Fara í efni
Íþróttir

Vinstri græn svara spurningum lesenda

Vinstri græn svara nú spurningum lesenda Akureyri.net í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. Öll framboðin fengu sendar spurningar og svör VG við flestum þeirra bárust í gær.

SPURT ER – Hver er afstaða til spítalabrekkunnar með tilliti til byggingarstefnu Akureyrarbæjar og umsagnar Minjastofnunar um málið?

SVAR – Við í VG á Akureyri stöndum fyrir það að litið sé til sögulegs samhengis og eldri byggðar við gerð nýs skipulags og þéttingu byggðar. Uppbygging í eldri hverfum þarf að vera í samhengi við einkenni hverfa. Samtal við íbúa í aðdraganda mikilla breytinga á gildandi deiliskipulagi er afar mikilvægt. Að sama skapi þarf að virða sögu- og menningarminjar og líta á stofnanir eins og Minjastofnun sem samstarfsaðila sem leiðbeina í þessu samhengi. Við styðjum ekki núverandi áform í spítalabrekkunni.

SPURT ER – Hver er afstaða til Glerárlaugar?

SVAR – Við í VG á Akureyri teljum Glerárlaug og rekstur hennar vera mikið lýðheilsumál. Glerárlaug er falið leyndarmál sem fleiri Akureyringar mættu nýta sér. Þar fer fram mikilvæg starfsemi og þangað sækja hópar heilsurækt og sundkennslu sem illa eða ekki geta nýtt sér aðstöðu í Akureyrarlaug. Við viljum tryggja að almenningur hafi áfram svipaðan aðgang og á liðnum árum.

SPURT ER – Hver er afstaða til reksturs og uppbyggingar í Hlíðarfjalli með tilliti til veltu þjónustuaðila í bænum fyrstu fjóra mánuði ársins sem eingöngu er tilkomin vegna skíðaaðstöðu í Hlíðarfjalli?

SVAR – Við erum hlynnt uppbyggingu í Hlíðarfjalli og teljum mikilvægt að fara í þá uppbyggingu sem stefnt er að samkvæmt skýrslu starfshóps um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar. Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli hefur mikla þýðingu varðandi vetrarferðaþjónustu en ekki síður varðandi lýðheilsu íbúa.

SPURT ER –  Hver er afstaða til gjaldfrjáls strætós?

SVAR – Við í VG styðjum heilshugar að áfram verði frítt í strætó. Það er mikilvægur þáttur í að efla almenningssamgöngur í sveitarfélaginu. Um leið viljum við leita allra leiða til að auka notkun almenningssamgangna, með bættu leiðakerfi og hvatningar til skóla um að setja strætósskóla Vistorku á dagskrá. Góðar almenningssamgöngur eru hvort tveggja mikilvægar í samhengi við loftslagsmál og þjónustu við íbúa.

SPURT ER – Hver er afstaða til hálkuvarna stofnæða að vetri?

SVAR –  Hálkuvarnir eru mikilvægt öryggisatriði á Akureyri, þar sem umferð um stofnæðar er mikil og margar þeirra í miklum halla. Við teljum mikilvægt að halda áfram með öflugar hálkuvarnir. Útfærsla þeirra skal vera samkvæmt nýjustu þekkingu á öryggismálum og lýðheilsu. Um leið teljum við ástæðu til að hvetja íbúa til að draga úr notkun nagladekkja.

SPURT ER –  Hver ef afstaða til rykhreinsunar gatna allt árið?

SVAR –  VG telur mikilvægt að rykhreinsa götur á sem árangursríkastan hátt, með tilliti til lýðheilsu. Að sama skapi er mjög mikilvægt að hreinsa sand af göngu- og hjólastígum um leið og hægt er, til að auka öryggi gangandi og hjólandi.

SPURT ER – Hvaða skoðun hafa framboðin á nýja miðbæjarskipulaginu þar sem á að byggja á flestum bílastæðum miðbæjarins? Kemur til greina að draga úr byggingamagni? Er stefnt að því að byggt verði í „gamaldags“ stíl, svipað og við Austurbrú, sem væri betur í samræmi við td. Innbæinn og og byggðina þar norðan við, frekar en stóra steinkumbalda?

