Fara í efni
Mannlíf

Ein með öllu og táp, fjör og frískir menn

Myndir: Skapti Hallgrímsson

Akureyri hefur iðað af lífi í allan dag og mun líklega gera þar til aðfararnótt mánudagsins, frídags verslunarmanna. Mikill fjöldi gesta er kominn til bæjarins vegna hátíðarinnar Einnar með öllu, um  2.000 manns eru til dæmis á tjaldsvæðinu á Hömrum, og heimamenn láta sitt vitaskuld ekki eftir liggja þannig að búast má við sprellifandi bæ næstu sólarhringa.

Stormurinn á undan logninu

Veðrið var afar gott fram eftir degi en á sama sekúndubroti og yngstu þátttakendur í Krakkahlaupi Súlur Vertical sprettu úr spori í Kjarnaskógi á slaginu klukkan fjögur féll fyrsti regndropinn. Þeir voru ekki margir fyrst í stað en fjölgaði fljótlega og töluvert rigndi um stund og hressilegur blástur fylgdi þessum blautu sýnishornum.

Þetta mun hafa verið stormurinn á undan logninu því áður en fólk var kallað að kvöldverðarborðinu hafði lægt á ný, hætt er að rigna, og þegar rýnt er í veðurkortin má reikna með sól og hlýindum um helgina. Að vísu er búist við rigningu síðari hluta komandi nætur en slíkt er gjarnan afgreitt sem „gott fyrir gróðurinn“ og verður gleymt von bráðar.

 

Fullyrða má að margt verði um manninn í miðbænum á morgun; markaðsstemning verður á Ráðhústorgi, krakkaskemmtun steinsnar frá, svo og hinn sívinsæli viðburður, Mömmur og möffins, þar sem seldar verða bollakökur – möffins – til styrktar fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri. Annað kvöld verður svo tónlistarveislan Öll í einu á Akureyrarvelli.

Hlaupa lengst 100 kílómetra

Síðast en ekki síst verður endamark fjallahlaupsins Súlur Vertical í göngugötunni í miðbænum. Hlaupið er ekki hluti af hátíðinni Einni með öllu en setur ekki síður mikinn svip á Akureyri á morgun en hátíðin. Þeir sem fara um lengstan veg í fjallahlaupinu byrja við Goðafoss og hlaupi meira né minna en 100 kílómetra; hinir fyrstu verða ræstir klukkan 21 í kvöld, þeir bestu kl 2 í nótt en aðrir þátttakendur, sem ætla að hlaupa 18, 42 eða 43 kílómetra, leggja stað í fyrramálið í Kjarnaskógi. Búast má við keppendum í mark í miðbænum allt frá því um klukkan 12 á hádegi þar til einhvern tíma síðdegis. 

Vert er að geta þess að auk hinna hefðbundnu gesta Einnar með öllu verða þrjú frekar lítil skemmtiferðaskip við bryggju á Akureyri á morgun en á sunnudaginn verð tvö skip af stærri gerðinni, farþegar rúmlega 6.000 og starfsfólk skipanna eru alls um 2.500. Einhverjir úr þeim hópi skoða sig án efa um í bænum.

  • Ítarlega verður greint frá dagskrá morgundagsins á Akureyri.net í fyrramálið.