Fara í efni
Mannlíf

„Ég get það ekki – ég er að byrja í Gagganum“

Bravó strákarnir sem hituðu upp á átta tónleikum hljómsveitarinnar Kinks í Austurbæjarbíói 1965. Þor…
Bravó strákarnir sem hituðu upp á átta tónleikum hljómsveitarinnar Kinks í Austurbæjarbíói 1965. Þorleifur Jóhannsson trommuleikari lengst til hægri, þá Helgi Vilberg, Kristján Guðmundsson og Sævar Benediktsson.

„Í október verða 58 ár síðan við komum fram í fyrsta skipti; það er dálítið langur tími!“ segir Sævar Benediktsson, gítarleikari drengjasveitarinnar Bravó við Akureyri.net í tilefni þess að hljómsveitin stígur á svið í Hofi í dag. Tónlistarveislan Manstu gamla daga verður þá haldin í menningarhúsinu í tilefni 40 ára afmælis Félags eldri borgara á Akureyri. Tvennir tónleikar verða, þeir fyrri kl. 16.00 og hinir síðari kl. 20.00.

Bravó var stofnuð 1964 þegar sá elsti fjórmenninganna, Helgi Vilberg Hermannsson gítarleikari, var 13 ára en hinir þrír ári yngri, Kristján Guðmundsson, sem lék einnig á gítar og söng, bassaleikarinn Sævar Benediktsson og trommarinn Erlingur Ingvarsson.

Hápunkturinn í sögu Bravó var þegar hljómsveitin hitaði upp fyrir bresku rokksveitina Kinks í Austurbæjarbíó 1965, þegar strákarnir voru 13 og 14 ára! Kinks var þá þriðja vinsælasta hljómsveit heims á eftir á Bítlunum og Rolling Stones. Þegar Bravó lék í Austurbæjarbíói var Þorleifur Jóhannsson sestur aftan við trommusettið í stað Erlings og síðar hætti Helgi í hljómsveitinni og Gunnar Ringsted kom í hans stað. 

Eftir að Kinks spilaði á Íslandi lá leiðin til Ameríku og bresku stjörnurnar lýstu áhuga á því að akureyrsku strákarnir í Bravó kæmu með þeim og hituðu upp fyrir tónleika. Það var þá sem Sævar Benediktsson sagði þessu kostulegu setningu, sem hann rifjar upp nú og hlær: „Ég get það ekki – ég er að byrja í Gagganum!“

Um haustið steig Sævar sem sagt fyrstu skrefin í Gagnfræðaskólanum á Akureyri og Ameríkuför með Kinks kom því ekki til greina.

„Þetta var virkilega skemmtilegt og strákarnir hafa verið bestu vinir mínir alla tíða. Við urðum fyrir heilmiklu áfalli fyrir tveimur árum þegar Leibbi dó og fengum lánaðan trommara til að geta spilað núna,“ segir hann. Þorleifur Jóhannsson trommari Bravó lést í byrjun árs 2021.

En er þetta í síðasta skipti sem Bravó kemur fram? „Það er svo sem aldrei að vita; ég ætla ekki að segja að þetta sé síðasta skiptið en ég útiloka það ekki heldur. Okkur þykir vænt um að fá að koma og spila á tónleikunum, það er mikill heiður og við gerum það með mikilli gleði,“ segir Sævar Benediktsson.

Kór eldri borgara, Í fínu formi, syngur undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur.

Merkilegur félagsskapur

Gísli Sigurgeirsson, fyrrverandi fréttamaður, hefur unnið að undirbúningi tónlistarveislunnar síðustu vikur.

„Í þessu ferli hef ég stundum staldrað við; bíddu nú við, er ég virkilega orðinn svona gamall? Samt finnst mér ég enn vera á besta aldri!  Reyndar tel ég næsta víst, að enginn verði eldri en hann vill sjálfur!“ segir Gísli.

„Það er líka umhugsunarefni, að hugtakið „aldraður“ virðist mér hafa ögn neikvæða merkingu í hugskoti landans. Þó gæti þetta æviskeið verið eitt besta tímablið í ævi hvers manns, ef gæfa og heilsa leyfir. Það er hægt að lifa og njóta afraksturs lífsins, m.a. í börnum,  barnabörnum og barnabarnabörnum. Mér finnst að yngra fólkið ætti að líta til okkar með virðingu og þakklæti fyrir það samfélag sem við „ellibelgirnir“ skilum til þeirra. Þess vegna hvet ég fólk á öllum aldri til að samgleðjast með okkur á tónleikunum í Hofi.“

Helena Eyjólfsdóttir verður heiðursgestur á tónleikunum.

Félag eldri borgara á Akureyri hét í upphafi Félag aldraðra, en nafninu var breytt í Félag eldri borgara. „Ætti ef til vill að vera Félag heldri borgara! Þetta er merkilegur félagsskapur, sem er opinn fyrir öllum sem lagt hafa sextíu ár að baki. Slík félög eru starfandi um allt land og reka flest hver öfluga starfsemi,“ segir Gísli. „Landssamtök félaganna eru einnig sterk og berjast þau fyrir bættum hag þessa aldurshóps, að við megum njóta þeirra réttinda sem við höfum unnið til frá samfélaginu, án allra skerðinga. Einnig hafa samtökin gert samninga við fjölmörg þjónustufyrirtæki, sem veita eldri borgurum afslátt. Til að auðvelda okkur að njóta þess afsláttar er hægt að fá „app“ í símana.“

Stjórn félagsins á Akureyri setti afmælisnefnd á laggirnar til að minnast þessara tímamóta. „Niðurstaðan varð sú, að efna til tónleika, undir yfirskriftinni Manstu gamla daga, sem er tilvísun í lag sem Alfreð Clausen samdi og gerði sinsælt um miðja síðustu öld. En til að minna á félagsskapinn og tilgang hans munu þeir Hallgrímur Gíslason, formaður EBAK og Helgi Pétursson, formaður Landssamtaka eldri borgara, flytja stutt ávörp. Tónleikarnir hefjast á lagi Alfreðs, en síðan kemur hver dægurperlan af annarri, lög frá gullaldarárum þeirrar kynslóðar, sem nú er hryggjarstykkið í Félagi eldri borgara á Akureyri,“ segir Gísli Sigurgeirsson.

Karlakór Akureyrar - Geysir syngur undir stjórn Valmars Väljaots.