SVAR – VG telur margt mjög jákvætt vera í nýju miðbæjarskipulagi, tenging við hafnarsvæðið, þétting byggðar miðsvæðis og blönduð byggð með íbúðum, verslun og þjónustu. Hugsanlega kæmi til greina að draga úr byggingarmagni en sé hönnun bygginga góð ætti það ekki að vera forgangsatriði. Við teljum að það sé mikilvægur þáttur í uppbyggingunni bæði með tilliti til umhverfis og aukinna valkosta fyrir íbúa að auka framboð á íbúðarhúsnæði í og við miðbæinn. Við eigum takmörkuð landgæði og verðum að horfa til þéttingar samhliða byggingu nýrra hverfa í jaðri byggðar. Skilmálar í skipulagi gera ráð fyrir inndregnum efstu hæðum og skilyrði varðandi útlit húsa eru skýr. Gert er ráð fyrir flötum og einhalla húsum sem eru í samræmi við miðbæinn eins og hann er núna, það er í samhengi við okkar stefnu hvað varðar að viðhalda sérkennum hverfa. Í heild erum við jákvæð fyrir nýju miðbæjarskipulagi og horfum bjartsýn til uppbyggingar á því svæði. Að því sögðu þá þarf að vanda til uppbyggingarinnar sjálfrar og gefa ekki afslátt af þáttum eins og bílakjöllurum og fjölþættrar nýtingar bygginga.

SPURT ER – Styðja framboðin áframhaldi saltaustur á götur Akureyrar?

SVAR – Við teljum mikilvægt að fylgjast vel með þróun í hálkuvörnum og beita þeim aðferðum sem eru bestar með tilliti til lýðheilsu og öryggis. Reynist ákveðin notkun salts eða saltvatns best hvað þessa þætti varðar þá erum við fylgjandi henni.

SPURT ER – Hver er stefnan í fegrun bæjarins?

SVAR – VG leggur mikla áherslu á gott viðhald og hreinsun bæjarins, til að bærinn standi undir þeirri ímynd sem hann hefur sem grænn og fallegur bær. Mikilvægt er að horfa til þess við ræktun að nýta gróður sem þarfnast lítillar snyrtingar þar sem erfitt er að koma henni við t.d á umferðareyjum. Grænum svæðum þarf að viðhalda og byggja þau upp þannig að þau nýtist íbúum og gestum til útivistar, hvíldar og samveru.

SPURT ER – Allt of margar stórar aspir er víða inni í bænum. Má ekki fella/ grisja þessi skrímsli? Efst í Víðilundi eru aspir svo hávaxnar að íbúar á fimmtu hæð njóta ekki útsýnis. Kynnið ykkur góð áhrif af góðu/grænu útsýni og rannsóknir sem Páll Jakob Líndal sem er umhverfissálfræðingur hjá HÍ hefur gert, og sannar góð áhrif á heilsu fólks.

SVAR – Stutta svarið við þessari spurningu er jú, það á að fella sem mest af öspum, þær eiga ekki heima í þéttbýli. Sveitarfélagið á að leggja áherslu á að útrýma þeim á þeim svæðum sem undir bæinn heyra.

SPURT ER – Er ætlunin að standa við samþykkt um að lausaganga katta verði ekki heimil frá ársbyrjun 2025?

SVAR – Nú hefur þessari samþykkt verið breytt og málamiðlunartillaga bæjarstjórnar var að lausaganga katta verði bönnuð frá miðnætti til sjö á morgnanna. Við höfum þrjár útfærslur í sveitarfélaginu okkar, kattahald er alfarið bannað í Grímsey og lausaganga bönnuð í Hrísey. Það er skiptar skoðanir milli fólks sem skipar sæti á listanum okkar og í efstu sex sætunum er jafnt hvort einstaklingar séu hlynnti lausagöngu eða á móti. Oddviti listans er hlynntur lausagöngu og hefði viljað sjá að núverandi samþykktum væri fylgt eftir.

SPURT ER – Er vilji til þess að draga til baka, a.m.k. að einhverju leyti, nýorðnar breytingar á bílastæðafyrirkomulagi í miðbæ Akureyrar, t.d. láta gamla klukkufyrirkomulagið gilda fyrir þá sem það vilja?

SVAR – Við teljum að ekki sé tímabært að dæma um nýorðnar breytingar á bílastæðafyrirkomulagi, enda lítil reynsla komin á það enn.

