Fara í efni
Mannlíf

GA bendir á bílastæði við Naustaskóla

Töluvert af áhorfendum hefur verið á Jaðarsvelli fyrstu tvo keppnisdaga Íslandsmótsins og gera má ráð fyrir að þeir verði enn fleiri seinni tvo dagana. Forráðamenn Golfklúbbs Akureyrar biðla þess vegna til ökumanna um að leggja ekki nema á til þess gerðum stæðum á Jaðri.

„Á sama tíma og við hvetjum sem flesta til að gera sér ferð upp á Jaðarsvöll næstu daga til að fylgjast með bestu kylfingum landsins spreyta sig á stórglæsilegum Jaðarsvelli á Íslandsmótinu í golfi, viljum við benda áhorfendum og öðrum gestum á að stórt og gott bílastæði er við Naustaskóla ef planið er fullt við Jaðar,“ sagði í tilkynningu á vef GA í dag.

„Í dag var mikið um kylfinga, áhorfendur og fylgdarlið sem er frábært og var bílastæðið þétt setið. Einhverjir bílar lögðu á gangstíg við bílastæðið og á öðrum stöðum sem teljast frekar óheppilegir, við viljum biðja fólk um að leggja við Naustaskóla ef bílastæðin eru full en ekki á gangstígum eða öðrum stöðum þar sem ekki eru bílastæði.“

Bent er á að hægt sé að keyra golfsett og kylfinga upp að skála og fara síðan með bílinn að Naustaskóla.