Fara í efni
Mannlíf

Ásthildur formlega ráðin bæjarstjóri

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri síðustu fjögur ár, var í dag formlega ráðin til að gegna starfinu áfram á nýbyrjuðu kjörtímabili. Tilkynnt hafði verið að Ásthildur gegndi starfinu áfram og ráðningarsamningur hennar þegar verið staðfestur í bæjarráði en samningurinn var lagður fram til formlegar staðfestingar í bæjarstjórn í dag. Allir 11 bæjarfulltrúarnir staðfestu samninginn með atkvæði sínu. 

„Bæjarstjórn samþykkti samhljóða áðan samning við mig sem bæjarstjóra Akureyrarbæjar næstu 4 árin. Ég þakka traustið, er þakklát og stolt og held auðmjúk áfram mínum störfum,“ skrifaði Ásthildur á Facebook að fundi loknum.

„Síðastliðin 4 ár hafa verið sérstaklega góð, þó svo að sannarlega hafi verið miklar áskoranir í rekstrinum en það er þó allt á réttri leið. Ég er þakklát fyrri bæjarstjórn sem treysti mér, aðkomustelpunni, fyrir stóru verkefni. Ég hlakka til næstu 4 ára enda bæjarstjórnin öflug og hjá sveitarfélaginu starfar frábært fólk sem ég hlakka til að starfa áfram með.

Á Akureyri er framtíðin björt, hér er einstaklega gott að búa og eins og allir vita er Eyjafjörðurinn fagur!“