Fara í efni
Mannlíf

Akureyrarvaka: Hvað er um að vera í dag?

Listamaðurinn Kalli, Karl Guðmundsson, var á Ráðhústorgi í gær með Gallerí Kalla og verður aftur á ferðinni í dag. Þarna er hann ásamt móður sinni, Ingibjörgu Auðunsdóttur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyrarvaka, hin árlega bæjarhátíð í höfuðstað Norðurlands, hófst á föstudag og lýkur í dag, sunnudag. Hún er jafnan haldin sem næst afmælisdegi Akureyrar 29. ágúst, sem nú ber upp á mánudag og afmælið er stórt að þessu sinni. „Í ár fögnum við því að 160 ár eru frá því bærinn fékk kaupstaðarréttindi,“ segir Almar Alfreðsson verkefnastjóri menningarmála hjá Akureyrarbæ og skipuleggjandi hátíðarinnar.

Í DAG, SUNNUDAG 28. ÁGÚST

09.30 – 10.30 Morgunflot í Sundlaug Akureyrar „Verið velkomin í fljótandi slökunarstund þar sem við upplifum heilandi stund saman í tímaleysi umlukin vatninu,“ segir í kynningu.

10.00 – 12.00 Komdu með í skólasögustrætó – Fyrri ferð
Í tilefni 160 ára afmælis Akureyrarbæjar verður boðið upp á leiðsögn í skólasögustrætó og gönguferð í dag, þar sem fjallað verður um menntun og frístundir barna á Akureyri fyrstu 100 árin í sögu bæjarins með áherslu á leikvelli, barnaheimili/leikskóla, smábarnaskóla og barnaskóla.

Skólasögustrætóinn fer tvær ferðir; lagt verður af stað frá strætóstöðinni hjá BSO í miðbænum, klukkan 10.00 og 13.00 og tekur hvor hringur um tvær klukkustundir.

11.00 – 12.00 Fjölskylduleiðsögn í Listasafninu
Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi, segir börnum og fullorðnum frá sýningu Egils Loga Jónassonar – Þitt besta er ekki nóg, og sýningu Steinunnar Gunnlaugsdóttur – blóð & heiður, sem opnaðar voru í gær.

Að lokinni leiðsögn er gestum boðið í smiðju og að búa til sitt eigið listaverk, innblásið af verkum listamannanna.

12.00 – 17.00 Skapandi samvera í Listasafninu
Listasafnið á Akureyri býður upp á fjölskylduleik um sýninguna Gjöfin til íslenzkrar alþýðu. Tilvalið tækifæri fyrir börn og fullorðna til að staldra við og uppgötva eitthvað nýtt. Bragðgóð verðlaun í boði!

13.00 – 13.30 Listamannsspjall - Gunnar Kr. í Hofi
Gunnar Kr. Jónasson opnaði sýningu í Hofi í gær, laugardag. Í dag spjallar hann við gesti.

13.00 – 15.00 Komdu með í skólasögustrætó – Seinni ferð
Í tilefni 160 ára afmælis Akureyrarbæjar verður boðið upp á leiðsögn í skólasögustrætó og gönguferð í dag, þar sem fjallað verður um menntun og frístundir barna á Akureyri fyrstu 100 árin í sögu bæjarins með áherslu á leikvelli, barnaheimili/leikskóla, smábarnaskóla og barnaskóla.

Skólasögustrætóinn fer tvær ferðir; lagt verður af stað frá strætóstöðinni hjá BSO í miðbænum, klukkan 10.00 og 13.00 og tekur hvor hringur um tvær klukkustundir.

13.00 – 16.00 Gallerí Kalli í miðbænum
Listamaðurinn Kalli, Karl Guðmundsson, er með gallerí í kerru á hjólum sem hann dregur á eftir sér í rafmagnshjólastólnum. Til sölu verða handgerðar bækur og lítil myndverk! Kalli mun keyra um Ráðhústorgið, göngugötuna og Listagilið í tilefni Akureyrarvöku.

13.00 – 16.00 Næmm – Myndlist, tónlist og smakk
Innsetning skúlptúra í Kaktusi, Listagilinu.

14.00 – 16.30 Stuttmyndir Filmumanna í Hofi
Á 30 ára frumsýningarafmæli fyrstu myndar Filmumanna verða sýndar myndirnar  Spurning um svar, Skotinn í skónum, Negli þig næst og GAS í samstarfi við Menningarhúsið Hof, veitingahúsið Garúnu og Akureyrarvöku.

Á undan hverri mynd verður boðið uppá spurningar til aðstandenda myndanna og þeir munu svara af sinni alkunnu snilld.

14.00 – 17.15 Tweed Ride Akureyrarkirkja
Eftir langt hlé er loksins boðið upp á Tweed Ride á Akureyri á ný. „Klæðum okkur upp og tökum fram gömlu klassísku hjólin í tilefni Akureyrarvöku,“ segir í kynningu. „Það er Reiðhjólaverzlunin Berlín sem stendur fyrir viðburðinum í samstarfi við Akureyrarvöku. Í lok hjólatúrsins verður verðlaunaafhending fyrir best klædda herramanninn, best klæddu dömuna og fallegasta hjólið.“

  • Upphaf við Akureyrarkirkju kl. 14.00
  • Stansað við LYST í Lystigarðinum kl. 15.30
  • Ferðalok og verðlaunaafhending í Hofi kl. 16.45

15.00 – 16.00 BabyBop í LYST, Lystigarðinum
Djasstríóið Babybop heldur tónleika á LYST í Lystigarðinum. Tríóið skipa stofnandinn, Dimitrios Theodoropoulos, sem leikur á gítar, Jóel örn Óskarsson, sem einnig er gítarleikari, og Embla Dýrfjörð, bassaleikari.

16.30 – 17.15 Herbert Guðmundsson í Hofi
Tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson tekur alla sínu helstu slagara fyrir gesti og gangandi í Hamragili og kaffihúsinu Garúnu.

  • Þátttakendur í hjólaviðburðinum Tweed Ride enda túrinn á tónleikunum.
  • Herbert tekur nokkur lög en svo verða viðurkenningar veittar fyrir hjólaviðburðinn í hléi. Svo stígur Hebbi aftur á svið og klárar sína dagskrá eins og honum einum er lagið.