SPURT ER – Krossanesborgir er náttúruperla okkar Akureyringa. Það þarf að laga göngustíga og setja bekki að mínu mati. Hver er skoðun framboðanna á því?

SVAR – Við erum sammála um gildi Krossanesborga, bæði sem útivistarparadísar og náttúruperlu eins og þú kemur inn á. Þar er afar mikilvægt að horfa til verndunar fuglalífs sem grundvallarforsendu í uppbyggingu svæðisins. Göngustígarnir þarfnast viðhalds og uppbyggingar og gjarna mætti fjölda áningarstöðum og bekkjum þar sem hægt er að setjast niður, hvíla lúin bein og njóta.

SPURT ER – Enginn flokkanna er með einhverja stefnu sem þeir ætla að leiða okkur gagnvart, engin framtíðarsýn. Hvert á að stefna með bæinn? Þetta er allt hugmyndir gagnvart einhverjum málaflokkum. Það er rekstur. Það sem pólitíkin þarf að bjóða upp á er einhver hugmynd, einhver framtíðarsýn.

Því spyr ég: Hvað verður Akureyri eftir 25 ár og hvernig ætlið þið að leiða okkur þangað? Þetta er í rauninni bara beisikk pólitísk spurning því ef menn vita ekki svarið þá eiga þeir ekki að vera í pólitík.

SVAR – Framtíðarsýn sveitarfélags birtist að hluta til í skipulagsmálum og í þeim fjölmörgu stefna sem pólitískir fulltrúar hafa samþykkt í gegnum tíðina.

Stefna VG um framtíð Akureyrarbæjar til næstu 25 ára byggir á okkar grunngildum um jöfnuð og umhverfisvernd. Við viljum skapa fjölskylduvænt samfélag þar sem sveitarfélagið nýtir sín verkfæri í útdeilingu fjármuna til jöfnunar fyrir íbúanna. Akureyrarbær á sannarlega að vera barnvænt samfélag með hag fjölskyldna í fyrirrúmi. Við leggjum mikla áherslu á að efla virka samgöngumáta til að draga úr notkun einkabílsins. Aðgerðir sem lúta að því hafa jákvæð efnahags-, umhverfis- og lýðheilsu áhrif. Skipulagsmál eiga að byggja á umhverfis- og lýðheilsugildum. Styðja skal við fjölbreytta atvinnuuppbyggingu innan sveitarfélagsins með góðu skipulagi, fjölbreyttu úrvali lóða og jákvæðni í samstarfi um uppbyggingu. Mikilvægt er að efla Akureyri sem borgina á landsbyggðinni, gæta hagsmuna sveitarfélagsins í hvívetna þegar kemur að fjölgun starfa á vegum ríkisins og þjónustu þess við íbúa og landshlutann í heild.

SPURT ER –  Hver er stefna framboðanna í skólamálum? (Væri gaman að fá annað en hið einfalda svar að þar sé unnið frábært starf og stefnt að því að svo verði áfram!)

SVAR – Skólar sveitarfélagsins eru okkar helsti vettvangur til að auka á jöfnuð. Við leggjum áherslu á að að efla stuðningsþjónustu við börn í leik- og grunnskóla, ekki síst við börn með annað móðurmál en íslensku og börn með sérþarfir. Við teljum tímabært að líta yfir farinn veg og meta hvernig tekist hefur til við innleiðingu “skóla án aðgreiningar”, Við teljum mikilvægt að styrkja forvarnir með aukinni jafnréttis- og kynjafræðslu í skólum og fræðslu um hið stafræna samfélags. Það er orðið afar mikilvægt að bæta starfsumhverfi kennara, efla samstarf ríkis og sveitarfélaga um fjölgun kennaranema og stuðla þannig að hærra hlutfalli fagmenntaðra kennara á öllum skólastigum. Auka þarf svigrúm kennara til þróunar í fræðslustarfi. VG á Akureyri stefnir á að gera skólamáltíðir og frístund gjaldfrjálsa í skrefum.

SPURT ER –  Hvernig væri að byggja einn mjög flottan fyrsta flokks Akureyrarvöll, fjölnota „stadium“ til framtíðar fyrir alla Akureyringa með öllu sem þarf, á sama stað og gamli er?

  • Frekar en að rembast í einhverjum þokkalegum aðstöðum fyrir 2 eða hugsanlega fleiri lið, þá að hugsa stórt og til framtíðar fyrir alla og með skynsemi í huga.
  • Öll efstu fótboltaliðin á Akureyri noti hann fyrir keppnisleiki, hvort sem liðin eru 1-2-3-4 eða hvað mörg.
  • Völlurinn væri fyrsta flokks og landsliðin okkar gætu spilað landsleiki þar.
  • Okkar Akureyrarlið gætu spilað Evrópuleiki og allt slíkt sem gæti þurft.
  • Stór bílakjallara undir öllu og yfirbyggð stúka, mögulega hægt að loka alveg yfir.

SVAR – Við teljum það sveitarfélaginu til meiri heilla að nýta frábært svæði miðsvæðis til annars konar uppbyggingar. Þau mistök að byggja upp á tveimur stöðum voru gerð fyrir 20 árum síðan og erfitt að snúa ofan af því. Hins vegar er það svo að í samningnum sem undirritaður var kom fram að völlurinn sem byggður verður upp á KA svæði verður heimavöllur KA, en Þór, Þór/KA og önnur félög á Akureyri geta spilað leiki þar ef þarf.

SPURT ER –  Háspennulína, Blöndulína 3, er stórmál en ég er algjörlega mótfallinn því að það verði loftlína ofan við Giljahverfi og Móahverfi og að Rangárvöllum. Aðalskipulag Akureyrar gerir ráð fyrir að línan fari í jörðu frá sveitarfélagsmörkum og að Rangárvöllum. Fulltrúi Landsnets sagði í RÚV um daginn að ÞAÐ KÆMI EKKI TIL GREINA að leggja línuna í jörðu á þessum kafla.

Kjósendur verð að fá skýr svör frá öllum framboðum um þetta. Kemur til greina að mati framboðanna að falla frá því sem segir í aðalskipulagi bæjarins og gefa eftir þannig að Landsnet fái að hafa þetta loftlínu. Ég veit að það er stórmál að fá þetta rafmagn en líka STÓRMÁL að vita hvort komi til greina að bærinn eftir. Ég verð að vita þetta áður en ég greiði atkvæði.

SVAR – Það kemur ekki til greina að falla frá því sem stendur í aðalskipulagi og gefa eftir það að Landsnet fái að hafa þetta í loftlínu. Við í VG munum berjast fyrir því að línan fari í jörðu frá sveitarfélagsmörkum og að Rangárvöllum, þetta er stórt hagsmunamál fyrir Akureyrarbæ.

SPURT ER –  Hvað hyggjast framboðin gera til að styrkja stöðu hinsegin og kynsegin fólks á Akureyri? Vita hvernig þau ætla að tryggja fjölbreytileika á Akureyri og tryggja mannréttindi þessa hóps og möguleika til að njóta lífsins á Akureyri, í skólum, íþróttum, félagsstarfi og annars staðar í samfélaginu?

Ég sá í kynningarefni framboðanna í gær að aðeins Píratar snerta á málefnum þessa hóps sem er hratt stækkandi og skrýtið að akureysku framboðin skauti alveg framhjá þessu málefni.

SVAR – VG vill að Akureyrarbær verði hinseginvænna sveitarfélag. Við teljum að hinseginvænt samfélag eigi m.a. að byrja í skólastofunni, en ekki er síður þörf á því víðar í samfélaginu. Við viljum auka fræðslu, stuðla að vitundarvakningu, bjóða þann stuðning og þá aðstoð sem þarf og leggja okkar af mörkum til að tryggja þjónustu og þá helst hér í bæ þegar svo er unnt, allt til að komast í áttina í að verða fordómalaust samfélag sem öll geta blómstrað í og lifað örugg og hamingjusöm. Oddviti hefur t.a.m. kallað eftir því að úttekt verði gerð á öllu húsnæði bæjarins m.t.t. þessa og þeirri úttekt fylgt eftir með aðgerðum til úrbóta. Við viljum heyra raddir hinsegin fólks og vera í samráði við þau um málefni sem snerta þau. VG hefur talað fyrir málefnum hinsegin og mun áfram gera það, enda mikilvægur hópur í okkar samfélagi.