Fara í efni
Mannlíf

Birkir aftur í beinni útsendingu á Vamos

Birkir Blær syngur í Idol fyrir viku. Skjáskot af TV4.
Birkir Blær syngur í Idol fyrir viku. Skjáskot af TV4.

Akureyringurinn Birkir Blær Óðinsson sem tekur þátt í sænsku Idol söngkeppninni á sjónvarpsstöðinni TV4,  stígur enn einu sinni á svið í kvöld. Aðra vikuna í röð verður þáttturinn í beinni útsendingu á skemmtistaðnum Vamos við Ráðhústorg á Akureyri.

Að þessu sinni ber keppendum að flytja lag frá eigin fæðingarári og Birkir Blær, sem fæddur er árið 2000, mun syngja lagið Yellow sem hljómsveitin Coldplay gaf út það ár.

Eins og fyrir viku er Vamos eini staðurinn í heiminum utan Svíþjóðar þar sem hægt er að horfa (löglega) á Idol þáttinn; Birkir Blær og Eyþór Ingi Jónsson, stjúpfaðir hans, sömdu við TV4 og Idol um að gera spenntum aðdáendum söngvarans í heimabænum kleift að fylgjast með honum.

Skemmtileg stemning var á Vamos síðastliðinn föstudag og búast má við margmenni í kvöld.

Útsendingin hefst klukkan 18.00 og verður þátturinn sýndu á tjaldi og í gegnum hljóðkerfi. Matur og drykkur er til sölu á staðnum.