Fara í efni
Mannlíf

Fjórir ungir kylfingar á afrekssamning hjá GA

Golfkennararnir ásamt unga afreksfólkinu. Ólafur Auðunn Gylfason, PGA golfkennari, Veigar Heiðarsson, Lárus Ingi Antonsson, Skúli Gunnar Ágústsson, Andrea Ýr Ásmundsdóttir og Heiðar Davíð Bragason, PGA golfkennari. Mynd: gagolf.is.

Fjórir ungir kylfingar skrifuðu nýverið undir afrekssamninga hjá Golfklúbbi Akureyrar. Þetta eru þau Andrea Ýr Ásmundsdóttir (2002), Lárus Ingi Antonsson (2002), Skúli Gunnar Ágústsson (2006) og Veigar Heiðarsson (2006). 

„Allir þessir kylfingar eiga það sameiginlegt að þau hafa verið í stóru hlutverki hjá landsliðshópum GSÍ undanfarin ár. Þeir Veigar og Skúli hafa verið að berjast á toppnum í sínum aldursflokki undanfarin ár og verið stöðugir í landsliðsverkefnum. Andrea og Lárus voru bæði erlendis í háskóla í vetur og hafa bæði orðið klúbbmeistarar GA undanfarin ár, Andrea þrisvar sinnum og Lárus tvisvar,“ segir í frétt á vef Golfklúbbs Akureyrar.

Með undirritun þessara afrekssamninga fá þessir ungu kylfingar meiri stuðning en ella, meðal annars í formi búnaðar, auk þess sem þátttökugjöld í stigamótum og Íslandsmóti eru greidd af klúbbnum, að sögn Heiðars Davíðs Bragasonar, PGA golfkennara hjá GA. Afrekssamningarnir standa til boða þeim kylfingum sem verið hafa í landsliðum GSÍ. Með afrekssamningunum fá viðkomandi kylfingar aukinn stuðning og tækifæri til að ná enn lengra í íþróttinni. Með undirritun þessara afrekssamninga stendur þeim meðal annars til boða að sækja vikulega einkatíma hjá golfkennurum klúbbsins, þau fá aðgangur að sjúkraþjálfun og íþróttasálfræðingi og fleira.

Öll fjögur hluti af GA golfxtra-hópnum

Að auki starfrækir klúbburinn það sem kallað er GA golfxtra, afrekshóp þar sem miðað er við ákveðna forgjöf til að geta fengið inngöngu. Í þeim hópi eru núna átta manns, þar af þessi fjögur sem nú hafa skrifað undir afrekssamninga, en þau hafa öll verið hluti af GA golfxtra hópnum sem hefur æft stíft undir handleiðslu golfkennara klúbbsins, þeirra Heiðars Davíðs og Ólafs Auðuns Gylfasonar. Lágmarksaldur inn í GA golfxtra hópinn miðast við 10. bekk grunnskóla, en að sögn Heiðars Davíðs er í raun enginn hámarksaldur inn í þann hóp, aðeins skilyrði um ákveðna forgjöf og auðvitað að viðkomandi vilji leggja á sig aukalega til að ná árangri.  

„Golfklúbbur Akureyrar er stoltur af okkar fólki og ætlumst við til mikils af okkar afrekskylfingum,“ segir í fréttinni á gagolf.is.