Fara í efni
Mannlíf

Toymachine slær langþráða lokatóna

Jens Ólafsson, Atli Hergeirsson og Baldvin Z sultuslakir fyrir utan Græna hattinn í dag. Kristján Örnólfsson og Árni Elliott voru fjarverandi, en verða á útopnu á sviðinu í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Toymachine, sú goðsagnakennda, akureyrska hljómsveit, stígur á svið í næst síðasta skipti í kvöld – á Græna hattinum. Það er ekki aprílgabb!

Strákarnir slógu í gegn um aldamótin og voru hugsanlega á barmi heimsfrægðar en ljóst var að ekkert yrði úr henni eftir vægast sagt misheppnaða tónleikaferð til New York. Og vert er að nefna í leiðinni að ástæða boðsins til New York voru tónleikar í Sjallanum á Akureyri,  sem umboðsmenn Toymachine héldu og buðu þangað fulltrúum helstu útgáfurisa í Bandaríkjunum. Það kvöld varð kveikjan að Iceland Airwaves hátíðinni.

  • Ekki er víst að unga kynslóðin þekki Toymachine, en allir þekkja kvikmyndaleikstjórann Baldvin Z! Sá góði drengur var trommari í bandinu. Og saga er sjón ríkari að þessu sinni; þótt strákarnir þrír líti vel út á meðfylgjandi mynd er fólk hvatt til þess að lesa greinarnar þrjár, sem vísað er í hér að neðan, og Akureyri.net birti í desember 2020. Þar er hægt að kynna sér ævintýralegan feril hljómsveitarinnar. 

Toymachine gaf loks út plötu í desember 2020, heilum tveimur áratugum eftir að það stóð upphaflega til. Covid kom svo að sjálfsögðu fyrir að hægt væri að halda útgáfutónleika en nú er komið að því; Toymachine gengið skeytir saman útgáfu- og lokatónleikum á Græna hattinum og allra síðustu tónleikar sveitarinnar verða annað kvöld í Iðnó í Reykjavík.

Jens Ólafsson söngvari, Kristján Elí Örnólfsson gítarleikari, trommarinn Baldvin Zophoníasson og Atli Hergeirsson, sem leikur á bassa, skipuðu sveitina lengstum og Árni Elliott, sem var með þeim félögum um tíma, stígur með þeim á svið í kvöld. Fimmti Bítillinn, eins og þeir orðuðu það í dag og Gunnar Sigurbjörnsson, hljóðmeistari, verður að sjálfsögðu á sínum stað. Sjötti Bítillinn, sagði Baldvin Z.

Platan – Royal Inbreed – verður til sölu á Græna hattinum í kvöld og strákarnir nefndu í dag að þeir sem eiga hana nú þegar mættu gjarnan hafa plötuna með ef þeir vildu fá hana áritaða. 

Grein 1 Söguleg sveit loks með plötu, 20 árum of seint!

Grein 2 „Ég þurfti ekki að heyra svarið – ég sá það“

Grein 3 „Ómetanlegt að koma plötunni út“