Fara í efni
Íþróttir

Elma Eysteinsdóttir hættir í bæjarstjórn

Þau skipuðu þrjú efstu sæti L-listans fyrir bæjarstjórnarkosningarnar vorið 2022; Gunnar Líndal, Halla Björk Reynisdóttir og Hulda Elma Eysteinsdóttir.

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar á morgun, þriðjudaginn 16. september, verður tekin fyrir lausnarbeiðni Huldu Elmu Eysteinsdóttur bæjarfulltrúa L-listans. Ástæða þess að Elma hættir í bæjarstjórn er að hún er að flytja búferlum frá Akureyri ásamt fjölskyldu sinni.

Í stað Elmu tekur Brynja Hlíf Þorsteinsdóttir sæti sem aðalmaður í bæjarstjórn. Brynja Hlíf skipaði 5. sæti framboðslista L-listans fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2022 en flokkurinn fékk þá mest fylgi allra framboða, 18,7%, og er með flesta bæjarfulltrúa, fékk 3 fulltrúa kjörna í bæjarstjórn. Elma skipaði annað sætið á framboðslista flokksins en varð oddviti hans snemma á kjörtímabilinu þegar Gunnar Líndal Sigurðsson oddviti flokksins hætti í bæjarstjórn.

Auk þess að vera bæjarfulltrúi L-listans var Elma varaformaður bæjarráðs og formaður velferðarráðs. Við stöðu hennar í bæjarráði tekur Halla Björk Reynisdóttir og Andri Teitsson kemur inn í velferðarráð og sest í formannssætið í stað Elmu.

L-listinn er í meirihlutasamstarfi í bæjarstjórn með Sjálfstæðisflokki, sem hefur 2 bæjarfulltrúa, og 1 fulltrúa Miðflokks.

Lokatölur í kosningunum 2022