34 tíma ferðalag til að spila á Arctic Open
Hið árlega Arctic Open golfmót hófst á Jaðarsvelli á Akureyri í gær og leikið var langt inn í Jónsmessunóttina að vanda. Miðnætursólin er ekki að þvælast fyrir kylfingum að þessu sinni heldur var boðið upp á norðanátt og skítakulda, svo töluð sé hrein íslenska! Aðstæður eru ögn skárri í dag.
Kylfingar sem Akureyri.net hitti að máli á Jaðri í gærkvöldi voru þó ekki að amast yfir veðrinu heldur flestir með bros á vör, fullir tilhlökkunar og mjög vel klæddir!
Keppendur eru um 230 og mótið því fullt, eins og Bjarni Þórhallsson, formaður Golfklúbbs Akureyrar, sagði í gær. Töluvert er um að útendingar taki þátt sem fyrr, meðal annars er hér hópur 11 ástralska kvenna sem kom gagngert til landsins í því skyni að keppa á Arctic Open.
Ástralski hópurinn lagðist mikið á sig. „Okkur langaði gríðarlega mikið til að koma hingað og spila um miðja nótt,“ sagði ein þeirra við Akureyri.net. Ein úr hópnum er góður kylfingur en hún sagði sumar hinna í meðallagi og nokkrar meira að segja nánast byrjendur. En fyrst og fremst kæmu þær til Akureyrar í því skyni að hafa gaman.
Ein benti blaðamanni á að nú væri miður vetur í Ástralíu og hitinn aðeins um 18 stig. Brosti svo breitt og klæddi sig í aðra peysu áður en hún smeygði sér í jakkann!
Það tók ástralska hópinn 34 klukkustundir að komast að heiman og alla leið til Akureyrar. Konurnar flugu frá Ástralíu til Kanada og þaðan áfram til Íslands. Héðan halda þær áfram í austurátt og fljúga heim í gegnum Asíu. Nota tækifærið og ferðast hringinn í kringum hnöttinn.
Áströlsku konurnar heita Gloria Port, Jennifer Kelly, Wendy MacTaggart, Robyn Jones, Samantha Kong, Kathleen McCreanor, Yvonne Gately, Sharlene Lloyd, Jill Blenkey, Charlotte McDonald og Anne Watkings.
Bandaríkjamennirnir Mike Doran, Jace Pearson og Micheal White ásamt Þorleifi Ágústssyni, sem er lengst til hægri, áður en þeir hófu leik í gærkvöldi. Þorleifur er alinn upp steinsnar frá golfvellinum en er þó að taka þátt í Arctic Open í fyrsta skipti. Hann hefur búið fjarri Akureyri í mörg ár.