Fara í efni
Mannlíf

Af lífsbaráttu alþýðufólks á kjarngóðri íslensku

AF BÓKUM – 28

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Hólmkell Hreinsson_ _ _

Nýlega hlustaði ég á athyglisverða þætti í útvarpi allra landsmanna um lífið í Flatey á Skjálfanda. Þættirnir heita „Tilraun sem stóð í þúsund ár“ og eru í umsjá Guðrúnar Hálfdánardóttur. Af svipuðum meiði er bókin „Í verum“ eftir Theodór Friðriksson sem kom fyrst út í tveimur bindum árið 1941 og þegar ég var að hlusta á þættina leitaði hugur minn einmitt til þessarar mögnuðu sögu.

Í verum er sjálfsævisaga Theodórs Friðrikssonar en hann fæddist einmitt í Flatey árið 1876 og hefur í vöggugjöf fengið ríka frásagnarhæfileika sem koma skýrt fram „Í verum“ en auk hennar skrifaði hann tvö önnur sjálfsævisöguleg verk „Hákarlalegur og hákarlamenn“ sem fjallar um líf og störf sjómanna og svo „Ofan jarðar og neðan“ sem er framhald af „Í verum“ og segir frá mannlífi í Reykjavík á tímum Síðari heimsstyrjaldarinnar. Auk þessa skrifaði hann tvær skáldsögur og tvö smásagnasöfn sem öll fjalla um líf og störf Íslendinga í kringum aldamótin þarsíðustu.

Það sem mér finnst sérstaklega áhugavert við „Í verum“ eru lýsingar Theodórs á lífi og lífsbaráttu alþýðufólks við Eyjarfjörð á þessum tíma. Í afskekktum byggðum í Fjörðum, Flatey og Flateyjardal þó svo að sagan gerist líka víðar um land. Þar sem ég er nokkuð kunnugur staðháttum hér á heimslóð þótti mér sérstakalega áhugavert að lesa þær frásagnir sem gerast úti í Flatey og Fjörðum. Hann lýsir bæði daglegu amstri en líka þeim breytingum sem verða á samfélaginu á þessum tíma.

Ég mæli því eindregið með því að áhugafólk um sögu og lífskjör alþýðu á Íslandi nálgist þessar bækur og lesi, líka þeir sem hafa yndi af að lesa kjarngóðan íslenskan texta.

Svo má í framhjáhlaupi nefna bækurnar „Virkir dagar: saga Sæmundar Sæmundssonar skipstjóra, skrá eftir sögn hans sjálfs“ og skráð var af Guðmundi Hagalín en þar er fjallað um svipað efni, þ.e. líf og störf hér við Eyjafjörð. Ekki síður áhugaverð og skemmtileg lesning.