Fara í efni
Mannlíf

Manstu gamla daga – tónlistarveisla í Hofi

Tónlistarveisla verður haldin í Hofi í dag í tilefni 40 ára afmælis Félags eldri borgara á Akureyri. Tvennir tónleikar verða í Hamraborg, stóra sal menningarhússins, klukkan 16.00 og 20.00.

Á tónleikunum verða fluttar perlur frá því í gamla daga – „lög sem voru á toppnum á gullldarárum þeirra sem nú teljast til heldri borgara!“ segir Gísli Sigurgeirsson við Akureyri.net, en hann hefur unnið að undirbúningi tónleikanna undanfarnar vikur.

Meðal flytjenda verða tónlistarmenn og söngvarar sem gerðu mörg þessara laga vinsæl á sínum tíma, en einnig koma yngri tónlistarmenn við sögu – „til að læra af reynsluboltunum!“ segir Gísli.

Milli laga verða sýnd atriði úr gömlum kvikmyndum, m.a. úr söfnum Eðvarðs Sigurgeirssonar, Vigfúsar bróður hans, Friðgeirs Axfjörðs og Gísla Sigurgeirssonar, myndbrot sem segja brot úr sögu Akureyrar allt frá miðri síðustu öld.

Hljómsveitarstjóri verður Daníel Þorsteinsson, en með honum leika Friðrik Bjarnason, Snorri Guðvarðsson, Grímur Sigurðsson, Valmar Väljaots og Halldór Gunnlaugur Hauksson.

Einnig kemur fram drengjahljómsveitin Bravó; Sævar Benediktsson, Gunnar Ringsted og Kristján Guðmundsson ásamt Halldóri Gunnlaugi, Halla Gulla, sem sest við trommurnar og leysir af Þorleif heitinn Jóhannsson sem lést á síðasta ári.

Helena Eyjólfsdóttir verður heiðursgestur tónleikanna. Auk hennar syngja Óskar Pétursson, Margrét Árnadóttir, Magni Ásgeirsson, Saga Jónsdóttir, Grímur Sigurðsson, Þór Sigurðarson, og Petra Björk Pálsdóttir, auk þess sem hljómsveitarmeðlimir taka lagið með þeim.

Kórinn Í fínu formi, sem er kór eldri borgara, syngur undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur. Einsöngvari með kórnum verður Margrét Árnadóttir. Karlakór Akureyrar-Geysir rekur síðan smiðshöggið á tónleikana undir stjórn Valmars Väljaots við undirleik hljómsveitarinnar. Óskar Pétursson syngur einsöng með kórnum.

„Lokalagið, Ég er kominn heim, syngja svo allir saman, kórfólkið, einsöngvarar, hljómsveitin og tónleikagestir, svo undir tekur í Hofi og nærsveitum!“ segir Gísli Sigurgeirsson.

Í gærkvöldi var uppselt á fyrri tónleikana en örfáir miðar eftir á þá seinni. Smellið hér til að fara á miðasöluvef MAk.