Fara í efni
Íþróttir

Veruleg jákvæð áhrif af millilandafluginu

Flugfélagið easyJet flýgur tvisvar í viku á milli Akureyrar og Gatwick flugvallar í London. Ljósmynd: Þórhallur Jónsson

Ný rannsókn sýnir veruleg jákvæð áhrif af beinu millilandaflugi frá Akureyri. 

Í rannsókninni kemur að 80% þeirra sem flogið hafa til útlanda um Akureyrarflugvöll telji flugið hafa aukið lífsgæði sín og það komi ekki á óvart. Fram kemur að ekki skipti máli hvort viðkomandi flugfarþegar séu búsettir á Norðurlandi vestra, Akureyri, annars staðar á Norðurlandi eystra eða á Austurlandi.

„Hins vegar vekur nokkra athygli að um helmingur íbúa á Norður- og Austurlandi sem ekki flugu um Akureyrarflugvöll á síðustu tólf mánuðum töldu beina flugið engu að síður hafa aukið lífsgæði sín. Hæst er þetta hlutfall meðal Akureyringa sem ekki hafa notfært sér flugið en fer lækkandi eftir því sem fjær dregur.“

  • Rannsóknin kallast „Beint flug er næs“: Svæðisbundin áhrif millilandaflugs frá Akureyri.
  • Höfundar eru Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og rannsóknaprófessor í byggðafræði við Háskólann á Akureyri, Jón Þorvaldur Heiðarsson, hagfræðingur og lektor við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri og Guðný Rós Jónsdóttir, MA nemi í félagsfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknin var styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

Niceair markaði þáttaskil

Höfundar segja stofnun Niceair snemma árs 2022 hafi markað ákveðin þáttaskil í millilandaflugi frá Akureyri. „Félagið var stofnað af hagsmunaaðilum á Norðurland og stefndi að reglubundnu áætlunarflugi með einni farþegaþotu til ýmissa áfangastaða í Evrópu árið um kring,“ segir þeir. Allmörg dæmi séu um að heimafólk í evrópskum smáborgum á stærð við Akureyri stofni flugfélög utan um rekstur einnar flugvélar en séu flest aðeins með eina litla skrúfuvél í ferðum til höfuðborgarinnar eða annarrar.

Í rannsókninni kemur fram að um þriðjungur Akureyringa hafi ferðast milli landa með Niceair á tíu mánaða tímabili 2022 til 2023.

„Flug Niceair til Kaupmannahafnar og Tenerife sýndi að heimamarkaðurinn á Norðurlandi eystra getur staðið undir reglubundnu millilandaflugi allan ársins hring en ferðir erlendra ferðamanna eru nauðsynlegar til að tryggja ásættanlega sætanýtingu á öllum leggjum. Þessar niðurstöður geta nýst til frekari uppbyggingar millilandaflugs um Akureyrarflugvöll.“

Þota Niceair kemur til Akureyrar í fyrsta skipti, 30. maí árið 2022. „Flug Niceair til Kaupmannahafnar og Tenerife sýndi að heimamarkaðurinn á Norðurlandi eystra getur staðið undir reglubundnu millilandaflugi allan ársins hring en ferðir erlendra ferðamanna eru nauðsynlegar til að tryggja ásættanlega sætanýtingu á öllum leggjum,“ segir í rannsókninni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Í rannsókninni segir meðal annars um Niceair:

  • Að jafnaði var sætanýtingin 62% en hún var þó mismunandi eftir áfangastöðum og tímabilum. Þannig var sætanýting í Kaupmannahafnarflugi Niceair 72–74% sumarið 2022 en aðeins 50–52% fyrstu þrjá mánuði ársins 2023.
  • Sætanýting í Tenerife fluginu var jafnari en þó dró úr ferðum frá Akureyri til Tenerife fyrstu þrjá mánuði ársins 2023. Hér kann að hafa skipt máli að snemma árs 2023 gengu háværar sögur um rekstrarerfiðleika Niceair og líklegt má telja að það hafi dregið úr vilja fólks til að nýta sér flugið.
  • Fjöldi einstaklinga frá einstökum svæðum á Norður- og Austurlandi endurspeglar að hluta til mannfjölda, en um helmingur allra íbúa Norðurlands er búsettur á Akureyri.
  • Þegar farþegafjöldinn er umreiknaður sem hlutfall af íbúafjölda kemur í ljós að þeir 6.453 Akureyringar sem flugu einn eða fleiri leggi með Niceair samsvara þriðjungi allra íbúa á Akureyri.
  • Farþegar búsettir annars staðar í Eyjafirði eða annars staðar á Norðurlandi eystra samsvara 15–18% íbúa þeirra svæða.
  • Hins vegar virðist upptökusvæði Niceair ekki hafa náð að neinu marki vestur fyrir Öxnadalsheiði eða austur fyrir Möðrudalsöræfi.
  • Þeir 179 íbúar Norðurlands vestra sem flugu með Niceair samsvara aðeins 2% íbúafjölda landshlutans og þeir 438 Austlendingar sem flugu með félaginu samsvara aðeins 4% íbúa Austurlands.
  • Farþegar frá öllum öðrum landshlutum voru 384 talsins og samsvarar það um 0,1% annarra landsmanna
Styrkleikar og veikleikar
 
„Starfsemi og síðar gjaldþrot Niceair sýna glöggt styrkleika og veikleika svæðisbundinna flugfélaga og áhættuna sem fylgir leigu á farþegavélum. Niceair lagði mikla áherslu á góð tengsl við samfélagið og flugáætlanir þess miðuðu að verulegu leyti við þarfir heimafólks fyrir flug utan að morgni og heim að kvöldi,“ segir í rannsókninni.
 
„Félagið naut mikillar velvildar í samfélaginu og sætanýting þess var prýðileg. Hins vegar var félagið vanfjármagnað frá upphafi og lítið sem ekkert svigrúm var fyrir viðskiptaleg mistök eða óvænt áföll. Afar hagstæður samningur Niceair við HiFly um votleigu á farþegaþotu í eigu Avolon sem gerður var í lok Covid reyndist félaginu þannig að lokum dýrkeyptur. Þegar aðstæður á flugmarkaði bötnuðu fór af stað flókin flétta sem leiddi til þess að Niceair missti frá sér flugvélina og varð í kjölfarið gjaldþrota. Að nokkru leyti má sjá hliðstæðu í falli Niceair árið 2023 og íslensku lággjaldaflugfélaganna Iceland Express árið 2012 og Wow árið 2019, en öll þrjú félögin urðu gjaldþrota í kjörfar þess að leigusamningar um farþegavélar við erlenda aðila brugðust.“
 
97% farþega Norðlendingar
 
Höfundar rannsóknarinnar segja að þrátt fyrir stuttan líftíma og svipleg endalok hafi starfsemi Niceair sýnt fram á ýmsa möguleika millilandaflugs um Akureyrarflugvöll. „Þannig kom til dæmis í ljós að hægt væri að fljúga áætlunarflug með farþegaþotu til Akureyrar allan ársins hring, en aðeins eitt flug var fellt niður vegna veðurs frá byrjun júní fram til byrjun apríl næsta ár.“
 
Jafnframt sýndi Niceair fram á umtalsverða eftirspurn eftir beinu áætlunarflugi og stærð heimamarkaðarins á Norðurlandi fyrir millilandaflug. Sætanýting á tíu mánaða líftíma félagsins var að meðaltali rétt um 60%, og um 70% á vinsælustu flugleggjunum eins og áður kom fram.
 
„Íslendingar og útlendingar búsett á Norðurlandi fylltu að meðaltali 75 af 150 sætum Airbus-A319 vélarinnar og vinir þeirra og fjölskyldumeðlimir fylltu að meðaltali 15 sæti til viðbótar. Þessi tiltölulega stóri heimamarkaður býður upp á margvísleg tækifæri í uppbyggingu reglubundins millilandaflugs frá Akureyri í framtíðinni,“ segir í rannsókninni.
 
 
Síðan segir: „Niceair tókst hins vegar ekki að draga verulegan fjölda erlendra ferðamanna til Akureyrar. Þótt fimmtungur farþega hafi verið erlendir ríkisborgarar voru flestir þeirra búsettir á Íslandi eða í heimsókn til fjölskyldu og vina á Íslandi. Raunar benda niðurstöður þessarar rannsóknar til þess að 97% farþeganna hafi verið Norðlendingar af íslenskum eða erlendum uppruna ásamt vinum og venslafólki en aðeins 3% hafi verið erlendir ferðamenn með engin tengsl við landið. Þetta hefði þó hugsanlega breyst með lengri starfstíma, markvissara markaðsstarfi og fleiri áfangastöðum.“
 
Höfundar rannsóknarinnar segja að tíminn muni leiða í ljós hver langtímaáhrif reynslunnar af starfsemi Niceair verði á millilandaflug um Akureyrarflugvöll. „Líklegt má teljast að hún hafi stutt ákvörðun lággjaldaflugfélagsins Easyjet um að hefja beint flug milli Akureyrar og London veturinn 2023–2024.“
 
Þeir segja ennfremur að ákvörðun Easyjet hafi eflaust kallað á tengiflug Icelandair frá Akureyri til Keflavíkur frá sama tíma. Það sé þó e.t.v. til marks um breytta tíma í flugsamgöngum að í byrjun nóvember 2023, miðað við mánaðar bókunarfyrirvara, „var tengiflug Icelandair frá Akureyri til Keflavíkurflugvallar í tengslum við millilandaflug Icelandair til London tvöfalt dýrara en flug Easyjet alla leið frá Akureyri til London, og með sama fyrirvara var miði með innanlandsflugi Icelandair frá Akureyri til Reykjavíkur rúmlega þúsund krónum dýrari en tveir flugmiðar með Easyjet frá Akureyri til Keflavíkur með viðkomu á Gatwick flugvelli.
 

Nánar hér um rannsóknina