Fara í efni
Mannlíf

Handbolti: KA ekki í vandræðum með Val

Giorgi Arvelodi Dikhaminjia fór á kostum í sóknarleik KA og skoraði 12 mörk úr 13 skotum. Hér skorar hann framhjá Björgvini Páli Gústavssyni í kvöld. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA fékk Valsmenn í heimsókn í 7. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld, fimmtudagskvöld. Eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik náðu KA-menn undirtökunum þegar líða tók á seinni hálfleikinn og Valsarar áttu engin svör. Lokatölur 33:28, öruggur KA-sigur, þar sem Giorgi Arvelodi Dikhaminjia fór á kostum og skoraði 12 mörk úr 13 skotum.

KA-menn hafa verið á miklu skriði undanfarið, búnir að vinna 3 leiki í röð og til alls líklegir. Fyrir leikinn voru bæði þessi lið með 4 sigra og 2 töp úr 6 leikjum og sátu saman í 3.-4. sæti deildarinnar. Með sigrinum náði KA Aftureldingu að stigum í öðru sæti deildarinnar en Mosfellingar eiga reyndar eftir að spila í 7. umferðinni.

Fyrri hálfleikur jafn og spennandi, liðin skiptust á um að skora í hröðum leik og jafnt var á flestum tölum. 17:17 var staðan í hléi. Markvarslan var ekki mikil, Bruno varði 5 skot í marki KA fyrir hlé en Björgvin Páll hjá Val náði bara að klukka 2 bolta. Magnús Óli Magnússon Valsari fékk beint rautt spjald eftir 20 mínútna leik, fyrir brot á Magnúsi Degi Jónatanssyni. Áfall fyrir Valsmenn því Magnús Óli hafði verið einn af atkvæðamestu mönnum þeirra í leiknum. 

KA-menn fagna sigri á meistaraefnum Vals á í KA-heimilinu í kvöld.

KA herti tökin jafnt og þétt í seinni hálfleik

Seinni hálfleikur fór rólega af stað hvað markaskorun varðar og eftir níu mínútna leik hafði hvort lið bara skorað tvö mörk. Þá kom góður kafli hjá KA, þeir breyttu stöðunni í 23:20 sér í vil þegar um korter var til leiksloka. Valsmenn áttu engin svör við góðum leik heimamanna og þótt þeir næðu að minnka muninn í 28:26 þegar 6 mínútur voru eftir af leiknum þá bættu KA-menn bara aftur í og skoruðu 3 mörk í röð. Forskotið orðið fimm mörk og þannig hélst það til leiksloka. Lokatölur 33:28 KA vil og þeir gulu og bláu sannarlega búnir að afsanna hrakspárnar fyrir mótið. Fjórði sigurinn í röð og það gegn liðinu sem spáð var efsta sæti deildarinnar fyrir mótið.

Það eru fleiri en einn og fleiri en tveir leikmenn innan liðsins sem geta tekið af skarið í hverjum leik og í dag var það Giorgi Arvelodi Dikhaminjia. Hann klikkaði á einu skoti undir lok leiksins en hin tólf þöndu netmöskva Valsmarksins. Bjarni Ófeigur Valdimarsson var líka drjúgur að venju og ekki má gleyma öflugum varnarleik, þar var Daníel Matthíasson t.d. með sjö stolna bolta.

Næsti leikur KA verður gegn ÍBV í Eyjum laugardaginn 25 október.

Mörk KA: Giorgi Arvelodi Dikhaminjia 12, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 7 (2 víti), Logi Gautason 5, Morten Linder 3 (1 víti), Arnór Ísak Haddsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2, Jens Bragi Bergþórsson 2.

Varin skot: Bruno Bernat 9, Guðmundur Helgi Imsland 0.

Mörk Vals: Gunnar Róbertsson 8 (4 víti), Andri Finnsson 4, Allan Norðberg 3, Dagur Árni Heimisson 3, Magnús Óli Magnússon 3, Agnar Smári Jónsson 2, Daníel Montoro 2, Þorgils Jón Svölu Baldursson 2, Daníel Örn Guðmundsson 1.

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 8, Jens Sigurðarson 0.

Staðan í deildinni

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz