Fara í efni
Mannlíf

Rafmögnuð stemning á tónleikum Toymachine

Að loknum tónleikunum í gærkvöldi. Frá vinstri: Jens Ólafsson, Kristján Örnólfsson, Baldvin Zophoníasson, Gunnar Sigurbjörnsson hljóðmaður – „sjötti Bítillinn“ – Atli Hergeirsson og Árni Elliott. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Toymachine, sú goðsagnakennda, akureyrska hljómsveit, steig á svið í næst síðasta skipti í gærkvöldi – á Græna hattinum. Það voru útgáfu- og lokatónleikar; hljómsveitin gaf út plötuna Royal Inbreed í árslok 2020 en vegna Covid, og þess að söngvarinn Jens Ólafsson býr erlendis, hefur ekki gefist tækifæri fyrr til þess að halda útgáfutónleika fyrr en nú.

Útgáfutónleikunum var skeytt saman við lokatónleika því hljómsveitin er í raun löngu hætt, en vildi að sjálfsögðu kveðja með stæl. Félagarnir léku Royal Inbreed í heild auk þess að bjóða upp á fáeina eftirrétti í gegnum hljóðfærin áður en flautað var til leiksloka. Allra síðustu tónleikar sveitarinnar verða svo í kvöld í Iðnó í Reykjavík.

Óhætt er að segja að stemningin hafi verið rafmögnuð á Græna hattinum í gærkvöldi. Húsið var troðfullt af aðdáendum hljómsveitarinnar frá því hún var starfandi fyrir margt löngu og óhætt er að fullyrða að enginn var svikinn af því sem var í boði. Fortíðarþráin var allsráðandi og tár sást víða á hvarmi!

Toymachine slær langþráða lokatóna

Baldvin Z tekur niður trommusettið í síðasta skipti í gamla heimabænum, að loknum tónleikunum í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson