Fara í efni
Mannlíf

Dúi Þór Jónsson úr Stjörnunni í Þór

Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, og Dúi Þór Jónsson þegar þeir undirrituðu samning. Mynd af vef…
Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, og Dúi Þór Jónsson þegar þeir undirrituðu samning. Mynd af vef Þórs.

Dúi Þór Jónsson, tvítugur körfuboltamaður úr Stjörnunni, hefur samið við Þór um að leika með félaginu næsta vetur.

„Þrátt fyrir ungan aldur er Dúi reynslumikill leikmaður sem hefur bæði spilað fyrir Stjörnuna í úrvalsdeild og Álftanes í 1. deildinni. Dúi sem er 20 ára er einn sigursælasti yngri flokka leikmaður landsins en hann hefur unnið marga Íslands- og bikarmeistaratitla með Stjörnunni, nú síðast Íslandsmeistaratitil með unglingaflokki,“ segir á heimasíðu Þórs í gækvöldi.

Dúi var í landsliði 20 ára og yngri sem keppti á móti í Eistlandi fyrr í júlí og í byrjunarliðinu í öllum leikjum. Fyrirliði landsliðsins er Þórsarinn Júlíus Orri Ágústsson, sem í sumar heldur til Bandaríkjanna þar sem stundar nám og leikur körfubolta með liði háskólans. Því má segja að Dúi leysi Júlíus af hólmi hjá Þór. Til gamans má geta þess að árið 2018 sigraði Stjarnan á óopinberu Norðurlandameistaramóti, Scania Cup, sem haldið er árlega í Svíþjóð og var Dúi Þór valinn maður mótsins; Scania King. Árið áður unnu Þórsarar mótið og þá var Július Orri valinn Scania King.

Á síðasta tímabili skoraði Dúi 4,7 stig að meðaltali í leik með Stjörnunni, gaf 2,3 stoðsendingar og tók 1,5 fráköst á rúmum 10 mínútum spiluðum.

Fyrir áhugamenn um körfuboltasöguna má geta þess að faðir Dúa Þórs er Jón Kr. Gíslason, sem gerði garðinn frægan á sínum tíma með liði Keflavíkur og landsliðinu og var síðan landsliðsþjálfari um tíma.