Fara í efni
Íþróttir

Ungmennalið SA pakkaði Fjölni saman

Jötnar fagna öðru marki liðsins og öðru marki Bjarma Kristjánssonar. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Jötnar, Ungmennalið Skautafélags Akureyrar (U22), pakkaði saman meistaraflokksliði Fjölnis þegar liðin mættust í Skautahöllinni á Akureyri í gærkvöld í forkeppni Toppdeildar karla í íshokkí. Jötnar skoruðu átta mörk gegn tveimur. 

Bjarmi Kristjánsson skoraði þrjú mörk, Robbe Delport og Marek Vybostok tvö hvor og Bjarki Jóhannsson eitt. 

Frábært U22 lið SA

Eins og Akureyri.net hefur áður greint frá er keppt eftir breyttu fyrirkomulagi í Toppdeild karla þar sem fyrstu leikirnir eru hluti af forkeppni fimm liða, þriggja meistaraflokksliða og tveggja ungmennaliða. Aðeins SA og Fjölnir senda U22 lið til leiks, en SR hætti við að tefla fram ungmennaliði á síðustu stundu. Í forkeppninni spila ungmennaliðin, Jötnar og Húnar, einu sinni gegn hverju meistaraflokksliði, en mætast svo innbyrðis aftur og aftur út veturinn.

Jötnar hafa spilað þrjá leiki af fjórum í forkeppninni og hafa nú þegar unnið tvo og eiga aðeins eftir að mæta sínum eigin félögum í meistaraflokki SA. Jötnar unnu Húna 11-2 á útivelli í fyrsta leik, töpuðu mjög naumlega fyrir SR, 4-5, einnig á útivelli, en gerðu sér svo lítið fyrir og unnu flottan sigur á Fjölni í gærkvöld, 8-2. 

Þurfa ekki eldri leikmennina

Leikmenn fæddir 2004 og síðar eru löglegir með ungmennaliðunum, en þegar ungmennalið leikur gegn meistaraflokksliði má styrkja liðið með fjórum eldri leikmönnum úr meistaraflokki og þarf að tilkynna minnst 12 tímum fyrir leik hvaða leikmenn það eru, ef ætlunin er að nota slíka. Jötnar eru hins vegar svo vel mannaðir að þeir þurfa ekki að nýta sér regluna um eldri leikmenn. Í hópnum í gær voru þó fimm leikmenn meistaraflokks með Jötnum, en þeir eru allir löglegir með Jötnum aldursins vegna.

Bjarmi Kristjánsson, einbeittur á svip og tilbúinn í dómarakast. Bjarmi skoraði þrennu í leiknum í gær og átti auk þess eina stoðsendingu. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Það kemur svo ungmennaliði SA einnig til góðs að félagið er með tvo kornunga erlenda leikmenn, Slóvakann Marek Vybostok, tvítugan sóknarmann sem er á sínu öðru ári hjá félaginu, og Belgann Robbe Delport, 18 ára leikmann sem er nýkominn til félagsins. Tveir afar sprækir leikmenn sem styrkja bæði lið SA. Þar fyrir utan hefur félagið innan sinna raða marga unga og efnilega leikmenn þannig að í raun er engin þörf á að styrkja Jötnaliðið með eldri leikmönnum.

Það blés þó ekki byrlega í upphafi því einn af leikmönnum Jötna, Uni Blöndal, fór úr axlarlið eftir byltu á svellinu og var borinn út af. Einu sinni sem oftar sýndi sig vel mikilvægi sjúkrateymis SA, sem er á öllum íshokkíleikjum í höllinni og Akureyri.net hefur áður fjallað um. Strax var fagfólk mætt inn á svellið til að hlú að Una og kanna meiðslin, en hann svo að lokum borinn út af og sóttur af sjúkrabíl.

Liðsfélagar Una skauta með hann á börum út af svellinu. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Þrjú mörk á 70 sekúndum

Gestirnir náðu forystu með marki Gabríels Egilssonar eftir tæplega tveggja mínútna leik, en Bjarmi Kristjánsson svaraði með tveimur mörkum í fyrsta leikhlutanum. Jötnar leiddu því 2-1 þegar fyrsta leikhluta lauk.

Það var síðan eins og Fjölnismenn væru hreinlega ekki mættir á svellið í upphafi annars leikhluta því Jötnar röðuðu inn mörkunum, skoruðu strax eftir 14 sekúndur og alls þrjú mörk á 70 sekúndum. Fjölnir skipti þá um markmann, en Jötnar gáfu ekkert eftir heldur bættu við tveimur mörkum í viðbót áður en öðrum leikhluta lauk, staðan 7-1 og enn 20 mínútur eftir.

Leikurinn róaðist síðan nokkuð, ef þannig má að orði komast um þessa hröðu íþrótt íshokkí, en bæði liðin bættu við einu marki í þriðja leikhlutanum. Fjölnismönnum gekk erfiðlega að nýta yfirtöluna til að skora þegar leikmenn Jötna fengu refsingar, jafnvel tveimur fleiri, en seinna mark þeirra kom þó einmitt í þeirri stöðu, tveir leikmenn Jötna í refsiboxinu og þá loks kom annað mark Fjölnis þegar um tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum.

Áður en Fjölnir skoraði annað mark sitt skoruðu Jötnar raunar mark sem virtist löglegt, en sá sem þetta skrifar sat upp við glerið til hliðar við markið og hafði því fullkomið sjónarhorn, en á upptöku frá leiknum er erfitt að sjá að pökkurinn hafi farið yfir línuna. Markadómari gaf hins vegar ekki merki um mark, en aðaldómari leiksins dæmdi þó mark í fyrstu, en hætti svo við eftir samtal við markadómarann. 

Kornungur markvörður Jötna, Elías Orri Rúnarsson, fæddur 2008, var frábær í markinu og sá til þess að fæst skot Fjölnismanna rötuðu í markið. Hann varði 31 skot, sem er um 94% markvarsla. 

Jötnar

Mörk/stoðsendingar: Bjarmi Kristjánsson 3/1, Robbe Delport 2/1, Marek Vybostok 2/0, Björn Jónsson 0/3, Ormur Jónsson 0/2, Stefán Guðnason 0/2, Arnar Kristjánsson 0/1, Gabríel Benjamínsson 0/1.
Varin skot: Elías Rúnarsson 31 (93,9%).
Refsimínútur: 12.

Fjölnir

Mörk/Stoðsendingar: Róbert Pálsson 1/1, Gabríel Egilsson 1/0, Hilmar Sverrisson 0/1, Hektor Hrólfsson 0/1.
Varin skot: Þórir Aspar 16 (76,2%), Óskar Rúnarsson 14 (82,4%).
Refsimínútur: 2.

Eins og áður hefur komið fram skipta stig liða og leikmanna í þessari forkeppni engu máli þegar áfram verður haldið með mótið eftir tvískiptingu á milli meistaraflokkanna og ungmennaliðanna. Þá byrja liðin og leikmenn aftur á núlli.

Flott umgjörð hjá SA

Ástæða er til að hrósa Skautafélagi Akureyrar fyrir flotta umgjörð leikja í Skautahöllinni. Í fyrsta lagi er íshokkíáhugafólk duglegt að mæta á leiki og alltaf góð stemning. Þá gefur risaskjár í suðurenda hallarinnar líka leikjum skemmtilegan blæ því þar birtast endursýningar marka strax eftir að þau eru skoruð. Þess á milli eru svo leikklukka, markatafla og refsingar sýnilegar á skjánum.

Eins og aðrir íshokkíleikir hér á landi var leikurinn í gær í beinni á YouTube-rás Íshokkísambandsins og má sjá upptöku af honum hér: