Fara í efni
Mannlíf

„Ekki mögulegt að losna við þessa bakteríu“ 

Ég er á leiðinni! Birgir Torfason, Ólafur Hilmarsson og Kristinn Hreinsson í lestinni ftrá Kaupmannahöfn til Gautaborgar í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kristinn Hreinsson og Birgir Torfason voru í hópi nokkurra Akureyringa sem héldu áleiðis að heiman til sænsku borgarinnar Gautaborgar í bítið. Flugu með Niceair til Kaupmannahafnar og þaðan er farið með lest á áfangastað. Ekki þarf að fjölyrða um ástæðu ferðarinnar: HM í handbolta. Ísland og Svíþjóð mætast á morgun og augljóst að tilhlökkunin er mikil. Á Kastrup flugvelli hittu þeir m.a. Ólaf Hilmarsson vin sinni sem flaug ásamt fleirum frá Keflavík í sama tilgangi og Kristinn og Birgir.

Þremenningarnir hafa allir farið oft á stórmót í handbolta. Ólafur og Kristinn léku báðir handbolta með Þór á árum áður og hafa því fylgst með íþróttinni í áratugi.

„Eftir að maður fer einu sinni á svona mót er ekki hægt annað en að fara aftur. Og aftur. Það er ekki mögulegt að losna við þessa bakteríu,“ sagði Ólafur við Akureyri.net á leiðinni upp til Gautaborgar. Bætti svo við með bros á vör: „Ég skal reyndar viðurkenna að ég hef ekki reynt mikið til þess að losna við hana!“

Kristinn og Birgir taka undir með Óla. Bakterían sé góð og reyndar algjörlega ómissandi; ótrúlega skemmtilegt sé að fara á mót eins og þetta og það hafi nánast verið fastur liður í janúar í þónokkuð mörg ár. Engin ástæða sé til þess að bregða út af vananum!