Fara í efni
Mannlíf

Frábær byrjun Þórs/KA en naumur sigur

Þór/KA birti þessa skemmtilegu mynd á Twitter eftir að Sandra María skoraði í dag!

Sandra María Jessen skoraði eftir aðeins 19 sekúndur þegar Þór/KA sigraði Aftureldingu 2:1 í Mosfellsbæ í dag í Bestu deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. Þar með er hún orðin markahæsti leikmaður liðsins í efstu deild, þetta var 75. mark hennar en Rakel Hönnudóttir gerði 74 á sínum tíma.

Þór/KA náði ekki að fylgja þessari frábæru byrjun nægilega vel eftir, liðið fékk að vísu tækifæri til að bæta við mörkum - eitt frábært - en tókst ekki og Afturelding jafnaði á 41. mín. þegar Kristín Þóra Birgisdóttir skoraði. Varnarmaðurinn Arna Eiríksdóttir, sem Þór/KA fékk lánaða frá Val rétt fyrir mót, tryggði Stelpunum okkar svo þrjú dýrmæt stig með marki eftir horn.

0:1 (1. mínúta) Sandra María Jessen sendi boltann út á vinstri kant á Tiffany McCarty, fljótlega eftir upphafsspyrnuna. Tiffany lék fram kantinn, lyfti boltanum inn á miðjan vítateig, þar sem þrír leikmenn Þórs/KA voru mættir, og eftir smá klafs var Sandra María fljót að senda boltann í netið með vinstra fæti af stuttu færi. Þá voru 19 sekúndur liðnar af leiknum!

1:1 (41. mín.) Kristín Þóra Birgisdóttir fór illa með alla varnarlínu Þórs/KA og skoraði með hnitmiðuðu skoti frá vítateig.

1:2 (83. mín.) Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, sem kom inn á sex mínútum áður, komst upp vinstri kantinn af harðfylgi og fékk hornspyrnu. Andrea Mist Pálsdóttir tók hornið, spyrnti inn á miðjan markteig þar sem Arna Eiríksdóttir stökk hæst allra og skallaði af öryggi í markið.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Hér má sjá umfjöllun fotbolta.net. Þar er glæsileg myndasyrpa Hafliða Breiðfjörð, meðal annars þessi mynd af Söndru Maríu fagna eftir að hún skoraði þegar aðeins 19 sekúndur voru liðnar.