Fara í efni
Mannlíf

Skátar í Kóreuferð

Það voru spenntir skátar frá Akureyri sem komu saman við Íþróttahöllina eftir hádegið í dag og ekki nema von. Fram undan er þriggja vikna ferð, fyrst rútuferð til Keflavíkur í dag, flug til Parísar og Seúl á morgun og þátttaka í Alheimsmóti skáta. Myndir: Haraldur Ingólfsson.

Tuttugu manns frá Akureyri og alls tæplega 141 frá Íslandi er á leið til Suður-Kóreu til að taka þátt í Alheimsmóti skáta. Skátaþorpið verður á stærð við Akureyri í ferkílómetrum talið, en íbúarnir verða 50 þúsund!

Hópur frá Skátafélaginu Klakki er á leið á Alheimsmót skáta sem fram fer í Suður-Kóreu 1.-12. ágúst undir heitinu 25th World Scout Jamboree Scout Mondial. Mótið fer fram á svæði á vesturströnd landsins, nálægt borginni Gunsan-si. Í hópnum frá Akureyri eru 20 manns, fimm fullorðnir fararstjórar og 15 skátar á aldrinum 14-18 ára. Alls fara 108 þátttakendur (14-18 ára) frá 14 skátafélögum á landinu, ásamt 12 sveitarforingjum. Íslenska hópnum, skátum og sveitarforingum, er skipt í þrjár 40 manna sveitir. Hópurinn frá Akureyri sameinast því skátum annars staðar að af landinu í 40 manna sveit, en sveitirnar þrjár verða hver á sínum stað á mótssvæðinu, innan um hópa frá öðrum löndum. Auk þeirra eru einnig fimm í aðalfararstjórn, Ingimar Eydal fulltrúi Akureyringa þar, og 16 sjálfboðaliðar (IST) sem eru skátar eldri en 18 ára. 


Klár í langferð: Akureyri-Keflavík-París-Seúl-Gunsansi-Seúl-París-Keflavík-Akureyri. Brottför 26. júlí, heimkoma að morgni 16. ágúst. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Akureyringarnir hófu ferðalagið og fóru suður í dag, fljúga til Parísar á morgun og þaðan áfram í um 11 klukkutíma til Seúl í Suður-Kóreu. Þar eiga þau nokkra frídaga bæði fyrir og eftir skátamótið, en frá Seúl er um þriggja tíma akstur suður með ströndinni á svæðið þar sem mótið fer fram.

Akureyri.net spjallaði við einn fararstjóranna sem fer með krökkunum frá Akureyri. Björgvin Smári Jónsson fer með sem foreldri, en kveðst ekki hafa farið á svona mót sem unglingur enda hafi hann gerst skáti á fullorðinsaldri. Hann segir svæðið þar sem mótið fer fram vera á stærð við Akureyri, í ferkílómetrum talið, en þar verða tjaldbúðir og öll aðstaða fyrir 50 þúsund gesti. Ungmennin sjá sjálf um sínar tjaldbúðir og meðal annars sjá þau sjálf um að elda fyrir sinn hóp, en mótshaldarar sjá um að koma öllu sem til þarf til hópanna á svæðinu. Þau munu að sjálfsögðu ekki sitja auðum höndum því skátamót eins og þessi eru full af verkefnum og viðfangsefnum, fjöri og alls konar.


Myndatöku lokið, foreldrar og systkini að sjálfsögðu mætt til að kveðja Kóreufarana. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Hafa safnað síðan í fyrravor

Svona ferð er ekki hrist fram úr erminni enda hafa þátttakendurnir verið að safna upp í kostnað í rúmt ár. Kostnaður á hvert ungmenni er 700 þúsund krónur og segir Björgvin Smári krakkana hafa verið duglega við alls konar fjáröflunarverkefni, dósasafnanir, vinnu og fleira. Þau hafa þannig þegar lagt mikið á sig fyrir mótið áður en haldið er af stað sem væntanlega gerir þátttökuna á mótinu enn ánægjulegri. Laun erfiðisins eru handan við hornið og vonandi eiga þau þrjár góðar vikur fram undan á ferðalagi og á skátasvæðinu í Suður-Kóreu. 

Alheimsmót skáta er haldið á fjögurra ára fresti og taka skátar frá Íslandi alltaf þátt í þessum mótum. Næsta mót verður í Póllandi 2027.