Fara í efni
Mannlíf

Allir sem þekkja mig vita að ég er ekki rasisti

Þorlákur Árnason þjálfari Þórs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þorlákur Árnason, þjálfari knattspyrnuliðs Þórs, harðneitar því að hafa gerst sekur um kynþáttafordóma gagnvert franska leikmanninum Jordan Damachoua. Frakkinn, sem farinn er frá Þór til KF í Fjallabyggð, sakaði Þorlák um það í viðtali við fótbolta.net í gær.

„Það er gríðarlega alvarlegt að ásaka aðra manneskju um rasisma,“ skrifar Þorlákur á Facebook síðu sína og bætti við að ef eitthvert sannleikskorn væri í því sem Damachoua sagði „myndi ég sennilega taka því illa.“

Damachoua sagði meðal annars í viðtalinu að Þorlákur vildi ekki nota erlenda leikmenn vegna þess að félagið væri íslenskt!

Frakkinn kom ekki mikið við sögu hjá Þór. Hann lék fyrri hálfleikinn í 2:0 tapi fyrir Dalvík í bikarkeppninni og kom inná snemma í seinni hálfeik í 4:1 tapi fyrir Fjölni í Reykjavík í Lengjudeildinni.

„Ég er ekki rasisti“

„Ég get ímyndað mér að fólk sem aðhyllist einhvers konar rasisma yrði reitt ef að það yrði sakað um slíkt. Sannleikurinn er jú oft sár eins og við þekkjum,“ segir Þorlákur í pistli sem hann skrifaði á Facebook.

„En allir sem þekkja mig og mína hugmyndafræði vita að ég er ekki rasisti,“ skrifar Þorlákur. Hann segist ofboðslega forvitinn um ólíka menningarheima, þess vegna hafi hann starfað í tvö og hálft ár í Asíu og einnig tekið að sér verkefni í Afríku og öðrum fjarlægum heimsálfum.

„Ástæða þess að nokkrir af þeim erlendu leikmönnum sem hafa verið í Þór sumar, hafa ekki spilað meira en raun er hefur ekkert með þjóðerni að gera. Félagið ákvað að hefja uppbyggingu á nýju liði sem er ungt að árum og ætlunin var að fá öfluga aðkomumenn til að gera liðið sterkara. Sumir af þessum aðkomumönnum hafa styrkt liðið og aðrir ekki eins og gengur og gerist.

Af hverju ætti þjálfari að sækja leikmenn frá ólíkum menningarheimum ef að viðkomandi aðili bæri ekki virðingu fyrir þeirri menningu?

Það er gríðarlega alvarlegt að ásaka aðra manneskju um rasisma. Ef það væri eitthvað sannleikskorn í því þá myndi ég sennilega taka því illa.

Staðreyndin er sú að í nútíma þjóðfélagi þá verða þjálfarar, kennarar og aðrir leiðbeinendur sífellt fyrir aðdróttunum þegar taka þarf á óæskilegri hegðun skjólstæðinga. Þetta hefur orðið til þess að þessir starfshópar þora vart að tjá sig á hættu á að orð þeirra sé mistúlkuð og notuð gegn þeim.

Umræddur leikmaður var sektaður fyrir að brjóta siðareglur Þórs, hann var síðar aðvaraður aftur fyrir svipað atvik. Þetta varð til þess að það skapaðist vantraust bæði á milli leikmanns og þjálfara og leikmanns og félagsins. Geta leikmannsins hefur aldrei verið dregin í efa.

Ég vil óska Jordan Damachoua alls hins besta í framtíðinni í nýju félagi.“

Viðtal fótbolta.net við Damachoua er hér