Fara í efni
Mannlíf

Orðinn atvinnumaður í þriðju greininni!

Nýjasta ævintýri Eiríks er glæsileg brettaaðstaða sem hann hefur útbúið í tveimur gömlum bröggum á Oddeyri. Hann kallar það Braggapark og staðurinn er þegar orðinn mjög vinsæll meðal Akureyringa. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Eiríkur Helgason fékk snemma þá hugmynd að verða atvinnumaður á bretti. Sá draumur rættist eins og mörgum er kunnugt, Eiki hefur átt glæsilegan feril sem snjóbrettamaður og er hvergi nærri hættur. Færri vita ef til vill að hann er líka atvinnumaður á hjólabretti og eins og það sé ekki nóg þá er hann orðinn atvinnumaður í þriðju greininni! Atvinnumennskan hefur bæði falist í því að keppa víða um heim og sýna listir sínar utan keppni, en í seinni tíð gerir Eiríkur meira af því að taka upp myndbönd sem sýnd eru um víða veröld. Þetta gerir hann í samstarfi við erlend stórfyrirtæki í bransanum.

Í nýjustu greininni kemur enn eitt brettið til sögunnar, snjóhjólabretti sem hann segir einskonar blöndu af hjóla- og snjóbretti – enda kallað snowscate á ensku. Samningur við kanadískt fyrirtæki um að ganga til liðs við atvinnumannahóp þess er reyndar svo nýtilkominn að það hefur enn ekki verið tilkynnt á heimasíðu fyrirtækisins. Aðeins fáeinir dagar síðan hann fékk símtal og gengið var frá samningi.

Snjóhjólabretti er eins og hjólabretti að ofan en snjóbretti að neðan. „Maður stendur á hrjúfum fleti og er ekki í bindingum, getur því stokkið og snúið brettinu í loftinu,“ segir Eiki við Akureyri.net.

Nýja brettið segist hann ekki fara með upp í Hlíðarfjall því missti hann það frá sér rynni það líklega langt niður í Glerárdal! „Við notum þetta innanbæjar, hoppum upp á handrið, niður tröppur og þess háttar. Það er upplagt að nota þetta bretti á svæðinu sem við erum með sunnan við Skautahöllina, rörin þar eru fullkomin til æfinga. En þegar á að taka upp myndbönd fer maður út fyrir æfingasvæðið.“

„Hættu að hugsa eins og barn“

Eiríkur og Halldór bróðir hans byrjuðu barnungir að renna sér og stökkva á brettum heima á Sílastöðum í Hörgársveit, skammt norðan Akureyrar.

„Það voru ekki margir sem höfðu á trú á því þegar ég sagðist ætla að verða atvinnumaður. Margir sögðu mér að hætta að hugsa eins og barn, en ég varð bara ákveðnari við það. Ég er alltaf þannig; ef einhver segir mér að eitthvert stökk sem ég ætla að prófa á brettinu sé ekki hægt að gera eflist og ég gefst ekki upp fyrr en það tekst. Ef einhver sagði mér að draumurinn um að verða atvinnumaður væri eitthvert barnarugl sýndi ég þeim hvað í mér býr. Nú get ég hlegið að þeim!“ segir Eiríkur – Eiki Helgason eins og hann er þekktur í brettaheiminum – við Akureyri.net.

Eiríkur er fluttur heim eftir linnulítið flakk um heiminn síðustu ár. Giftur maður, faðir fjögurra ára stúlku og fjölskyldan hefur komið sér fyrir í stóru húsi í Naustahverfi. Eiginkona Eiríks er Silja Magnúsdóttir – þau giftu sig fyrir nokkrum dögum – og dóttirin heitir Alexandra Diljá.

Ítarlegt viðtal birtist við Eika hér á Akureyri.net á morgun, um ferilinn og hvað hann er að fást við núna.

Sjáðu Eika leika listir sínar á nýja brettinu, snjóhjólabretti – smelltu HÉR

HÉR er svo myndband sem Eiki gerði í fyrra, þar sem hennar sýnir snilli sína á öllum þremur brettunum

Eiríkur í brettaaðstöðunni sem hann hefur komið upp í tveimur gömlum bröggum á Oddeyri. Hér er hann í „skálinni“ sem er sú eina hérlendis. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.