Fara í efni
Mannlíf

Enn eitt jafnteflið hjá Þórsurum

Árni Elvar Árnason með boltann í leiknum í dag. Bergvin Fannar Gunnarsson aðstoðardómari fylgist með. Mynd: Akureyri.net.

Þórsarar gerðu þriðja jafnteflið í fyrstu fjórum leikjum Lengjudeildar karla í knattspyrnu þegar Keflvíkingar mættu í sólina og sunnan hvassviðrið á Akureyri í dag. Gestirnir komust yfir seint í fyrri hálfleik, en Árni Elvar Árnason jafnaði leikinn með glæsimarki þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka. 

0-1
Þrátt fyrir að Þórsarar hafi byrjað leikinn betur voru það gestirnir úr Keflavík sem skoruðu eina mark fyrri hálfleiks. Það kom eftir 40 mínútna leik þegar Sami Kamel vann boltann með harðfylgi á vallarhelmingi Þórsara og sendi boltann inn á teiginn hægra megin þar sem Mamadou Diaw átti fremur laust skot, en það dugði því boltinn rúllaði í fjærhornið án þess að Þórsurum tækist að koma honum frá. Gestirnir með forystuna þegar gengið var til búningsklefa eftir fyrri hálfleikinn.


Ekki löngu fyrir jöfnunarmark Þórs komst Valur Þór Hauksson í þetta færi við Þórsmarkið og andartaki síðar skullu hann og Aron Birkir Stefánsson, markvörður Þórs saman. Valur Þór var dæmdur brotlegur. Mynd: Akureyri.net.

1-1 
Langt var liðið á seinni hálfleikinn, rúmlega 78 mínútur á klukkunni, þegar jöfnunarmarkið kom loks og það var virkilega falleg afgreiðsla hjá Árna Elvari Árnasyni. Þórsarar áttu þá háa sendingu inn á teiginn, varnarmaður Keflvíkinga setur hann út fyrir teiginn þar sem Árni Elvar er snöggur að átta sig, tekur boltann viðstöðulaust, utanfótar með hægri, alveg út við stöng og nær óverjandi fyrir markvörð Keflvíkinga.

Niðurstaðan því jafntefli og liðin skiptu með sér stigunum. Þórsarar fara því í sex stig og eru ósigraðir í fyrstu fjórum umferðum deildarinnar. Þeir sigu þó niður um eitt sæti þar sem Grótta vann Leikni og fór í átta stig. Þar fyrir ofan eru Njarðvík og Fjölnir. ÍR-ingar áttu einnig möguleika að komast upp fyrir Þórsara, en mistókst það eftir 1-1 jafntefli við Dalvík/Reyni. ÍBV á möguleika á að fara í sjö stig, en Eyjamenn mæta Njarðvíkingum á morgun.

Smellið hér til að lesa leikskýrsluna.