Birkismugur – 3 tegundir hafa numið land

Frá aldaöðli hafa tvær tegundir af birkiættkvíslinni, Betula, vaxið á Íslandi. Það eru fjalldrapi, B. nana og ilmbjörk, B. pubescens. Að auki hafa aðrar tegundir ættkvíslarinnar verið reyndar hér og getað þrifist hér prýðilega. Má þar helst nefna steinbjörk, B. ermanii og hengibjörk, B. pendula. Þar fyrir utan hafa ýmsar elritegundir, Alnus spp., verið ræktaðar hér en sú ættkvísl er talin töluvert skyld birki.
Í pistli vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga fjalla Sigurður Arnarson og Brynja Hrafnkelsdóttir um skaðvalda birkis.
„Nýjasta viðbótin í hópi skaðvalda birkis eru tegundir sem þróast hafa þannig að þær lifa inni í sjálfum laufunum og halda sig á milli efra og neðra borðs þeirra. Þess vegna stingum við upp á að kalla þær birkismugur. Komið hefur í ljós að nú hafa þrjár tegundir birkismuga numið hér land sem haga sér svona en fyrir árið 2005 var íslenska birkið laust við slíka óværu. Ein þeirra er fiðrildategund, en hinar tvær eru blaðvespur.“
Meira hér: Birkismugur