Fara í efni
Mannlíf

Dýrmætt að koma í frí til afa og ömmu

Birkir og merin hans, Rán, í hesthúsi Halldórs móðurafa landsliðsfyrirliðans. Ljósmynd: Skapti Hallg…
Birkir og merin hans, Rán, í hesthúsi Halldórs móðurafa landsliðsfyrirliðans. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Birkir Bjarnason, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, segist koma í frí heim til Akureyrar á hverju einasta sumri sé þess nokkur kostur. Hann er fæddur og uppalinn í bænum, flutti 11 ára með fjölskyldunni til Noregs, og hefur starfað sem knattspyrnumaður í nokkrum löndum. Hann segir dýrmætt að koma til Akureyrar og verja tíma með afa sínum og ömmu.

„Já, ég kem alltaf heim í sumrin, hef verið sem mest heima þegar ég er í fríi. Mér finnst ótrúlega gott að koma heim, vera hjá ömmu og afa, hitta fjölskylduna og kúpla sig út úr því sem maður er að fást við á keppnistímabilinu.“ Móðuramma hans og afi eru Björg Dagbjartsdóttir og Halldór Gunnarsson.

Dýrmætur tími

„Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að koma heim til ömmu og afa og stússast með þeim; fara með afa að sinna hestunum og öðru sem hann gerir eða bara sitja með kaffibolla og spjalla við þau. Það er ótrúlega dýrmætur tími fyrir mig. Eins og maður reynir að njóta tímans í fótboltanum er líka gott að njóta tímans með afa og ömmu,“ segir Birkir við Akureyri.net.

Birkir hefur ferðast töluvert um landið í sumarfríunum, ekki síst undanfarin ár með kærustunni, hinni frönsku Sophie, er alltaf eitthvað fyrir sunnan þar sem föðurfjölskyldan býr „en ég reyni samt alltaf að vera sem mest fyrir norðan,“ segir hann.

Stelst í reiðtúr ...

Akureyri.net hitti Birki, Sophie og Halldór afa í hesthúsi fjölskyldunnar. Birkir á sjálfur einn hest, merina Rán. „Afi og bræður mömmu eru allir á kafi í hestamennsku og eiga samtals meira en 70 hesta. Ég hef verið mikið með afa og frændum mínum í hestastússi síðan ég var lítill,“ segir Birkir.

Birkir og afi hans, Halldór Gunnarsson, á Akureyri á dögunum. Birkir með merina sína, Rán. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnumenn geta ekki leyft sér hvað sem er vegna hættu á að meiðast, til dæmis að fara á hestbak. „Ég má ekki fara í reiðtúr en hef svo sem stundum stolist til þess! Ég hef ótrúlega gaman af því að ríða út,“ segir Birkir. Hann segir ekki vafa á því að hestamennska verði eitt af þeim áhugamálum sem hann sinni eftir að fótboltaskórnir verða komnir á hilluna. „Alveg örugglega, en hversu mikið verður bara að koma í ljós.“

Golfbakterían

Birkir er líka kominn með golfbakteríuna. „Ég byrjaði í golfi um tvítugt en hef ekki alltaf getað spilað mikið – það fer eftir því hvar maður er. Það er erfitt að spila mikið meðan keppnistímabilið í fótboltanum stendur yfir en ég mun stunda golfið mikið eftir að ég hætti í fótboltanum, það er öruggt mál!“

Birkir segir ekkert ákveðið hvar hann mun setjast að eftir að knattspyrnuferlinum líkur. Hann hefur búið víða, eins og áður hefur komið fram. „Það verður bara að koma í ljós, hvort ég sest að á Íslandi eða annars staðar,“ segir hann. Ræturnar eru á Íslandi, foreldrar hans og systkini búa í Noregi og Birkir hefur miklar mætur á Ítalíu þar sem hann lék í nokkur ár.

Viðskipti

Akureyri.net greindi frá því fyrr á árinu að Birkir hefði opnað veitingastað í Mílanó á Ítalíu. Hann kveðst hafa gaman af slíkum verkefnum og muni hugsanlega snúa sér í meira mæli að einhvers konar viðskiptum eftir að ferlinum lýkur. Hann er einn hlutahafa í Skógarböðunum, svo dæmi sé nefnt. „Ég hef gaman af fjárfestingum en hef svo sem ekkert ákveðið hvort ég fer mikið út í þær. Það er eitt af því sem verður bara að koma í ljós,“ segir þessi jarðbundni Akureyringur, landsliðsfyrirliðinn í knattspyrnu.

Birkir og kærastan Sophie í hesthúsi Halldórs afa hans á dögunum. Merin næst þeim heitir Rán og er í eigu Birkis. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

_ _ _

Björg, Halldór og börnin saman í blakliði

Birkir Bjarnason á ekki langt að sækja íþróttaáhugann og íþróttagenið hefur hann án efa fengið frá báðum foreldrunum. Bjarni Sveinbjörnsson faðir hans er markahæsti leikmaður knattspyrnuliðs Þórs í efstu deild frá upphafi og móðirin, Halla Halldórsdóttir, lék einnig knattspyrnu með Þór og blak með KA, og var landsliðsmaður í síðarnefndu greininni.

Í Morgunblaðinu var skemmtileg umfjöllun um móðurfjölskyldu Birkis eftir öldungamótið í blaki vorið 1993; Björgu Dagbjartsdóttur og Halldór Gunnarsson og börn þeirra fimm.

„Fólk hefur oft sagst ætla að eignast mörg börn, jafnvel heilt knattspyrnulið. Þetta er þó oftast sagt í gríni og það eru ekki margir sem hafa látið verða að því. Hjónin Björg Dagbjartsdóttir og Halldór Gunnarsson hafa þó látið drauminn rætast þó svo þau eigi ekki í knattspyrnulið. Þau eiga fimm börn og mynduðu ásamt þeim eitt blaklið á öldungamótinu og keppti liðið sem gestur því börnin hafa ekki öll náð réttum aldri,“ skrifaði Skúli Unnar Sveinsson, íþróttafréttamaður Morgunblaðsins á sínum tíma.

„Blakfjölskyldan kemur úr Þingeyjarsýslu, frá Lundi í Öxarfirði. En hvernig kemur það til að heil fjölskylda skuli leika blak?“ spyr Skúli. „Stærð salarins við Lundarskóla hefur sjálfsagt haft eitthvað með það að gera því hann er aðeins 5,5 x 12 metrar og því ekki margar íþróttagreinar sem hægt er að stunda þar með góðum árangri," sagði Björg í Morgunblaðinu. „Þau hjónin fluttu að Lundi árið 1969 þegar Halldór gerðist skólastjóri þar og Björg kennari. Blakið varð fljótlega aðalíþróttin og krakkarnir byrjuðu um leið og þau fóru að stíga í fæturna og ég hef alltaf æft með þeim þannig að ég þekki þau vel sem blakara, enda byrjuðu þau öll í blaki hjá mér í Lundarskóla,“ sagði Halldór.

Blakfjölskyldan úr Þingeyjarsýslunni vorið 1993. Myndin birtist í Morgunblaðinu. Hjalti, Dagbjartur, Halldór og Björg standa en Hjörtur, Davíð Búi og Halla krjúpa. Ljósmynd: Skúli Unnar Sveinsson.