Fara í efni
Mannlíf

Æsispennandi í karlaflokknum

Tveir efstu menn „gefa hnefa“ eftir að þeir luku keppni á 18. flot í dag. Frá vinstri: Aron Snær Júlíusson, Daníel Ísak Steinarsson og Hlynur Bergsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Keppni er hnífjöfn og skemmtileg í karlaflokki á Íslandsmótinu í golfi á Jaðarsvelli. Ljóst er að allt getur gerst á morgun, á síðasta degi mótsins, því aðeins munar tveimur höggum á fyrsta og þriðja manni, og sex höggum munar á Aroni Snæ Júlíussyni, sem er efstur, og þeim sem eru í fjórða og fimmta sæti.

Aron Snær Júlíusson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar hefur leikið á sjö höggum undir pari vallarins, 206 (70 - 67 - 69), Hlynur Bergsson, einnig úr GKG, er á sex undi pari, 207 höggum (66 - 72 - 69), og Jóhannes Guðmundsson, GR, er á fimm undir pari, 208 höggum (69 - 73 - 66). Jóhannes jafnaði vallarmetið í dag þegar hann lék á 66 höggum.

Birgir Björn Magnússon, Keili, og Tumi Hrafn Kúld, Golfklúbbi Akureyrar, eru svo jafnir í fjórða og fimmta sæti á einu höggi undir pari vallarins, hafa báðir leikið á 212 höggum. 

Smellið hér til að sjá skor allra keppenda.