Fara í efni
Mannlíf

Blak: Sigrar hjá kvenna- og karlaliðum KA

KA liðin í blaki eru á mikilii sigurgöngu. Myndir: FB-síða KA.

Kvenna- og karlalið KA í blaki hafa staðið í ströngu undanfarna daga og leikjadagskráin hefur verið þétt. Álagið hefur þó ekki haft teljandi áhrif á frammistöðuna því sigrar hafa unnist í öllum viðureignum.

Kvennaliðið lék þrjá leiki á fjórum dögum. Fyrst komu Þróttarar úr Neskaupstað í heimsókn sl. miðvikudagskvöld og þar hafði KA betur, 3:0. Sigurinn var frekar auðveldur og lítil spenna í hrinunum þremur sem fóru 25:10, 25:15 og 25:9.

Tveir sigrar kvennaliðsins gegn Aftureldingu

Liðið lék síðan tvo heimaleiki gegn Aftureldingu. Fyrri leikurinn fór fram á föstudagskvöldið og þar vann KA 3:1, í miklum baráttuleik. Hrinurnar voru allar jafnar og spennandi. Afturelding vann þá fyrstu 25:22 en KA jafnaði með 26:24 sigri í þeirri næstu. Heimakonur tryggðu sér síðan sigurinn með 25:21 og 25:20 sigri í næstu tveimur hrinum. Seinni leikurinn á laugardag var ekki eins jafn og KA vann 3:0 sigur þar sem hrinurnar fóru 25:11, 25:20 og 25:23.

KA og HK eru langefst og jöfn á toppi deildarinnar og hafa bæði unnið fyrstu sex leiki sína. Þessi lið mætast ekki innbyrðis fyrr en um miðjan desember, þegar HK kemur norður og spilar tvo leiki við KA.

Staðan í Unbrokendeild kvenna

Karlaliðið lagði Vestra í tveimur leikjum

Karlalið KA fékk Vestra í heimsókn um helgina og áttust liðið við bæði á laugardag og sunnudag. KA vann öruggan 3:0 sigur í báðum þessum viðureignum. Hrinurnar í leikjunum voru þó ekki mjög ójafnar en fyrri leikinn vann KA 25:20, 25:18 og 25:22.

Í seinni leiknum var mótspyrna Vestfirðinga ennþá meiri og KA þurfti að hafa fyrir sigrinum í öllum hrinum. Þær enduðu allar þrjár 25:22 og Vestri náði því ekki að komast á blað, þrátt fyrir hafa átt ágæta möguleika til þess.

KA er sem stendur í öðru sæti deildarinnar, næst á eftir Hamri úr Hveragerði, en bæði lið hafa tapað einum leik - hvort gegn öðru.

Staðan í Unbrokendeild karla