Fara í efni
Mannlíf

Glæsileg aðstaða úti til íþróttakennslu

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.
Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Glæsileg aðstaða til íþróttakennslu utanhúss hefur verið tekin í notkun á lóð Menntaskólans á Akureyri. Þar með rættist áratuga draumur íþróttakennara skólans, að sögn Jóns Más Héðinssonar skólameistara. Æfingasvæðið er vestan við gamla íþróttahúsið, Fjósið, og er vel afmarkað af húsum skólans; íþróttahúsinu, Möðruvöllum og Hólum, og svo Lystigarðinum í suðri.

Á svæðinu er körfuboltavöllur þar sem einnig er hægt að spila bandý og blak og á svæðinu eru líka nokkur æfingatæki. Á þeim eru lítil skilti sem sýna hvernig á að gera æfinguna og hvaða vöðvahópa verið er að þjálfa. Hægt er að skanna QR kóða á skilti við svæðið og fá með því leiðbeiningarmyndband af æfingunni. Svæðið er lagt gervigrasi og er hiti undir, þannig að vonandi verður hægt að nýta það eitthvað fram eftir hausti, að sögn Jóns Más.

Blaðamaður Akureyri.net skundaði á staðinn með myndavélina þegar haldin var opnunarhátíð fyrir 1. bekkinga á dögunum. Stjórn íþróttafélags skólans, ÍMA, skipulagði dagskrá ásamt íþróttakennurunum og skólameistari tók m.a. nokkur skot á körfuna – enda gömul körfuboltakempa þar á ferð. Hann tók sig reyndar ekki til fyrr en blaðamaðurinn var horfinn á braut!

Jón Már Héðinsson, skólameistari MA, og Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir, aðstoðarskólameistari. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.