Fara í efni
Íþróttir

Vídeóverk af lífrænum dansi nærmyndanna

Heimir Freyr Hlöðversson margmiðlunarlistamaður. Eitt vídeóverkanna á sýningunni 'Samlífi' í bakgrunni. Mynd: RH

Um helgina verða opnaðar tvær nýjar sýningar á Listasafninu á Akureyri. Önnur þeirra ber heitið 'Samlífi' og það er Heimir Freyr Hlöðversson, margmiðlunarlistamaður og kvikmyndagerðarmaður sem er á bak við hana. Heimir er Akureyringur í grunninn en hefur búið í Reykjavík á fullorðinsárum. Blaðamaður Akureyri.net hitti á Heimi, þar sem hann var að gera klárt fyrir opnun.

„Ég gerði sýningu í Ásmundarsal árið 2020 þar sem ég safnaði ísklumpum úr fimm mismunandi skriðjöklum Vatnajökuls,“ segir Heimir, um ræturnar að sýningunni. „Þá fór ég að mynda inn í ísinn á meðan hann var að bráðna. Jökulís er svo heillandi, og reyndar er svolítið af honum á þessari sýningu líka.“ Þarna opnaði Heimir á sína botnlausu forvitni og heillaðist af nærmyndum af lífrænu efni, og tilraunir hans með áframhaldandi nærmyndir leiddu til verkanna á sýningunni sem verður opnuð á laugardaginn kemur, 17. maí kl 15.00.

Upptökur úr tilraunasmásjánni

Sýningin Samlífi er bæði vídeóverk og ljósmyndir, en myndböndin eru í raun upptökur Heimis af því sem á sér stað þegar eitthvað lífrænt efni mætir öðru og allt fer af stað. „Ég er að blanda alls konar efni á litlar tilraunaskálar og blanda einhverju við,“ segir Heimir. „Mér finnst svo heillandi þegar maður setur til dæmis alkóhól ofan á eitthvað efni, þá kviknar líf og hreyfing.“

Samlífi – hvernig eitt hefur áhrif á annað og hvernig við lifum saman og höfum áhrif, það heillar mig

„Þessi heimur nærmyndanna er svo dularfullur, þú ert að horfa, og þú veist ekki hvort þú ert að horfa á eitthvað pínulítið eða hvort það er risastórt,“ segir Heimir. „Stundum er eins og allur alheimurinn sé að hreyfast í þessum litla diski. Þetta er upplifunarsýning, þar sem ímyndunaraflið ræður för.“ 

 

Myndir frá sýningunni 'Samlífi'

Myndar tengingu við það minnsta og viðkvæmasta

„Ég var að vinna hjá Gagarín í níu ár, þar sem við gerðum mikið af sýningum og oftar en ekki kom náttúran við sögu,“ segir Heimir. „Þar gerði ég til dæmis dropaverk fyrir íshellinn í Langjökli, þar sem ég notaði nærmyndir og heimurinn sem opnast þegar maður fer að horfa inn í hlutina, er magnaður.“ Heimir vann líka verkefni fyrir Skaftafellsstofu í Vatnajökulsþjóðgarði, þar sem hann myndaði nærmyndir af plöntulífinu við Lakagíga. „Samlífi – hvernig eitt hefur áhrif á annað og hvernig við lifum saman og höfum áhrif, það heillar mig,“ segir Heimir.

„Í umræðunni um loftslagsmálin, þá finnst mér þetta litla skipta svo miklu máli,“ segir Heimir. „Það minnsta og viðkvæmasta í náttúrunni er svo stórt í rauninni. Umræðan er oft bara um stóru myndina, en mig langar að beina sjónum að nærumhverfinu og nýta tæknina til þess að sýna þetta minnsta. Mig langar að mynda tengingu í örheiminn og sýna fólki að þar er allt á hreyfingu, allt að gerast. Í kring um okkur, inn í okkur. Alls staðar.“  

Heimir verður með listamannaspjall kl 15.45 á laugardaginn kemur, á opnunardaginn.


Tvær sýningar verða opnaðar á laugardaginn kemur, en auk Heimis verður sýning Þóru Sigurðardóttur, Tími – Rými – Efni, opnuð. Hér má sjá frekari upplýsingar um opnun helgarinnar, og hér er viðtal við Þóru um sýningu hennar.