Fara í efni
Mannlíf

Fiske-sýning opnuð á „þjóðhátíðardegi“

Minningarsýning um Bandaríkjamanninn Daniel Willard Fiske var opnuð í flugstöðinni í Grímsey í gær. Þessi mikli velgjörðarmaður Grímseyinga var fæddur 11. nóvember og eyjaskeggjar kalla hann gjarnan „þjóðhátíðardag“ Grímseyinga.

„Willard Fiske var prófessor í norrænum málum og hafði dálæti á Íslandi sem hann heimsótti árið 1879. Hann sigldi við norðurströnd landsins, sá þar glitta í Grímsey og heyrði af heillandi lífsbaráttu eyjarskeggja sem vakti áhuga hans. Ekki síst þótti honum merkilegt að heyra af taflmennsku þeirra enda var hann sjálfur mikill skákáhugamaður. Fiske steig aldrei á land í Grímsey þrátt fyrir að hann tæki ástfóstri við eyjuna og sendi í framhaldi Íslandsheimsóknarinnar hverju heimili í Grímsey taflmenn og taflborð,“ segir á vef Akureyrarbæjar.

„Nokkru síðar sendi hann bókagjöf til Grímseyjar og varð þannig til lítið almenningsbókasafn sem kallað var Eyjarbókasafnið. Þar að auki lét Fiske sérsmíða og flytja út í eyju tvo forláta skápa utan um bókasafnið. Þessir bókaskápar eru varðveittir í Grímsey og geyma rúmlega tvö hundruð bækur sem Sigríður Örvarsdóttir hefur unnið að því að skrá, en nokkrar þeirra er hægt að berja augum á sýningunni ásamt öðrum munum, myndum og textum sem varpa ljósi á sögu Fiske og áhugaverð tengsl hans við Grímsey.“

Það er Sigríður Örvarsdóttir safnafræðingur og hönnuður sem stýrt hefur verkefninu fyrir hönd Akureyrarstofu.

Nánar hér á heimasíðu Akureyrarbæjar.