki búið að tilkynna það. Næsta vetur kemur á markað bretti með nafninu mínu sem er auðvitað spennandi og ég á einmitt von á brettum til að selja hér heima. Verð vonandi kominn með nokkur stykki fyrir jól.“

Hann segir mikið hafa verið spurt um þessa tegund bretta eftir að myndbandið sem hann nefndi birtist fyrst; þar sem hann leikur listir sínar á öllum þremur brettagerðunum. „Ég dró nokkra stráka með mér í þetta hér á Akureyri og ég held þeir séu orðnir háðir þessu nýja bretti!“

Geri þetta bara sjálfur ...

Nýjasta ævintýri Eiríks er hjólabrettagarður innanhúss á Akureyri, sem hann kallar Braggapark, í tveimur samtengdum bröggum við Laufásgötu. Þar var áður var bobbingasmíði til margra ára.

„Við reyndum fyrir 10 árum að fá bæinn til að gera hjólabrettagarð með okkur, það var farið í prufuverkefni en húsið svo tekið undir eitthvað annað nokkrum mánuðum seinna. Ég var ekki á landinu á þessum tíma þannig að prófaði aldrei aðstöðuna, en þegar ég kom heim aftur hugsaði ég fljótlega um að svona aðstaða væri það sem vantaði í bæinn til að gera hann fullkominn!“

Eiki segist hafa fundað með fólki frá Akureyrarbæ, en fengið þau svör að bæjarfélagið gæti ekki tekið þátt í verkefninu að svo stöddu. Ekki væri fjármagn fyrir hendi. „Þá ákvað ég bara að gera þetta sjálfur. Leitaði að húsnæði, fann þessa bragga og leigi þá. Við fengum húsið í október í fyrra, ég byrjaði að smíða og græja hérna og við ætluðum að opna á milli jóla og nýárs. Það tók að vísu lengri tíma en ég reiknaði með að koma húsinu í stand þannig að opnun var frestað fram í febrúar en þá kom Covid. Þá smíðuðum við meira og þegar opnað var 25. maí, um leið og hægt var, var fyrri salurinn orðinn fullkominn.“

Salurinn var opinn þangað til í nóvember, þegar loka varð vegna samkomutakmarkana en Eiki vonast til þess að hægt verði að opna á ný fljótlega.

Stelpurnar fjölmenntu

Hann segir staðinn mjög vinsælan. „Þetta er ótrúlega mikið sótt. Ég vissi ekkert út í hvað var að fara viðskiptalega og sá í sjálfu sér ekki fyrir mér að ég myndi hagnast á þessu. Bílaáhugamenn kaupa sér rándýra bíla en ég hef engan áhuga á bílum svo ég fékk mér skatepark!“

Í fyrri salnum er það sem á brettamáli er kallað Street park. „Það er eins og gata með handriði og tröppum, þar sem mann renna sér og stökkva. Í hinum salnum er skál, sú eina á landinu. Þetta er tvennt gjörólíkt en það þykir mjög gott að hafa báða sali á sama stað.“

Eiki segist hafa orðið var við að stelpur virtust hræddari við að mæta til að læra á bretti en strákar. „Þetta hefur því miður frekar verið talið strákasport, þess vegna var ég með sérstakt stelpunámskeið í sumar og það er best sótta námskeiðið af öllum. Þetta þurfti til að ýta þeim af stað.“

Hægt er að stunda fjórar íþróttir í bröggunum; vera á hjólabretti, hlaupahjóli, línuskautum og BMX hjóli.

Fyrir nokkrum dögum byrjaði Eiki einmitt með fyrsta hlaupahjólanámskeiðið en ákveðinn fjöldi 16 ára og yngri má koma saman. „Sex til níu ára þurfa ekki að vera með grímur en 10 til 16 mega vera 10 í einu og þurfa að vera með grímu. Þetta er eina leiðin til að gera eitthvað í þessum mánuði og þá gerum við það þannig.“

Viðskiptin ganga vel

Eins og Eiki sagði í upphafi var hann alltaf ákveðinn í að flytja heim til Akureyrar á ný. „Við höfum alltaf komið af og til. Fyrir nokkrum árum keyptum við lóð, ég lét steypa upp hús fyrir mig sem ég tók við fokheldu og svo hefur maður verið að smíða!“

Fjölskyldan hefur komið sér vel fyrir í húsinu, á frábærum stað í Naustahverfi þar sem útsýnið er magnað til allra átta.

Bræðurnir, Eiki og Halldór, eiga fyrirtæki sem framleiðir snjóbretti og bindingar. „Við látum framleiða fyrir okkur í Kína. Ekki vegna þess að það sé ódýrast, eins og sumir halda, heldur vegna þess að Kínverjar eru bestir í þessu. Þeir er líka fljótastir og eru mjög hátt skrifaðir í svona framleiðslu. Mörg stór merki í brettaheiminum láta framleiða fyrir sig í Kína.“

Brettaheimurinn er stór, eins og Eiki kom inn á fyrr. „Þetta er risastórt dæmi, ekki síst í Austurríki og Þýskalandi en Bandaríkin eru stærsti markaðurinn og þar seljum við lang mest.“

Eiki lærði viðskiptafræði í skólanum góða í Svíþjóð. „Þeir sem voru á snjóbrettabraut gátu valið um að læra viðskiptafræði eða náttúrufræði. Ég er ánægður með valið vegna þess að við bræðurnir fórum í út í viðskiptin, en hugsa reyndar oft út í það núna að ég hefði átt að taka betur eftir í tímum! Það hefði hjálpað í dag! Í skólanum hugsaði maður alltof oft að þetta væri bara eitthvað sem skipti ekki máli en þyrfti að klára og drífa sig svo á brettið. En ég þarf ekki að kvarta, ég er með mjög gott skrifstofufólk sem sér um allt bókhald og þannig. Okkar hlutverk er að hanna, prófa og kynna vörurnar.“

Fyrirtækið er með vöruhús bæði í Hollandi og Bandaríkjunum og þeim bræðrum gengur allt í haginn. Eiríkur er því hæst ánægður með lífið og tilveruna.

„Ég er að vinna við það sem mér finnst skemmtilegast. Ef þetta væri ekki vinnan mín væri ég hvort sem er alltaf á bretti, svo þetta getur ekki verið betra.“

Honum finnst gott að vera eigin herra; ráða sér sem mest sjálfur og gera myndbönd þegar honum hentar og eftir eigin höfði. „Ég er skelfilegur í því að vinna samkvæmt áætlunum. Ég hef lengi haft ákveðið mottó: ekkert getur farið úrskeiðis ef maður skipuleggur ekkert. Mér finnst mikið vit í því!“

HÉR er stutt, skemmtileg heimildamynd um Eika

Í nýjasta myndbandi Eika, Scandalnavians, leika ýmsir snjóbrettamenn á Norðurlöndunum listir sínar. Þeir Halldór bróðir hans eru fulltrúar Íslands. Myndbandið má sjá HÉR

HÉR er myndband af Eika á snjóhjólabretti - hann er nú orðinn atvinnumaður í greininni - þeirri þriðju!

 

GREININ SEM BIRTIST HÉR Á AKUREYRI.NET Í GÆR: Orðinn atvinnumaður í þriðju greininni!

 

Eiki í „skálinni“ í öðrum Bragganum við Laufásgötu, þeirri einu á Íslandi.