Fara í efni
Mannlíf

„Birkir, þú ert stórkostlegur!“

Birkir Blær í sænska Idol í kvöld. Skjáskot af TV4.

Birkir Blær Óðinsson, 21 árs tónlistarmaður frá Akureyri, komst áfram í sænsku Idol söngkeppninni á sjónvarpsstöðinni TV4 í kvöld. Birkir  flutti Kaleo lagið No good ásamt hljómsveit þáttarins, og hlaut mikið hrós frá dómurunum fyrir að bjóða upp á íslenskt rokk. Auk þess að syngja lék Birkir með miklum tilþrifum á gítar.

Óhætt er að segja að dómararnir fjórir hafi hrósað Akureyringnum unga í hástert.

„Ég þarf að jafna mig, hér gerðist eitthvað stórfenglegt! Allt ótrúlega gott ... Veit ekki hvernig ég á að orða þetta …. það væri siðlaust af mér,“ sagði Kishti Tomita, og annar dómari, Alexander Kronlund, sagði: „Þú og gítarinn … Ég er orðlaus!“

Katia Mosally sagði einfaldlega: „Besta atriðið í kvöld!“

Anders Bagge sparaði heldur ekki stóru orðin: „Ég er ekki enn búinn að átta mig á þessu en ég vil þakka Íslandi hér og nú og ég horfi beint í myndavélina. Takk kærlega Ísland, því þið eruð búin að missa hann hingað … Birkir, þú ert stórkostlegur!“

Nú eru 12 keppendur eftir og Idol verður í beinni útsendingu næstu 12 föstudagskvöld á sjónvarpsstöðinni TV 4, allt þar til einn stendur uppi sem sigurvegari um miðjan desember.

  • Rétt er að taka fram að fyrirkomulagið í Idol er þannig að Birkir komst áfram í kvöld fyrir flutninginn á Sexy and I know it síðasta föstudag. Það eru áhorfendur sem kjósa um það hverjir halda áfram keppni, en dómararnir reyna augljóslega að hafa áhrif. Hlusti áhorfendur á dómarana er næsta víst að Birkir fær nógu mörg atkvæði að viku liðinni til að komast áfram fyrir flutninginn í kvöld!