Fara í efni
Mannlíf

200 tonn á ári í gegnum flokkunarstöðina

„Oft er glatt á hjalla í fataflokkuninni, enda er mikilvægi þess að hafa gaman að vinnunni vel þekkt og á það að sjálfsögðu jafnt við um sjálfboðaliðastörf sem önnur störf ...“ segir Sóley Björk meðal annars í pistlinum.

Á hverju ári fara um 200 tonn af fatnaði og ýmsum öðrum textíl í gegnum flokkunarstöð Rauða krossins á Akureyri, en auk þess að flokka fatnað og ganga frá honum til sölu, sinna sjálfboðaliðar alls kyns fjölbreytilegum verkefnum.

Sóley Björk Stefánsdóttir, verkefnastjóri í Eyjafjarðardeild Rauða krossins, fjallar um fataverkefni Rauða krossins í pistli sem birtist á Akureyri.net í dag. „Víða um land er að finna fatagáma frá Rauða krossinum en auk þess að vera mikilvæg fjáröflun fyrir Rauða krossinn er fataverkefnið mikilvægt umhverfisverkefni,“ segir hún.

Biður fólk að sýna tillitssemi

Þegar allt er talið eru á milli fjögur til fimm þúsund tonnum af fatnaði, skóm, fylgihlutum og öðrum textíl skilað í gáma Rauða krossins á Íslandi ár hvert. Langstærsti hlutinn er sendur úr landi vegna þess að það er ekki markaður innanlands fyrir allt þetta magn af notuðum fatnaði og það sem nýtist ekki fer til endurvinnslustöðva í Þýskalandi og Hollandi.

„Það er óhætt að segja að sjálfboðaliðar í fataflokkun sýni gríðarlegan metnað fyrir verkefninu, en þeir mæta stundum á helgidögum, jafnvel á aðfangadag, til að tæma gámana svo að minni líkur séu á að fólk komi að fullum gámum. Við viljum biðja fólk að sýna þá tillitsemi að setja alls ekki oddhvassa hluti í gámana, loka fatapokunum vel og setja aðeins fatnað og annan textíl í gámana.“

Smellið hér til að lesa pistil Sóleyjar Bjarkar