Fara í efni
Mannlíf

Ekki alveg klakklaust í Suður-Kóreu

Tjaldað á brettum. Á innfelldu myndinni er Björgvin Smári Jónsson, einn af fararstjórum/foreldrum hópsins frá Akureyri áður en hópurinn hélt af stað í ævintýraferðina. Myndir frá Skátafélaginu Klakki.

Rúmlega 140 skátar, fararstjórar og foringjar frá Íslandi, þar af tuttugu manna hópur frá Skátafélaginu Klakki á Akureyri, eru þessa dagana staddir í Suður-Kóreu á alheimsmóti skáta.

Íslenski hópurinn dvaldi í nokkra viðburðaríka daga í Seúl áður en haldið var að svæðinu þar sem skátamótið fer fram. Farið var í skoðunarferðir í háhýsi í borginni, innanhússkemmtigarð, á ströndina, gönguferðir og hefðbundið kórekst þorp var heimsótt. 

Íslenski hópurinn ákvað reyndar að mæta sólarhring of seint á mótið eins og margar aðrar þjóðir því undirbúningur heimamanna fyrir mótið stóðst ekki væntingar. Allt er þó á réttri leið eftir því sem okkar fólk á staðnum hefur upplýst Akureyri.net


Fjölmennt á setningarhátíð alheimsmótsins.

Fram hefur komið í fréttum að gestir mótsins frá mörgum löndum hafi lent í vandræðum vegna hitans sem er á svæðinu og er íslenski hópurinn ekki þar undanskilinn. Akureyringarnir eru hluti af 40 manna sveit sem kallast Gammar og hafa einhverjir úr hópnum þurft að leita hjálpar sjúkraliðs vegna hitans, en allir þó brattir, að sögn Björgvins Smára Jónssonar, sem sendi Akureyri.net þessar myndir.

Það má því segja að skátarnir frá Akureyri hafi ekki komist alveg klakklaust í gegnum fyrstu dagana í Suður-Kóreu, og þó, allir brattir.