Fara í efni
Mannlíf

Æðislegt að hlaupa þessa fallegu leið

Rannveig kemur í mark í gær, langfyrst kvenna. Hún hljóp 55 km á 7 klukkustundum, 19 mínútum og 12 sekúndum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Rannveig Oddsdóttir sigraði með miklum yfirburðum í kvennaflokki „ultra“ hluta Súlur Vertical fjallahlaupsins í gær – hljóp 55 kílómetra úr Kjarnaskógi, upp á Súlur, þaðan inn Glerárdal að skálanum Lamba, upp á topp Hlíðarfjalls og aftur niður í bæ.

„Það var æðislegt að hlaupa í dag; geggjað veður, leiðin var fjölbreytt og skemmtileg og mjög falleg í svona veðri – þá njóta fjöllin sín virkilega,“ sagði Rannveig við Akureyri.net strax eftir að hún kom í mark.

Sólin skein skært í Eyjafirðinum í gær og varla hreyfði vind. Fannst Rannveigu ekkert of heitt? „Það jaðraði við það á köflum,“ sagði hún, „aðallega þegar maður hljóp ofan í gil og dældir, þá var ansi heitt, en annars fannst mér hitinn passlegur lengst af.“

Löng og brött leið upp Hlíðarfjall

„Mér gekk mjög vel, reyndar var hluti leiðarinnar hryllilega grýttur og erfiður yfirferðar. Ég er ekkert sérstaklega sterk í svoleiðis aðstæðum og horfði á eftir körlunum fara fram úr mér þá; sumir þeirra virðast ekkert þurfa að snerta jörðina! Ég veit ekki hvernig þeir fara að þessu.“

55 km hlaupið er með alls 3000 metra hækkun. „Já, það er náttúrlega mikið klifur í þessu, sérstaklega upp Hlíðarfjall, brekkan þar er ansi löng og brött – og tekur aðeins í. Svo er niðurhlaupið langt, síðustu 12 kílómetrararnir eru allir niðri í móti, þá pressast maður svolítið fram í skóna og verður ansi aumur í tánum.“

Rannveig sagði marga hlaupara þekkja leiðina býsna vel. „Við förum oft hluta þessarar leiðar, oftast fyrri hlutann undanfarið; úr Kjarnaskógi yfir í Fálkafell og upp á Súlur. Á leiðinni frá Súlum og niður í Lamba var kafsnjór þangað til fyrir um það bil mánuði þannig að maður fór sjaldnar þá leið. Ég hef oft farið upp á Hlíðarfjall en ekki oft upp hrygginn eins og núna, frekar í gegnum skíðasvæðið þar sem við komum niður í dag.“

Rannveig var sem sagt alsæl þegar hún kom í mark, bæði með aðstæður allar og tímann. Stefnan var að fara vegalengdina á sjö til sjö og hálfri klukkustund. „Ég var á 7,19 sem er innan skekkjumarka,“ sagði hlaupadrottningin.

Rannveig á hlaupum í morgunsólinni í gær. Ljósmynd: Ármann Hinrik.