Mannlíf
Eyrarpúkar bjóða heim til veislu á laugardag
28.08.2025 kl. 06:00

Hluti af skipulagsnefnd Eyrarfest. Frá vinstri, Luiza Braulio, Rakel Hinriksdóttir, Freydís Þorvaldsdóttir, Zane Brikovska, Alexandra Zaglewski og Erlendur Steinar Friðriksson. Fjarverandi voru Jóhann Freyr Jónsson og Olga Medynskaia. Mynd: Atli Hrafn Jónsson
Eyrarfest er ný hverfishátíð á Oddeyrinni, en hún verður haldin hátíðleg á laugardaginn kemur, 30. ágúst. Dagurinn byrjar með fróðlegri gönguferð um Eyrina með Arnóri Blika Hallmundssyni, en mæting er kl. 11.00 á Eiðsvöll.
„Okkur langaði að fagna hverfinu með fjölskylduhátíð sem fangar karakter Eyrarinnar - sem er fjölbreyttur og lifandi,“ segir Zane Brikovska, ein af skipuleggjendum hátíðarinnar. „Við ætlum að bjóða í Pálínuboð, þar sem ýmsir íbúar koma með veitingar og einnig grillum við pylsur fyrir gesti. Svo verður markaður, lifandi tónlist, leikir og fjör.“
Aðalhátíðarhöldin verða á milli klukkan 12 og 16 á Eiðsvelli, almenningsgarði í hjarta Oddeyrarinnar. „Við erum svo heppin að búa að þessum fallega garði, sem hentar einkar vel til mannamóta. Við vonum að íbúar Eyrarinnar fjölmenni, sem og aðrir gestir. Öll eru velkomin á Eyrarfest,“ segir Zane.
Það er mikið um listafólk á Eyrinni, og tónlistarmennirnir Ivan Mendez, Diana Sus og Davíð Máni ætla að spila fyrir gesti. Á svæðinu verður hoppukastali fyrir unga fólkið og farið verður í leiki, þar sem eldri gestir eru hvattir til að taka þátt líka.
Áhugasöm um að taka þátt, koma með mat eða taka þátt í markaði, er bent á að hafa samband við skipulagsnefnd Eyrarfest. Best er að senda tölvupóst á eyrarfestoddeyrin@gmail.com.
Hér er hlekkur á viðburðinn á Facebook.
Hátíðin er styrkt af Akureyrarbæ, Kjarnafæði og Axelsbakarí.